20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í D-deild Alþingistíðinda. (3508)

146. mál, skaðabótagreiðsla út af hrossakaupum landsstjórnarinnar sunnanlands

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg vildi aðeins taka það fram út af orðum hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) við fyrri hluta þessarar umr., að þar sem hann vildi draga í efa, að skýrsla mín í málinu væri rjett, get jeg vísað til tveggja hv. þm., sem rannsakað hafa þetta mál og komist að sömu niðurstöðu. Það er hvorki tími nje tækifæri til þess nú að skýra málið nákvæmlega, en 10–20 kr. hefir að meðaltali verið gefið minna fyrir sunnlensk hross en norðlensk. Það er sannanlegt af þeim skýrslum, sem hjer liggja fyrir. Jeg vil benda háttv. deildarmönnum á það, að ef nokkurrar sanngirni á að gæta, er varla hægt að fara vægara í sakirnar en gert er í till. til þrautavara, og vona jeg, að hún verði að minsta kosti samþykt.