23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3573)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Flm. (Jón Þorláksson):

Viðvíkjandi því, hvert eigi að vísa þessu máli, þá hefði mátt vísa því til fjárhagsnefndar, en engin slík tillaga liggur hjer fyrir. Það er vísu satt, að viðskiftamál eru fjárhagsmál, en þau þurfa ekki endilega að vera fjárhagsmál ríkissjóðs.

Jeg hygg, að það hafi annaðhvort verið vond samviska þm. Ak. (M. K.), eða endurminningar hans frá þingmálafundunum, sem knúðu hann til þessarar ræðu sinnar; jeg gaf honum að minsta kosti ekki tilefni, því að jeg veittist ekkert að forstöðumönnum landsverslunarinnar nje að henni sjálfri. Gat aðeins um álit margra um hana, sem mjer sýndist hafa við rök að styðjast, og nefndi nokkrar tölur, máli mínu til árjettingar, sem jeg veit eigi betur en að sjeu rjettar, enda þótt þm. Ak. (M. Kr.) telji þær ósannaðar. Jeg benti aðeins á í ræðu minni, að hætta væri á því, að árekstur gæti orðið milli hagsmuna ríkissjóðs annars vegar og hagsmuna almennings hins vegar, og til þess að koma í veg fyrir þessa hættu framvegis væri það einfaldasta ráðið að afnema landsverslunina.

Mjer kemur ekki til hugar að neita því, að það geti komið fyrir, að landsverslun geri betri innkaup á vöru en kaupmenn, og selji þá ódýrara þá vörutegund; dæmi þessa eru steinolíukaupin, sem þm. Ak. (M. K.) gat um. Mætti það enda einkennilegt heita, ef landsverslun væri fyrirmunað að gera nokkru sinni betri innkaup en kaupmenn, á þeim tímum, sem alt vöruverð er sífeldum breytingum undirorpið. En einmitt vegna þessa, til að meta kostina og gallana, sem eru við verslunarrekstur ríkisins, er farið fram á það, að nefndin verði skipuð. Og því virðist þessi mótstaða gegn skipun nefndarinnar næsta undarleg, og eigi hægt að skýra hana öðruvísi en svo, að þeir vilji eigi, að málið sje rækilega athugað, þar sem engin till. liggur fyrir, um að vísa málinu til fjárhagsnefndar og brtt. á þskj. 54 eðlilegast ekki skilin svo, að með henni sje verið að reyna að koma því svo fyrir, að málinu verði ekki sint.

Þm. Ak. (M. K.) fullyrti, að landsstjórnin hefði ekki lagt neinar tálmanir fyrir sjávarútveginn, en sje það rjett, að innflutningshöftin haldi uppi dýrtíðinni í landinu, og að þeirra vegna verði bæði kaupgjald og fæðiskostnaður svo tilfinnanlegt, sem það nú er, þá eru ráðstafanir ríkisstjórnarinnar til tálmunar atvinnuvegunum, og það má aldrei vera.

Það eitt, að skoðanir manna eru skiftar um þetta atriði, er því meir en nóg ástæða til þess, að þetta þýðingarmesta mál, sem Alþingi nú hefir til meðferðar, fari í nefnd til rækilegrar yfirvegunar, og að athugað sje, hvort eigi er fært fyrir ríkisvaldið að gera einhverjar ráðstafanir til viðreisnar og viðhalds atvinnuvegunum.