20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3504)

146. mál, skaðabótagreiðsla út af hrossakaupum landsstjórnarinnar sunnanlands

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg get verið hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) þakklátur fyrir það, hvað stuttorður hann var, og þarf jeg ekki að viðhafa mörg orð. Jeg hefi áður skýrt frá því, hvernig á þessu stendur, og verður stjórninni ekki um það kent. Það getur hver sagt sjer sjálfur, að þegar hrossin eru keypt eftir mati, þá getur altaf sprottið upp einhver óánægja út af matinu, en ekki má setja þeim, sem kaupa, of þröngar skorður. Jeg hafði hugsað mjer að rannsaka þetta mál, þótt engin till. hefði komið fram hjer á þingi, og er till. að því leyti óþörf.

Aðaltill. getur auðvitað alls ekki komið til greina, því að stjórnin hefir ekki yfir neinu fje að ráða í þessu skyni, enda óvíst, hvort því ætti að verja svo. Sama er að segja um varatill. En það er vitanlega hægt að samþykkja þrautavaratill., ef mönnum sýnist svo. Þessi sjóður er til, og honum má auðvitað skifta meðal þessara manna eftir því, sem rjettast þykir, en rjett verður það ekki fyrir því.

En jeg vil benda hv. deild á það, að lögin um hrossasöluna, sem þingið samþykti, eru aðeins heimildarlög, og ef fara á að binda um of hendur stjórnarinnar viðvíkjandi framkvæmd þeirra, getur það orðið til þess, að hún noti ekki heimildina.