02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

40. mál, póstlög

Ólafur Proppé:

Það má sjá á nál., að póststjórnin á sökina á því, að í undirbúningi frv. hefir verið gengið nokkuð langt með hækkanir á póstgjöldum.

Brtt. nefndarinnar fara þar í miðlunaráttina. Sjerstaklega er það með burðargjaldið undir almenn brjef. Nefndin hefir ekki farið þar lægra en að það samsvari burðargjaldinu til útlanda. (Atvrh.: Það var ekki fyllilega víst, hvað það yrði, er frv. var samið). Nú, þá má gera ráð fyrir, að stjórnin sætti sig við það.

Aðalástæða stjórnarinnar fyrir þessum hækkunum er sú, hvað flutningskostnaður hefir aukist gífurlega. Hann nemur um 200 þús. kr. síðasta ár, og er það aðallega með landpóstum, því að kostnaður við póstflutning með skipum er hverfandi. Þetta er stór upphæð, og ekki gott að segja hvenær hún lækkar, en að hún lækki á komandi ári, tel jeg líklegt. Jeg lít svo á, að allar hækkanir á póstgjöldum verði til óhagnaðar fyrir póstsjóðinn.

Það er ekki langt síðan, að þjóðin fór að skilja tilgang póstsambandanna og nota þau. Það er ekki mannsaldur síðan, að flest brjef bárust á skotspónum manna í milli, og það má búast við, að meiri hluti þjóðarinnar taki þessa aðferð upp aftur, ef burðargjöldin verða hœkkuð. Jeg vildi í sambandi við þetta minnast á, að símatekjurnar hafa lækkað, síðan símagjöldin og leiga á símum var hækkuð. Ritsímastjórinn skýrði mjer frá því, að hlutfallið milli teknanna á undan og eftir hækkuninni væri 4: 3,2, eða með öðrum orðum 20% lækkun. Ritsímastjóri var mjer sammála um það, að fólk væri hvatt til að spara símanotin með því að taxtarnir væru hafðir svo háir. Og þessi sparnaður bendir til þess, að komið sje að hámarkinu, og að mínu áliti hefir verið of langt farið. En það er mjög erfitt að draga þar rjetta línu um þau takmörk, er voru hagfeldust.

Ef tillögur póststjórnarinnar næðu fram að ganga, þá gæti það orðið til að rýra tekjur póstsjóðs, en nefndin hefir sjeð, hvað í húfi er, og stilt í hóf hækkuninni á flestum sviðum.

Jeg skal svo ekki fara fleirum orðum um frv. alment, en háttv. frsm. (Jak. M.) mintist á eitt atriði, sem jeg mun koma með brtt. við, ef nefndin ekki gerir það. Jeg á við, að eftir frv. á burðargjaldið undir símapóstávísanir að hækka um 100% frá burðargjaldi undir almennar póstávísanir. Þetta er svo gífurleg hækkun, að jeg býst ekki við, að menn mundu senda símapóstávísanir, nema í brýnustu þörf, og mundi það því áreiðanlega verða til að rýra tekjur póstsjóðs og landssímans. Það munu árlega vera sendar 4–5 þús. ávísanir um símann og nemur um 15 þúsund kr. tekjum með þeim 3 kr. taxta, sem nú er símagjald ávísananna, og auk þess 60 aurar undir 100 kr. í burðargjald. Þá er kostnaðurinn orðinn svo mikill, að þar yfir má hann ekki fara, og hækkunin komin svo langt, að bersýnilegt tap verður á því að halda henni áfram.

Póstmeistari færði það sem ástæðu fyrir þessari hækkun, að upphæðir hefðu missímast og að póstsjóður hefði tapað á því, en hann nefnir ekki hvað þær hafi verið miklar. Landssímastjóri kveður þetta vera lítilræði, og ef samkomulag hefði getað orðið, eða fram á það hefði verið farið, þá mundi þetta hafa fengist að nokkru endurgreitt. Það næmi máske nokkrum hundruðum króna árlega, og máske engu. Jeg ætla að láta þetta standa núna, en mun koma með brtt. við 3. umr., ef nefndin ekki gerir það.

Símagjaldið fyrir þessar ávísanir er líka óeðlilega hátt; 3 kr. hvort sem það er styttra eða lengra. í viðtali ljet landssímastjóri það í ljós, að hann mundi ekki hafa á móti, að það væri lækkað um 50%, eða úr 3 kr. niður í 2 kr. Vildi jeg vísa því til hæstv. atvrh. (P. J.) hvort hann eigi sæi ástæðu til þess, að gjald þetta yrði lækkað, eins og landssímastjóri telur hæfilegt.