02.03.1921
Efri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3565)

60. mál, viðskiptamálanefnd

Flm. (Halldór Steinsson):

Það eru orðnar langar umræður, og jeg skal því ekki vera langorður.

Hæstv. atvrh. (P. J.) staðfesti flest það, sem jeg sagði í ræðu minni. Hann kannaðist við, að bannið á innflutningi á kolum væri gert til að sjá um, að landsverslunin yrði ekki fyrir tapi. Og sömuleiðis viðurkendi hann, að bannaður væri innflutningur á hveiti og sykri, en eftir því, sem mjer skildist, ekki vegna landsverslunarinnar, heldur af því, að það væri óþarfavarningur. Þetta er ný kenning, sem hefir ekki heyrst áður. En nú er þetta bann sýnilega gert til að varðveita landsverslunina, því það hveiti, sem nú er hægt að flytja inn, er miklu ódýrara en það, sem hún hefir.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að stjórnin ætti ekki upptökin að viðskiftahöftunum. þetta er rjett og ekki rjett. Þingið gaf heimild til að takmarka innflutning, en ætlaðist til, að það yrði aðeins gert á óþörfum varningi. En það, sem þar er fram yfir, er ekki frá Alþingi.

Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) hefir gersamlega misskilið ræðu mína. Hann sagði, að jeg hefði sagt, að viðskiftakreppan stafaði af landsversluninni. Það sagði jeg ekki, heldur hitt, að landsmenn yrðu að súpa seyðið af miður heppilegum ráðstöfunum landsverslunarinnar. Hann vildi ekki viðurkenna þörfina á að afnema hana, og hann nefndi sem dæmi upp á ágæti hennar, að hún hefði selt rúgmjöl lægra verði en aðrir. En þetta er veikt hálmstrá, því það er ekki erfitt að sýna, að einstakir kaupmenn hafa á ýmsum tímum getað selt ódýrara en aðrir.

En eins og jeg sagði, hefir háttv. þm. (G. G.) algerlega misskilið ræðu mína, en tíminn er svo naumur, að jeg get ekki farið að endurtaka hana, og hefi því ekki meira að segja.