13.05.1921
Efri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3533)

121. mál, ullariðnaður

Guðmundur Ólafsson:

Jeg er óundirbúinn að ræða þetta mál og skal því ekki tala lengi, fremur en minn er vandi. Mjer datt ekki í hug, að deildin hefði neitt við það að athuga, að skorað væri á stjórnina að rannsaka þetta mál, því jeg hefi ekki orðið annars var en að menn hafi talið þetta undanfarið eitt okkar mesta nauðsynjamál. Jeg hefi ekki sjeð neitt sjerstaklega athugavert við orðalag till. og bjóst hálfvegis við, að málinu yrði vísað til nefndar, og þá sennilega landbn.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) taldi sig mundu geta samþ. 1., 2. og 4. lið till., en ekki geta greitt 3. lið atkv. Jeg skal ekkert um það fullyrða, hvort 3. liður er jafnnauðsynlegur og hinir, þótt mjer í fljótu bragði virðist svo, og mjer finst ekkert á móti því að samþykkja hann, ef það gæti stuðlað til þess, að mál þetta yrði betur rannsakað og lægi ljósar fyrir í framtíðinni. Hjer eru margir menn, sem fúsir eru til að gera alt, sem unt er, til þess að rækta sálir landsmanna, en mjer finst það óviðkunnanlegt, að þeir sömu menn skuli vera á móti því, sem horfir líkamanum til gagnsmuna, því enn þá fer þó þetta tvent, sál og líkami, saman. Og af því þetta verður nú ekki sundur skilið, þá vildi jeg mega vænta, að þessi till., sem beinist að því að skapa ullariðnað í landinu, og því eingöngu lýtur að hinum líkamlegu þörfum manna, verði samþ. hjer í deildinni.