23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (3570)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Flm. (Jón Þorláksson):

Það mun þykja hlýða, að gerð sje stuttlega grein fyrir höfuðástæðum þeim, er við flutningsmenn teljum vera til nefndarskipunar þeirrar, er við förum fram á.

Horfurnar um afkomu atvinnuveganna eru nú sem stendur áhyggjuefni öllum hugsandi mönnum í þessu landi. Eins og kunnugt er, hefir dýrtíð sú, sem stríðinu fylgdi, aukið afskaplega allan framleiðslukostnað, bæði til sjávar og sveita. Verkalaunin hafa, sem vonlegt er, hækkað nokkurn veginn hlutfallslega við hina almennu verðhækkun á nauðsynjavörum, og þau eru meðal stærstu gjaldaliðanna fyrir flestan atvinnurekstur. Efni og áhöld, sem til framleiðslunnar þarf að eyða eða nota, hafa einnig hækkað stórkostlega í verði, sumt af því margfaldast í verði síðan 1914. Þrátt fyrir þetta gat afkoma atvinnuveganna orðið þolanleg eða jafnvel góð, meðan verðlag íslenskra afurða hjelst í hendur við hina almennu verðhækkun. En nú er svo komið, að allar íslenskar afurðir eru fallnar mjög í verði, ýmsar jafnvel svo mjög, að nálgast verðlagið, sem var fyrir styrjöldina. Verðlækkun á erlendum nauðsynjavörum er að vísu byrjuð, an af ýmsum ástæðum gætir hennar ekki enn þá hjer á landi svo mjög, að neitt nálgist það, að hún samsvari verðfalli hjerlendu afurðanna. Niðurstaðan af þessu er sú, að hjerlendir atvinnurekendur sjá nú ekki fram á, að atvinnureksturinn geti með nokkru móti borið sig. Það hefir þegar orðið stórkostlegt tjón á síldveiðum í tvö ár, vegna verðfalls afurðanna. Þróttmesta grein sjávarútvegsins, togaraútgerðin, hefir síðasta ár verið rekin með stórtapi yfirleitt. Og nú eru horfurnar fyrir þá atvinnugrein svo svartar, að sem stendur er ekki útlit fyrir annað en að mestöllum eða öllum togaraflotan um verði lagt í 1ægi um hábjargræðistíma fiskimanna, um sjálfa vetrarvertíðina. Komi þetta fyrir, þá leiðir þar af dæmalaus neyð fyrir landsmenn og hrun á efnahag einstaklinga og tekjum ríkissjóðs.

Eina bjargarvonin virðist vera sú, að dýrtíðinni á erlendum nauðsynjum linni svo, að kostnaður við framleiðsluna geti færst það niður, að hún borgi sig.

Það verkefnið, sem nú kallar brýnast að landsstjórn og Alþingi, er að finna úrræði í þessum vanda atvinnuveganna. Því miður má sjálfsagt með rjettu segja, að litlar vonir sjeu til, að hið háa Alþingi geti fundið þau ráð, sem dugi, af því að misbrestirnir á afkomu atvinnurekstrarins eiga að talsverðu leyti rót sína að rekja til viðskiftalögmála, sem liggja fyrir utan valdsvið löggjafanna. En eins verður skýlaust að krefjast af hinu háa Alþingi, sem sje, að það sjái um, að allar ráðstafanir þær, sem ríkisvaldið gerir um þessi mál, miði að því að greiða fyrir atvinnurekstrinum, en hitt má alls ekki fyrir koma, að gerðar sjeu ráðstafanir því til fyrirstöðu, það tilkostnaður atvinnurekenda lækki svo, að framleiðslan geti borið sig.

Það er nú alment álitið, að viðskiftahömlurnar, og þá sjerstaklega innflutningshömlurnar á nauðsynjavörum, eigi mjög mikinn og beinan þátt í því, að verðlækkun sú, sem orðin er erlendis á ýmsum nauðsynjavörum, er svo lítið komin fram hjer. Menn þykjast sjá það, að skilyrðið fyrir því, að verðið lækki hjer, sje það, að ódýrari vörunum sje leyft að flytjast hingað, þótt birgðir af áður keyptum dýrum vörum kunni að vera hjer fyrir. Auðvitað mundi slíkt innflutningsfrelsi einatt hafa í för með sjer tap fyrir þá kaupsýslumenn, sem hafa gamlar og dýrar birgðir fyrirliggjandi, en neyðast til að lækka verðið þegar ódýrari vara sömu tegundar kemur á markaðinn. En atvinnurekendur og allur almenningur lítur svo á, að betra sje, að nokkrar verslanir verði fyrir tjóni í bili, en að almenn dýrtíð haldist og stöðvi framleiðsluna, og baki þar með eymd og atvinnuskort. Og verslunarstjettin sjálf viðurkennir þetta fullkomlega, með því að hún hefir nú alveg nýskeð nokkurn veginn einróma farið fram á, að innflutningshömlurnar yrðu úr gildi feldar. Okkur flutningsmönnum hefir því þótt nauðsyn til bera, að þessi hv. þingdeild skipaði nefnd til að rannsaka, hvort, eða þá að hvað miklu leyti, rjett eða forsvaranlegt mundi vera að halda innflutningshöftunum áfram, og við teljum, að Alþingi gæti ekki skyldu sinnar, ef það leiðir það mál hjá sjer.

Með viðskiftahömlunum má telja skömtun þá á sykri og hveiti, sem innleidd var að stjórnarráðstöfun um áramótin. Það er kunnugt, að sú ráðstöfun hefir mikinn kostnað í för með sjer, en um gagnsemi hennar efast menn talsvert alment, eftir því sem nú er komið, og þykir okkur því rjett, að það mál sje einnig athugað í hinni fyrirhuguðu nefnd.

