03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3514)

121. mál, ullariðnaður

Björn Hallsson:

Jeg vil lýsa ánægju minni yfir þál. þeirri, sem komin er fram um aukinn ullariðnað, á þskj. 393. Mjer barst áskorun frá fulltrúafundi austur á Fljótsdalshjeraði fyrir stuttu síðan, þar sem skorað var á Alþingi að gefa stjórninni heimild til að láta rannsaka aðstöðu og skilyrði fyrir stofnun og rekstri kembi- og lopavéla á Fljótsdalshjeraði og fullkominnar klæðaverksmiðju við höfn á Austurlandi. Þessu hreyfði jeg í landbn., og ákvað nefndin að flytja till. í tilefni af þessari áskorun, um allvíðtæka rannsókn á þessu máli, eftir óskum frá hlutaðeigandi hjeruðum. Nefndin var búin að ræða till. og hafði hana til skrifaða, þegar þessi till. kom fram, og sá hún þá enga ástæðu til að koma með aðra till. um sama efni. Eigi að síður er þessi till. nokkuð á annan veg en nefndin hafði ætlað sjer, þó að aðaldrættirnir sjeu þeir sömu. Það hefir vakað fyrir flm. (E. E.) hið sama og fyrir nefndinni, að nauðsyn bæri til að bæta úr þeirri hnignun ullariðnaðarins hjer á landi, sem hann er kominn í, og reyna að efla hann og auka aftur eftir föngum. Það er tilfinnanlegt og ekki álitlegt, að við skulum kaupa mestöll fataefni okkar dýru verði frá útlöndum, en selja svo ullina út úr landinu fyrir smánarverð. En sem betur fer er nú komin hreyfing um alt land til að reyna að kippa þessu í lag. En þá eru þröskuldir, sem komast þarf yfir, og eru þeir misháir. Jeg held, að fyrst og fremst sje sú leið tiltækilegust, að komast yfir lægsta þröskuldinn. Að því stefna líka heimilisiðnaðarfjelög og vefnaðarnámsskeið, sem stofnuð hafa verið hjer á landi, að efla heimilisiðnaðinn sem undirstöðuatriði. Til þess að styrkja hann hefir hv. flm. (E. E.) bent á það, að spunavjelar gætu komið til greina og þá einnig prjónavjelar.

Tillaga landbúnaðarnefndar stefndi að því að auka heimilisiðnaðinn og jafnframt koma upp klæðaverksmiðjum, er unnið gætu utanyfirfataefni nægileg handa landsmönnum.

En nú gengur sú alda yfir hjer á landi, að menn geta ekki notað neitt heimaunnið í utanyfirföt, þykir það ekki nógu „fínt“. Það vakti fyrir nefndinni, að viðráðanlegast, vegna kostnaðar, og álitlegast til flýtis heimavinnu væri að koma upp vjelum til að kemba ull og koma henni í lopa, og svo tækju við af þeim vjelum spuna- og prjónavjelar. Með því móti væri stefnt að því marki, að losna við nærfata- og millifatakaup frá útlöndum, og eins plagga.

Hins vegar er vinna nú svo dýr, að ekki borgar sig að taka kaupafólk til þess að vinna með handafla einum að ullarvinnu. Aftur á móti er fólk víða svo fátt, að það kemst ekki yfir mikla ullarvinnu auk venjulegra heimilisstarfa. Þess vegna þarf smærri vjelar til að ljetta og flýta vinnu vorri.

Kembi- og lopavélar eru á Halldórsstöðum í Þingeyjarsýslu, og hafa gefist vel. Einnig er þar fundin upp handspunavjel, sem virðist álitlegur vegur til flýtis heimavinnu ullar.

Jeg er nýbúinn að fá skeyti af Seyðisfirði um það, að þar sje stofnað undirbúningsfjelag til þess að koma þar upp klæðaverksmiðju. Það sýnir, að þó að getuna vanti ef til vill, þá vantar ekki viljann, og er það straks spor í rjetta átt.

Af því, sem jeg hefi nú tekið fram, sjest, að landbúnaðarnefnd hugsaði sjer þessar rannsóknir ekki eins víðtækar nú þegar eins og hv. flm. till. (E. E.). Taldi nefndin mega bíða þau atriði þessara rannsókna, sem ekki væri líklegt, að gætu komist í framkvæmd fyrst um sinn, svo sem stofnun sútunarverksmiðju og svo fullkominna klæðaverksmiðja, að hægt væri að vinna alla íslenska ull þar. Enda mundi ómögulegt að framkvæma það, sem till. innibindur, nema á mörgum árum. (E. E.: Jeg tók það fram).

Jeg undirstrika það, að við verðum að byrja neðan frá heimilisvinnu og halda svo áfram til víðtækari starfa, uns aðaltakmarkinu er náð, að vinna úr okkar eigin ull allan þann fatnað, er landsmenn þurfa.

Jeg vil ekki gera neina tillögu um, hvort málinu skuli vísað til landbn. eða ekki, af því, að jeg á þar sæti, en af því, að nefndin hafði líka till. á prjónunum, bjóst jeg við, að henni mundi verða vísað til hennar. Hins vegar fylgja till. útgjöld fyrir ríkissjóð, ef hún verður samþ., og þykir þess vegna ef til vill tiltækilegra að vísa henni til fjárveitinganefndar. En landbn. mun eigi að síður athuga hana og gera brtt., sem henni þættu má ske betur fara.