18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (3466)

124. mál, rannsókn á sölu íslenskra landbúnaðarafurða

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg get ekki látið mál þetta fara svo úr deildinni, að ekki fylgi því nokkur orð af hálfu landbúnaðarnefndar.

Eins og greinargerð till. ber með sjer, hefir nefndin athugað mál þetta nokkuð. Flestum hugsandi mönnum verður nú tíðrætt um fárhagsvandræði vor og atvinnuhorfur, og eru þær ekki glæsilegar. Nefndin hefir því tekið upp mál þetta, hvað landbúnaðinn snertir, og er árangurinn af þessum athugunum till. sú, sem hjer liggur fyrir.

Nefndin lítur svo á, að vandræði landbúnaðarins stafi aðallega af verðfalli afurðanna, en það stafar aftur af almennu verðfalli í heiminum og einnig af of þröngum markaði og ónógri vöruvöndun. Ef landbúnaðurinn á að rjetta við, verður hann að vinna bug á örðugleikum þessum, og af því að við erum fámennir og dreifðir, verðum við að leita aðstoðar þjóðfjelagsins í þessu efni að einhverju leyti. Í öðrum löndum er slíkt oft í höndum einstakra öflugra fjelaga, en hjer verður því tæplega til að dreifa fyrst um sinn.

Till. sú, sem nefndin ber fram, er í þremur liðum, og skal jeg nú athuga þá nánar hvern fyrir sig.

Eins og kunnugt er, var maður sendur utan fyrir nokkrum árum til að rannsaka söluskilyrði ullarinnar. Árangurinn af þeirri ferð var ullarmatið. Síðan það komst á, hefir lítið verið gert til umbóta, en reynslan hefir sýnt, að matið er óábyggilegt, og væri mikilsvert, ef einhverju yrði þar um þokað. Kunnugir menn hafa sagt mjer, að mikill munur sje á 1. flokks ull úr ýmsum landshjeruðum, og er þá eðlilegt, að útlendingum gangi illa að átta sig á mati okkar. Við þurfum fyrst og fremst að koma samræmi á matið, og er það fyrsta sporið. Þá þurfum við að kynnast kröfum kaupendanna til vörugæða og reyna að uppfylla þær, því ella er ekki hægt að gera þær breytingar, sem að gagni koma.

Maður hefir nýlega verið sendur til Englands til þess að kynnast þessu lítilsháttar, en fullkomið lag getur ekki á þessu orðið, fyr en við fylgjumst nákvæmlega með þeim kröfum, sem gerðar eru á ýmsum tímum. Við fáum ekki sæmilegt verð fyrir ullina, fyr en við getum gert kaupendunum til hæfis.

Þá er markaðurinn. Hingað til höfum við eingöngu skift við England og Ameríku hvað ullina snertir, en nú er útlit fyrir, að hægt sje að opna markað í Þýskalandi og Póllandi, og væri það ekki lítilsvert. Það er kunnugt, að Þjóðverjar standa mjög framarlega í allskonar iðnaði, og gætu þeir því ef til vill haft ráð á að gefa meira fyrir ull okkar en aðrar þjóðir, því þeim gæti orðið meira úr henni að ýmsu leyti. Og það er líklegt, að við getum einmitt fengið markað þarna, því að keppinautar okkar, Rússar, standa mun ver að vígi nú en við. Ef þetta tækist, teldi jeg mjög mikið unnið.

Sendimaður okkar þyrfti jafnframt að kynna sjer þær verksmiðjur, sem vinna úr íslenskri ull, og fyrirkomulag þeirra, því að af því má margt læra, bæði um verkun og meðferð ullarinnar, og hvernig okkur mundi best að haga okkur, er við hefjumst sjálfir handa í þessum efnum.

Þó að það sje óneitanlega æskilegast, að íslensk ull væri öll unnin í landinu sjálfu, og það er markið, sem við eigum að stefna að, þá er þess svo langt að bíða, og við verðum að sjá okkur fyrir góðum markaði á meðan. Landbúnaðinum er það lífsspursmál, að afurðirnar geti selst með sæmilegu verði, og engin fyrirhöfn er of mikil til þess, að því takmarki verði náð.

Þá er kjötið. Það er eitt af aðalframleiðsluvörum okkar, en sú aðferð, sem notuð er við verkun þess, er úrelt. Aðrar þjóðir hafa yfirleitt yfirgefið þá leið að salta kjötið, og markaður fyrir saltkjöt þrengist óðum. Nú er svo komið, að Noregur einn mun vera viðskiftavinur okkar að þessu leyti. Við verðum að yfirgefa saltkjötið eins og aðrir, og taka upp nýjar aðferðir. Þá eru þrjár leiðir fyrir hendi: að frysta eða kæla kjötið, að sjóða það niður, eða flytja út lifandi fje.

