11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3526)

121. mál, ullariðnaður

Gunnar Sigurðsson:

Jeg stend upp til þess að lýsa vanþóknun minni á því, að úr hinni upprunalegu till. skuli hafa verið feld rannsókn á vjelum til sútunar. Jeg býst við, að fyrir hv. landbn. hafi það vakað, að hjer þurfti að kosta nokkru fje til. En þó er jeg hræddur um, að með þessu sparnaðartiltæki hafi nefndin sparað eyrinn til þess að henda krónunni.

Eins og öllum er kunnugt, þá hafa gærur nú fallið afskaplega í verði. En hins vegar er nú í Englandi talsverður markaður fyrir sútaðar sauðargærur. Gæti einnig verið um markað að ræða í Ameríku fyrir slíka vöru. það munu og ekki heldur vera mjög dýrar vjelar, er til þess þarf að súta sauðskinn. Við nautgripahúðir og þess háttar þarf dýrari tæki. Held jeg því, að nauðsynlegt sje að halda einmitt þessu máli vel vakandi.

Hefi jeg hugsað mjer á næsta þingi að taka þetta mál til nánari íhugunar og hafa þá kynt mjer rækilegar markað erlendis fyrir sútaðar sauðargærur. Er mjer og um það kunnugt, að slíkar vörur má nú flytja til Englands tolllaust, og þar eru þær sæmileg markaðsvara. Gærurnar íslensku væru ólíkt þrifalegri og skemtilegri útflutningsvara sútaðar heldur en í salti, eins og nú tíðkast.