23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Magnús Kristjánsson:

Jeg bjóst ekki við, að umr. mundu komast inn á svo breiðan grundvöll, eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir gefið tilefni til, og er því ekki eins undirbúinn og skyldi. En jeg verð þó að leiðrjetta ýmsar rangfærslur og mishermi, sem komu fram í ræðu hans. Hann hjelt því fram, að landsverslunin hefði skapað dýrtíðina, eða fullyrti að minsta kosti, að hún hefði haldið henni við. Þessu verð jeg að mótmæla. Hvort þessi ummæli eru hjer fram komin til þess að endurtaka eina af þessum frægu þingmálafundaræðum frá því á dögunum, læt jeg ósagt. Þm. (J. Þ.) tilfærði ýms dæmi, en þau eru alveg óábyggileg. Ýms fleiri atriði komu fram í ræðu hv. þm. (J. Þ.), sem þyrfti að athuga, en jeg verð þó að fara fljótt yfir sögu.

Jeg vil þá fyrst spyrja hv. þm. (J. Þ.), hvort hann gæti haldið því fram, að landsverslunin hefði haldið uppi verði á steinolíu? Jeg verð að benda hv. þm. (J. Þ.) á það, að sú lækkun á steinolíu, sem nú er fram komin, er að þakka ráðstöfun stjórnarinnar og landsverslunarinnar.

Þá er einnig rúgmjölsverðið hjer í bæ mismunandi. Landsverslunin selur sekkinn á kr. 74.00, en kaupsýslumenn, jeg veit með vissu um einn, á kr. 88.00.

Þá mætti minna á sykurverðið. Það þýðir ekki að halda því fram, að landverslunin hafi haldið uppi sykurverðinu. Allir heilvita menn vita það, að þetta er alveg öfugt.

Enn fremur má hjer minnast á kolamálið, enda munu ummæli hv. þm. (J. Þ.) helst hafa átt við þau. Þar hefir nú staðið alveg sjerstaklega á oft og einatt. En þegar verkföll eða aðrar slíkar hindranir hafa ekki átt sjer stað, þá hefir full samkepni getað notið sín, og mjer er ekki kunnugt um, að verslanir hafi þó getað selt vörur sínar undir verði landsverslunarinnar. Það má reyna að villa mönnum sýn, og það er eins og hv. þm. (J. Þ.) hafi verið að fikra í kringum það, að einhver mistök hafi átt sjer stað að því er snertir kolaverslunina.

Þegar hv. þm. (J. Þ.) virtist gefa í skyn, að útgerðinni væri hætta búin af ráðstöfun landsstjórnarinnar, átti hann líklega við kolainnflutninginn, því að steinolían hefir þegar verið nefnd, og ráðstöfun stjórnarinnar í því efni var til bóta. Hvað snertir kolaverslunina, þá fullyrði jeg, að landsstjórnin hafi engar tálmanir lagt á veg útgerðarmanna að ná í þessa vöru svo ódýrt sem þeir gætu, nema ef vera skyldi tollur sá, er þingið 1919 lagði á kolin, en hann getur naumast hafa orðið útgerðinni til niðurdreps. Annars verður tækifæri til að ræða þetta mál ítarlegar síðar, og jeg skal nú aðeins minnast stuttlega á vöruverðlag það, sem háttv. þm. (J. Þ.) talaði um. Menn hafa álitið, að heppilegasta leiðin til að afla landinu hveitis væri að fá það frá Ameríku. Nú stóð svo á skipaferðum, að til þess að fá þá vörutegund varð að fá hana síðastliðið haust, enda vissi enginn þá, að verðfall væri í aðsigi. Kaupsýslumönnum stóð til boða að afla sjer þessarar vöru, en þeir vildu ekki. Nú hefir verðlagið breyst síðan, en þar sem engar skipaferðir hafa verið, þá er það eðlilegt, að verðfallsins hefir ekki gætt enn, að því er þessa vörutegund snertir. Kaupmenn hafa haft frjálsræði til að afla sjer þessarar vöru frá Englandi, en reynslan hefir verið sú, að verðið hefir ekki verið lægra, og varan að mun verri. Jeg veit, að hjer í deildinni eru menn, sem geta borið mjer vitni, ef orð mín verða vefengd.

Þá vil jeg aðeins víkja nokkrum orðum að þessum samanburði hv. þm. (J. Þ.) á því, hvað mætti fá vöruna fyrir nú. Ummæli hans í þessu efni eru alveg órökstudd. Ýms af þessum tilboðum sem hv. þm. (J. Þ.) gat um, eru hreinustu tylliboð, sem hampað er á lofti af þeim, sem vilja afnema viðskifti ríkisins, en hafa ekkert við að styðjast. Þessi tilboð munu reynast ósönn og óábyggileg, þegar á á að herða. Og jeg get ekki annað sagt en að verðfallsins hafi þegar gætt hjer hjá landsversluninni, bæði að því er steinolíu og sykur snertir, og hveiti mun lækka að mun þegar næsti farmur kemur. Annars er ekki ástæða til að fjölyrða um verðið á þeirri vörutegund, því að hún fæst alls ekki sem stendur.

Jeg get ekki annað en fallist á álit hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að það sje hjákátlegt með allar þessar till. um nefndaskipanir. Viðskiftamál eru ávalt fjárhagsmál, og þar sem nú er sjerstök fjárhagsnefnd í þinginu, þá lítur það aðeins út sem vantraustsyfirlýsing á þeirri nefnd að fara að skipa nýja nefnd. Og þótt nú slík nefnd væri skipuð, þá mundi það lítið breyta ástandinu. Þá nefnd mundu ef til vill sömu menn skipa og nú eiga sæti í fjárhagsnefnd, eða að minsta kosti þá yrði hún skipuð eftir sömu hlutföllum og flokkabrotin eru í þinginu, og því virðist lítill ávinningur í því að kjósa sjerstaka nefnd til þess að fara með samskonar mál. Og hvað aðalástæðu flm. (J. Þ.) viðvíkur, að málaumleitun kynni að koma fram, líklega frá útgerðarmönnum, þá er eðlilegast að taka slíka nefndarskipun til athugunar fyrst þegar slík málaumleitun er komin fram.

Jeg ætla þá ekki að segja meira að sinni, þótt hjer liggi fyrir ótæmandi efni, enda er það mín skoðun, að best sje, að þingmenn sjeu sem stuttorðastir, en reyni ekki að teygja lopann sem allra lengst, eins og sumum hv. þm. hættir svo mjög til að gera.