Sú aðferð, að frysta eða kæla kjötið, tel jeg að sje ógreiðust og tvísýnust vegna búskaparhátta, fámennis og samgönguvandræða.

Þá er niðursuðan. Í vændum er, að bráðlega muni fram fara tvær tilraunir með niðursuðu. Sláturfjelag Suðurlands ætlar að gera slíka tilraun, og Borgfirðingar hafa fengið lánsheimild á þessu þingi til slíkra tilrauna. Nefndinni hefir þess vegna ekki þótt ástæða til að gera till. um þetta efni að sinni.

Þá er þriðja leiðin, að flytja út lifandi fje. En til þess þarf að fá undanþágu frá innflutningsbanni á lifandi fje í Englandi. Orsökin til þessa banns var sú, að á Norðurlöndum hafa geisað og geisa enn illkynjaðir sjúkdómar, svo sem klaufnasýki o. fl., en vegna ókunnugleika Englendinga vorum við teknir þar með. Það hefir ekki verið gerð tilraun til að fá þessu breytt, en nú finst nefndinni tími til kominn, að hafist sje handa í þessu efni, að reynt sje að fá udanþágu, svo að flytja megi sauði og fullorðinn fjenað til Englands, án þess að slátra honum við skipshlið. Jeg held, að stjórnin standi vel að vígi í þessu efni; hún hefir hæfum mönnum á að skipa, eins og t. d. sendiherra okkar, og eflaust mætti fá aðstoð danska utanríkisráðuneytisins. Stjórnin þyrfti þá að láta gera ítarlega rannsókn, sem mundi leiða það í ljós, að þessir sjúkdómar fyndust ekki hjer á landi. En ef enska stjórnin vildi ekki taka slíka rannsókn gilda, þá mætti láta hana tilnefna menn til að framkvæma hana eða skipa fyrir um, hvernig hún skyldi gerð.

Nefndin gengur þess ekki dulin, að miklir örðugleikar eru á að koma þessu í framkvæmd. England hefir lengi haldið við frjálsri verslun, en nú lítur út fyrir, að verndartollastefnan sje að sigra þar. En þetta ætti þó ekki að draga úr því, að þessi tilraun yrði gerð, því að hún má á engan hátt undir höfuð leggjast.

Það gæti líka komið til mála, að reyna að opna markað víðar. Jeg veit, að Belgar keyptu hjer um eitt skeið lifandi fje, en ekkert veit jeg, hvernig söluskilyrði eru þar nú. En ef allar þessar tilraunir bregðast, sem jeg verð að telja mjög illa farið, er ekki annað fyrir hendi en að reyna að hefja undirbúning og rannsaka kælingu kjötsins, svo að tilraunir í þá átt verði sem fyrst gerðar.

Það er að minni hyggju mesta óhapp, ef við sleptum tökum á þessu máli. Við verðum að halda áfram með rannsóknir þessa máls, og þó að við finnum ekki viðunandi markaðsleiðir í bili, þá megum við aldrei gefast upp eða sleppa tökum á málinu. Framtíðarmarkið er efling iðnaðarins í landinu og þar með fólksfjölgunin, svo að full þörf verði fyrir alt okkar kjöt, með öðrum orðum að nota sem mest af þessum vörum í landinu sjálfu.

Því er eins varið með kjötið og með ullina, að við verðum að vanda allar okkar vörur og gera þær svo úr garði, að þær geti á sínum tíma staðið jafnfætis samskonar vörum annara þjóða á erlendum markaði.

Þá er þriðji og síðasti liður till., um hrossasöluna. Jeg mintist á það á öndverðu þingi, er hrossaeinkasalan var til umr., að mjer virtist markaðurinn fyrir hrossin æðiþröngur, því eftir upplýsingum, sem jeg hefi fengið, þá var talsvert af hrossunum óselt við síðustu áramót, bæði í Danmörku og Englandi.

Hjer ber að sama brunni sem um aðrar útflutningsvörur okkar, að leita verður að nýjum leiðum, og hefir nefndinni þá sýnst, að einna tiltækilegast væri að leita til Svíþjóðar. Sú leið er vitanlega að nokkru kunn frá fyrri árum, en hefir nú ekki verið farin um skeið. Fyrir nokkrum árum ferðaðist hjer um land sænskur hestakaupmaður, sem keypti nokkra hesta og fór með þá til Svíþjóðar. Tókst tilraun þessi ágætlega og hugði maður þessi á framhaldandi viðskifti og bjó sig undir það, en þá tók dauðinn í taumana, einmitt þegar hann hafði alt undirbúið og ætlaði hingað út, og varð þetta eflaust að miklu tjóni.

