07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3519)

121. mál, ullariðnaður

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg stend upp einungis til þess að láta í ljós þakklæti mitt til hv. flm. till. (E. E.) og hv. landbúnaðarnefndar.

það er sárt til þess að vita, að þetta mikilsverða mál skyldi ekki vera komið lengra á leið áður en fjárkreppan fór að þrengja að. Stjórnin hefir síðan hvorki haft tíma nje fje til þess að sinna málinu. Þó var vakið máls á því á aukaþinginu í fyrra.

Jeg er þakklátur hv. nefnd fyrir að leggja aðaláhersluna á heimilisiðnaðinn, því að jeg hygg, að ef hægt er að efla hann, muni það reynast drýgst og útlátaminst. Jeg get borið vitni um það, að það, sem eftir eimir af tóvinnu um miðbik Þingeyjarsýslu, er mikið að þakka tóvinnuvjelunum á Halldórsstöðum og því, að náðst hefir til vjelanna á Akureyri. Það er víst um það, að ef kembingarvjelar væru til víða á landinu, mundi það lyfta mjög undir heimilisiðnaðinn, með því að losa heimilin við kembinguna, því nú komast þau ekki yfir það fyrir fólksfæð og of miklum kostnaði við fólkshald.

Þá er líka nauðsynlegt að koma upp spunavjelum á heimilunum, eins og nefndin ráðgerir. Þess ber að geta, að heimilisiðnaðarfjelagið hefir gert mikið til þess að hrinda af stað þessu máli.

Jeg hallast að brtt. hv. landbn. Og þó að skinnaverkunin þurfi líka að takast með og það sje bágt til þess að vita, að meðferð á skinnum hefir alls ekki batnað, heldur jafnvel þvert á móti á síðustu 50–60 árum, þá mundi það verða frekar verkefni fyrir einstaka menn eða fjelög að koma upp skinnasútunartækjum. Þess vegna held jeg, að tóskapurinn verði að sitja fyrir. Jeg hygg, að sútunarverksmiðjur komist ekki á fót fyrir ríkisstuðning einan. Jeg get bent á það, að Samband íslenskra samvinnufjelaga hefir haft það mál talsvert í huga, en ekki getað enn aðhafst neitt vegna fjárkreppunnar.

Þó að þetta sje mikilsvert, þá verð jeg að telja ullariðnaðinn mikilsverðari. Var jeg yfirleitt svo samþykkur hv. frsm. (B. H.), að mjer fanst flest, sem hann sagði, eins og talað frá mínu eigin brjósti.