20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (3484)

145. mál, lækkun forvaxta

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Það hefir lengi brunnið við, að bankarnir okkar hafa verið sundurlyndir og ósammála um flesta hluti. En eitt hafa þeir þó altaf verið sammála um og samtaka. Það er að okra á viðskiftamönnunum. þetta hefir sjerstaklega komið fram við hlutfallslega of háa forvexti. Bankarnir hafa verið fljótari til að hækka vexti í samræmi við erlendan peningamarkað en að lækka. Nú er svo komið, að vextir hjer eru orðnir 2% hærri en í bönkum nágrannalandanna. Á jeg þar við Bank of England og Nationalbanken í Danmörku. þetta er í sjálfu sjer næsta varhugavert, að þing og stjórn skuli ekki hafa haft hönd í bagga með þessu, þar sem Landsbankinn er þjóðareign og Íslandsbanki er mjög upp á landið kominn. þess vegna ætti þeim ekki að þolast að íþyngja viðskiftamönnum sínum um skör fram. Það hefir áreiðanlega haft nokkur áhrif á forvaxtahækkunina þetta vitlausa kerfi, sem tekið var upp, að láta bankastjórana hafa hlut af gróða bankanna. Þetta hefir orðið til þess, að bankarnir hafa teflt djarfara, sett vexti hærri og tekið minni og óöruggari tryggingu, í þeirri von að græða sem mest. En þetta hefir orðið til þess, að siglt hefir verið út í ógöngur, eins og raun ber vitni um Íslandsbanka.

Jeg skal taka það fram, að þó að þetta mál virðist svipað því máli, sem var hjer til umræðu áðan, þá er það þó annars eðlis. Hjer er farið fram á, að þessi hv. deild láti uppi það álit, að hún vilji, að vextir verði hjer lækkaðir í samræmi við vaxtalækkun erlendis. Og svo er stjórninni falið að koma því á framfæri við bankastjórnirnar.

Jeg ætla, að enginn hv. deildarmanna geti haft nokkuð á móti þessu. Enginn þarf að óttast það, að bankarnir sjái ekki um sig þrátt fyrir þetta.

Jeg hygg, að jeg þurfi svo ekki að fjölyrða frekar um þetta að sinni.