Verslunarrekstur fyrir reikning ríkissjóðs byrjaði hjer á stríðsárunum, og þarf ekki að rekja tildrögin til þess. Allir viðurkenna, að það var óhjákvæmileg bjargarráðstöfun í styrjaldarvandræðunum. En nú virðast mönnum flestar þær ástæður vera horfnar úr heiminum, sem fyrirtæki þetta bygðist á. Við stöndum í því efni á tímamótum stríðs og friðar, og þá verður ekki komist fram hjá þeirri spurningu, hvort eða að hverju leyti þessi stríðsráðstöfun — landsverslunin — eigi að halda áfram sem friðar- og framtíðarráðstöfun. Okkur virðist óhjákvæmilegt, að núverandi Alþingi taki að einhverju leyti ákvörðun um þetta, þó ekki væri vegna annars en þess, að hæstv. stjórn hefir lagt fram 3 lagafrumvörp um landseinkaverslun framvegis, með allmargar vörutegundir. Ekki er þetta þó síður nauðsynlegt vegna þess, hve stórvægilegt stefnumál það er, hvort ríkisstjórnin skuli fást við verslunarrekstur, með öllum þeim afleiðingum, sem slíkt hlýtur að hafa fyrir stjórnarfar landsins og framkvæmdir hins opinbera á öðrum sviðum. Enn er sú ástæða, að menn greinir mjög á um það, hver áhrif landsverslun hafi haft og muni hafa á vöruverð í landinu. Það er álit margra manna, og virðist hafa við nokkur rök að styðjast, að landsverslunin eigi nokkum veginn jafnan þátt í því og innflutningshöftin að halda uppi dýrtíðinni í landinu, og vík jeg ofurlítið að því síðar.

Loks skal geta þess, að sú landsverslun, sem rekin hefir verið hjer til þessa, hefir verið mjög stórt fyrirtæki á peningamælikvarða, sennilega hið langstærsta, sem landið hefir haft með höndum, en um fjárhagsafkomu þessa fyrirtækis hafa gengið ýmsar sögur og mjög mismunandi. Er í alla staði nauðsynlegt, að Alþingi og landsmenn fái hið rjetta að vita um þessi efni, og því er það tilætlun okkar, að nefndin rannsaki og gefi skýrslu um rekstur landsverslunarinnar.

Loks skal jeg víkja að sambandinu, sem virðist vera milli landsverslunarinnar og innflutningshaftanna. Landsverslunin er rekin fyrir reikning ríkissjóðs og er mikið áhættufyrirtæki, sem raun hefir borið vitni, ekki síst á þeim tímum, þegar vörur eru að falla í verði. Í hvert sinn sem landsverslunin hefir keypt birgðir af vörum, og sú vörutegund síðan fellur í verði, þá rekast á hagsmunir ríkissjóðs annars vegar og almennings hins vegar. Er þá afsakanlegt, þótt landsstjórnin fari nokkuð langt í gæslu hagsmuna ríkissjóðs, enda virðist það vera gert, og til þess notuð innflutningshöftin. Skilorðir menn herma, að viðskiftanefndin, sem veitir eða synjar um öll innflutningsleyfi, hafi fengið tilmæli eða skipun frá ríkisstjórninni um að veita ekki innflutningsleyfi á þremur af þeim vörutegundum, sem landsverslunin verslar með, kolum, hveiti og sykri. Þess vegna fær verðlækkun þessara vörutegunda á erlendum markaði ekki að njóta sín hjer. Það liggur ekki fyrir að þessu sinni að gefa skýrslur um það, hve mikil sú verðlækkun kann að vera, sem vjer förum á mis við vegna innflutningshaftanna og sambands þeirra við landsverslunina, en til þess þó að gefa þessari háttv. þingdeild ofurlitla hugmynd um, hvað hjer getur verið um að ræða, skal jeg bera saman verð á hveiti og sykri, eins og það mundi verða komið á höfn á viðkomustað millilandaskipa utan Reykjavíkur, eftir því, hvort keypt er frá landsversluninni eða frá útlöndum, og á samanburðurinn við verð samkvæmt tilboðum, er fyrir liggja þessa síðustu daga.

Hveiti:

Verð landsverslunar, að

viðbættum flutningskostnaði

frá Reykjavík, fyrir sekk 63

kg kr. 92.00

Verð á sama frá útlöndum,

að viðbættum flutnings-

kostnaði kr. 48.30

Mismunur kr. 43.70

Neitað hefir verið núna síðustu

dagana um innflutningsleyfi á þessu

tiltölulega ódýra hveiti.

Sykur (strausykur):

Verð landsverslunar, að

viðbættum flutnings-

kostnaði frá Reykjavík, hvert kg. kr. 1.91

Verð frá útlöndum, að við-

bættum flutningskostnaði

og tolli, kg kr. 1.14

Mismunur kr. 0.77

Jeg vona, að þetta nægi til þess að sýna hinni hv. deild, að hjer er ekki um neitt smáræði að tefla, heldur stórmál, sem Alþingi getur ekki með nokkru móti leitt hjá sjer, og leyfi mjer því að vænta, að nefndarskipun sú, sem við förum fram á, verði samþykt.

Brtt. á þskj. 54 get jeg ekki aðhylst. Eftir henni mundi öll rannsókn og till. um verslunarrekstur fyrir reikning ríkisins falla fyrir utan verksvið nefndarinnar, að minsta kosti ef formaður nefndarinnar vildi svo vera láta, en um skipun bankamálanefndar hefir verið lögð fram önnur tillaga, sem er ekki til umræðu nú, og munum við flutningsmenn greiða atkvæði með þeirri nefndarskipun, er til kemur.