20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

141. mál, löggilding baðlyfs

Flm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg skal nú ekki vera margorður. Jeg verð að segja það, að það er þó ekki til einskis barist, fyrst maður fær að heyra það hjá stjórninni, að hún metur meira álit dýralæknisins eins en margra ára reynslu bænda í sveitum og sýslum um land alt. Jeg ætla nú ekki að berjast neitt fastlega með þessari þál.

Jeg tek undir með háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að þeir, sem nota vilja þetta bað og álíta það best til kláðalækninga, munu geta náð í það hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki. Þessi till. er einungis gerð til þess að þurfa ekki að ganga á svig við lögin til þess að ná í þetta baðlyf. Því að sumum mönnum er nú þannig farið, að þeir vilja ekki brjóta lögin nema mikið liggi við.