20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3492)

141. mál, löggilding baðlyfs

3492Björn Hallsson:

Jeg er í vafa um, hvort rjett sje að samþykkja till. Þó að jeg hafi ekki eins langa reynslu að baki mjer og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þá hefi jeg reynt þetta baðlyf, og hefir reynst það mjög illa. Það er gert ráð fyrir því af umboðsmönnum baðlyfsins, að blanda megi með 1 á móti 150, og telja þeir það ágætt bað. En það er bráðónýtt, og veitir ekki af að blanda það með 1 á móti 60. Auk þess er ábyggilegt, að það eyðileggur ullina, af því að töluvert af „arsenik“ er í því, enda hefir dýralæknirinn lagt á móti því, að það yrði löggilt, og sömuleiðis fjárræktarmenn, svo sem t. d. Jón H. Þorbergsson. En ef það er lítið blandað, skemmir það auðvitað meira ullina. Jeg hefi reynt ýms kláðaböð, sem mjer hafa gefist langtum betur, og vil jeg þar fyrst tilnefna Mc. Dougalls bað, sem er fitumikið og freyðir við blöndun, eykur ullarvöxt og helst vel í fjenu.

Jeg hefi vitað fje drepast af Coopersbaði, vegna þess, að það hefir ekki þolað eiturloftið af uppgufuninni. Mjer finst ekki rjett að fara því að löggilda slíkt bað hjer, þegar nóg er af betri böðum. Mjer virðist mest eiga að fara eftir tillögum dýralækna í þessu máli. (S. St.: En reynslunni?). Jeg hefi nú verið að skýra frá reynslunni, og þótt jeg sje ekki sextugur eða sjötugur, eins og hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), þá er jeg þó á fimtugsaldri og hefi því nokkra reynslu í þessu efni, þar sem jeg hefi reynt mörg baðlyf og flest þessu betri. Jeg verð að telja dýralækna hafa betur vit á þessu máli en hv. þingmenn, þar sem þeir þekkja efnasamsetningu lyfjanna. Jeg hefi góðar heimildir fyrir því, að kreólín og lysól drepi betur kláðamaurinn en þetta baðlyf, en þau böð eru ekki skaðleg ullinni. — Jeg mun því greiða atkv. á móti þessari þál.