20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

144. mál, héraðsskóli o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Jeg hafði alls ekki ætlað mjer að taka til máls hjer í dag, en hv. flm. (E. E.) gaf mjer tilefni til þess. Jeg er meðflytjandi þessarar till„ en jeg skal taka það fram, að það er aðeins vegna einnar setningar, sem í henni er. Að öðru leyti er till. svo rúm og almenns efnis, að jeg hefði ekki gerst meðflytjandi, ef þessi setning hefði ekki flotið með. En setning þessi lýtur að því, að viðleitni til barnafræðslu á heimilunum verði studd og efld. Jeg hefi fylgst allvel með í fræðslumálamoldviðrinu, sem staðið hefir frá því um aldamót. Og síðan fræðslan fór að taka upp þann útlenda búning, sem virðist hafa verið sniðinn á hana með fræðslulögunum frá 1907, þá hefir, að minni hyggju, hinum gamla, þjóðlega búningi, barnafræðslunni á heimilunum, hnignað að mun. Það munu vera fá heimili, sem lagt hafa áherslu á hana síðan. En jeg þekki það af eigin reynslu, hvers virði heimilisfræðslan er, þar sem hún er rækt með alúð og samviskusemi, því að jeg hefi aldrei notið neinnar fræðslu í barna- eða unglingaskólum. Jeg hygg, að jeg megi fullyrða það, að fræðsla skólanna, jafnvel þar, sem þeir eru bestir, sem mun vera í kaupstöðunum, muni standa að baki heimilisfræðslu í sveitum.

Þetta er þá ástæðan til þess, að jeg ljet nafn mitt fljóta með á þessa þál., og vona jeg, að þetta mikilsverða atriði gleymist ekki, þegar málum þessum verður skipað.