16.04.1921
Efri deild: 45. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

38. mál, verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður

Frsm. (Sigurður Jónsson):

Þetta mál hefir verið rætt í landbúnaðarnefndum beggja deilda. Var það fyrst rætt í landbúnaðarnefnd þessarar háttvirtu deildar, og síðan í landbúnaðarnefnd neðri deildar. Þar voru gerðar á því smávegis breytingar; sumar þeirra voru til skýringar, aðrar gera hvorki til nje frá, en svo eru líka nokkrar, sem beinlínis eru til hins lakara. Þannig er t. d. fyrirsögn frv. breytt, þar sem orðið „kjarnfóður“ er sett í staðinn fyrir orðið „fóðurbæti“, Slík breyting getur ekki talist til bóta, því að margt getur verið fóðurbætir, þótt ekki sje beinlínis hægt að kalla það kjarnfóður.

En þessar breytingar eru svo litlar, að ekki er hægt að telja þær beinlínis efnisbreytingar. Landbúnaðarnefnd efri deildar leggur því til, að frumvarp þetta verði samþykt, eins og það liggur nú hjer fyrir.