Sumarið 1919 var lítilsháttar tilraun gerð um að selja hesta til Svíþjóðar, en það hefir að líkindum lent í handaskolum, því eftir því sem sagt er, hefir tilraunin tekist illa og lægra verð fengist þar heldur en í Danmörku.

En þessi tilraun 1919 sannar ekkert um það, að ekki megi fá jafngóðan markað í Svíþjóð nú fyrir hesta okkar eins og í Danmörku. þetta mál þarf því að rannsaka eftir því sem föng eru á. Það þarf að senda duglegan og ábyggilegan mann til Svíþjóðar, sem vit hefir á máli þessu, og láta hann kynna sjer alla málavexti og útvega pantanir. Hygg jeg, að þetta myndi best takast og verða heppilegast til lykta leitt með því að komast í samband við landbúnaðarfjelögin sænsku. Einnig gætum við farið að dæmi annara þjóða, sem eftirtekt vekja á afurðum sínum í löndum þeim, sem lítið þekkja til þeirra. Við gætum látið semja smáritlinga og gefið þá út á sænsku, með myndum af hestum okkar. Slíkir ritlingar hafa hjá öðrum þjóðum reynst ágætt „agitations“-meðal, og bygg jeg því, að þeir myndu geta komið að sama gagni fyrir okkur, og þó að varið væri til þess nokkrum hundruðum króna, þá geri jeg ráð fyrir, að slíkri upphæð væri ekki á glæ kastað, heldur myndi það margborga sig.

Þá er þriðja leiðin í máli þessu, sem jeg vildi beina til stjórnarinnar, að landbúnaðarháskólinn danski væri fenginn til að gera tilraunir með hesta okkar. Danir eru góðir búmenn eins og kunnugt er, og taka mikið mark á tilraunum landbúnaðarháskólans og tilraunastöðvanna, í búnaðarmálum. Danir eru líka kunnir að því að offóðra hesta okkar, svo mjer er nær að halda, að þeim notist ekki eins vel að þeim þeirra hluta vegna. Einnig mætti og benda Dönum á að nota önnur aktýgi; þeir munu að jafnaði nota brjóstaktýgi í stað klafa, sem betur eiga við okkar hesta, af því að þeir eru svo hálsstuttir, en sú er reynsla okkar, að brjóst- eða hálsaktýgi þrengja að andrýminu og draga úr úthaldi hestsins.

Fleira mætti um þetta fjölyrða, þó að jeg láti hjer staðar numið.

Nefndin hefir tekið fyrir þrjár aðalútflutningsvörur landbúnaðarins, sem jeg hefi nú gert að umtalsefni. Að hún slepti gærunum kemur til af því, að hún vissi, að Samband íslenskra samvinnufjelaga hefir tekið málið að sjer til nauðsynlegra rannsókna.

Landbúnaðarnefndin, hefir hugsað sjer, að stjórnin leitaði ráða til Búnaðarfjelags Íslands um ýms atriði þessa máls, og sömuleiðis að því er sölutilboð snertir, að hún hefði í ráðum með sjer sláturfjelögin og sambandið, t. d. að framkvæmdastjóri íslenskra samvinnufjelaga væri hafður með í ráðum.

Nefndin væntir þess, að hæstv. stjórn geri það, sem henni er unt, til rannsóknar máli þessu og horfi ekki svo mjög í kostnað, því hjer er áreiðanlega mikilsvarðandi rannsóknarefni á ferðinni, og þó að árangurinn komi ekki í ljós fyr en á næsta ári eða næstu árum, þá er ekkert við því að segja, ef hann aðeins getur orðið sem mestur og bestur.

Þetta, sem hjer er lagt til, skoðar nefndin nánast sem byrjun á víðtækum rannsóknum á öllu því, er snertir sölu íslenskra landbúnaðarafurða erlendis, og verði haldið áfram árum saman.

Aðrar þjóðir verja miklu fje í slíku augnamiði. En hjá okkur er það lítið og að mestu leyti fálm. En í þessu efni megum við ekki sitja hjá og horfa á.

Að endingu vil jeg geta þess, að við höfum ekki ráð á því að láta aðrar þjóðir sópa því fje til sín, sem við gætum hæglega dregið saman, ef við hefðum samtök um það. Og jeg vonast eftir, að hæstv. stjórn taki þetta nauðsynjamál að sjer og vinni því alt það gagn, er hún má.