02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

60. mál, viðskiptamálanefnd

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg var því miður ekki inni, þegar hv. 2. landsk. þm. (S. E.) hóf ræðu sína, en jeg heyrði þó, að hann sagði, að lánstraust landsins væri illa komið erlendis. Jeg get gefið þær upplýsingar, að þegar jeg var utanlands í sumar, í Danmörku og Svíþjóð, var þar ekki álitið, að hagur landsins væri illa kominn. Þar var þá alment álitið, að viðskiftakreppan væri eðlileg rás viðburðanna, sem ekki gengi yfir Ísland eitt, heldur allan heiminn.

Mjer finst það ekki bera vott um velvild til þessa lands að bera út, að lánstraustið sje farið. Utanlands, í Danmörku, er því haldið fram, að ekkert sje að fjárhag landsins, en hjer heima er viss flokkur manna, sem altaf er að stagast á því, að alt sje í kaldakoli.

Annars er undarlegt að halda því fram, að hægt sje að taka lán, ef lánstraustið er farið. Ef svo væri, hver skyldi þá vilja lána?

Að líkja saman lántöku Dana og okkar er rangt. Danir tóku lán til að kaupa land, ef svo mætti að orði komast.

Að taka gengislán, eins og Norðmenn gerðu, er ekki heppilegt. Þeir sjá ekki eftir öðru meir en að þeir skyldu taka þetta lán. Gengið hækkaði þar að vísu í bili, en fjell því meir á eftir, svo það varð lægra en það hafði nokkum tíma verið áður.

Það er ósköp vel hægt að slá því fram, að stjórnin hefði átt að taka gengislán í landi, þar sem gengið var hátt. En því tók hv. 2. landsk. (S. E.) ekki lán í Englandi eða Ameríku, þegar hann var fjármálaráðherra? Hann tók þá lán í Danmörku. Jeg álasa honum ekki fyrir það, þótt hann álasi mjer fyrir að fara svipað að og hann, í því að taka ekki lán í Englandi eða Ameríku.

Hann tók fram, að bankana vantaði lánstraust erlendis. Þetta getur verið. En Landsbankinn fjekk þó lán hjá viðskiftabanka sínum í haust, eins og hann bað um.

Jeg spurði bankastjóra beggja bankanna í haust, hvort þörf væri á láni. þeir fóru að reikna út, hvað mundi borgast inn og hverju þyrfti út að svara, og komust að þeirri niðurstöðu, að þess þyrfti ekki. Þá er eftir að athuga, hvort reikningur þeirra var rangur. Það getur verið, að hann hafi verið það, og það reyndist þannig, en það verður að dæma hverja ályktun út frá því, hvernig ástatt er þegar hún er gerð, en ekki eftir því, hvernig síðar verður.

Það er óþarft að ræða þetta mál frekar nú, en jeg tek þetta fram til þess, að eigi skuli standa ómótmælt það, sem hv. 2. landsk. (S. E.) sagði.