02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3559)

60. mál, viðskiptamálanefnd

Sigurður Eggerz:

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í þetta spursmál, sem hjer hefir verið deilt um, um nauðsyn landsverslunar og rekstur hennar undanfarið. Málinu verður vísað til nefndar, og jeg verð í þeirri nefnd, svo þar gefst tækifæri til þess að athuga þau deiluefni. Jeg ætla aðeins að benda á eitt atriði, sem stendur í nánu sambandi við það, sem hjer er rætt um.

Yfirstandandi tímar eru alvarlegir, svo alvarlegir, að ekki er hægt að segja annað en verið sje að skerða lánstraust landsins með því að láta undir höfuð leggjast að afla ríkissjóði fjár. Til þess að sýna, að jeg fer ekki með staðlausa stafi, skal jeg benda hv. samþm. á nokkur dæmi.

Þótt menn sjeu efnaðir, eigi nokkrar eignir og geti staðið í skilum með allar greiðslur sínar, þá geta þeir samt ekki viðhaldið lánstrausti sínu. Því þótt þeir borgi inn í bankana hjer fjárhæðir, sem þeir skulda erlendis, þá geta þeir samt ekki greitt þær skuldir sínar vegna þess, að bankarnir geta ekki yfirfært fjeð fyrir þá. Íslandsbanka hafa t. d. verið sendar miklar innheimtur, sem hafa verið greiddar inn í bankann, en hann getur ekki greitt aftur erlendis. En með hverri slíkri fjárkröfu, sem greidd er hjer í bankana og fæst greidd erlendis aftur, rýrnar lánstraust landsins. Og þetta er að miklu leyti sök stjórnarinnar. Það er hennar sök, ef landið glatar svo lánstrausti sínu, að það verður álitið sem gjaldþrota ríki erlendis.

Mjer er ekki gjarnt á að fara neinar krókaleiðir, og jeg segi það á brjóst stjórninni, sem jeg segi á bak henni og tel aðfinningarvert. Jeg vil sýna hæstv. stjórn fulla sanngirni og ekki ráðast á hana fyrir ýmsar ófyrirsjáanlegar yfirsjónir. En stjórnin verður altaf að sjá, hvað er aðalatriði hlutanna. Og það, sem stjórninni bar fyrst og fremst skylda til, var að bjarga lánstrausti 1andsins. Jeg sje einungis eina leið til þess að bjarga lánstrausti landsins, og það er lánaleiðin.

Alment er það álitið hjer í bæ, að stjórnin hafi sýnt mikla vanrækslu í því að leitast ekki fyrir um lán í Ameríku meðan gengi peninga þar stóð sem hæst síðastliðið haust. Norðmenn og Danir fengu, eins og kunnugt er, lán í Ameríku á þeim tíma. Og allar líkur má telja til þess, að við hefðum fengið lán með sömu kjörum og þeir, ef leitast hefði verið fyrir um það. Ef þetta lán hefði verið tekið meðan gengi amerískra peninga stóð hátt, þá hefði það bjargað lánstrausti landsins.

Þetta er það, sem mjer sýnist að hæstv. stjórn hafi vanrækt. Nú eru gerðar ýmsar kröfur til þingsins um að bjarga atvinnuvegum landsins, kröfur, sem hafa við full rök að styðjast og nauðsynlegt er að bæta úr. En það vantar fje, peninga, til þess að bæta úr þeim.

Segja má ef til vill, að enn þá megi taka lán, í Ameríku t. d., sje það vilji þingsins. En jeg ímynda mjer, að aðstaðan til þess sje nú erfiðari en áður, og því góða tækifæri slept.

Í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra, er hann lagði fram fjárlagafrv. í Nd., sje jeg, að hann hefir minst á þetta mál og skift lánum þeim, er ríki venjulega taka, í ýmsa flokka, svo sem eyðslulán, verslunarlán, lán til framkvæmda og „spekúlations“-lán. Jeg held, að þessi flokkaskifting hafi verið alls óþörf til þess að rjettlæta Vanrækslu stjórnarinnar í þessu efni. Jeg held, að ef því láni, sem við áttum að taka, verði gefið nafn, yrði hið rjetta nafn þess bjargráðalán, bjargráðalán til þess að forða atvinnuvegum vorum frá hruni og bjarga lánstrausti landsins.