23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3574)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg ætla ekki að blanda mjer í umr. um nefndarkosninguna, aðeins vil jeg segja örfá orð út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (J. þ.) því viðvíkjandi, að stjórnin hafi bannað viðskiftanefndinni að leyfa innflutning á vissum vörutegundum, sem landsverslunin verslar með. Það er rjett, að stjórnin ljet það í ljós við viðskiftanefndina, að rjett mundi að hamla innflutningi á hveiti og sykri, þar sem ákveðið var, að þessar vörutegundir skyldu skamtaðar.

Um skömtunina skal jeg ekki fjölyrða að þessu sinni, en þess eins má geta, að þegar skömtunin var ákveðin í október síðastliðnum, var verðhlutfallið milli hveitis og rúgs alt annað en það varð síðar, og ástæðumar til skömtunarinnar þá miklu ríkari en nú. En það er auðsætt, að fyrst um skömtun var að ræða, þá var ekki heppilegt að fá meiri forða af þessum vörutegundum inn í landið en sem svaraði til missiris þarfa, og það því fremur, þegar litið er til gjaldeyrisskortsins og erfiðleika einstakra manna á því að fá vörur keyptar erlendis. Jeg veit, að því er haldið fram, að þessar ráðstafanir stjórnarinnar hafi orðið til að halda við dýrtíðinni, en jeg hygg, að það sje eigi rjett. Ef marka má af umsóknum, sem lágu hjá viðskiftanefnd, um sykurinnflutning í nóvember, þá hefði einmitt mikið verið keypt af sykri meðan verðið var lítið fallið. Ráðstafanir stjórnarinnar urðu þessu til hindrunar, og hafa því beinlínis varnað dýrari sykurkaupum. Það er ekki heldur rjett, að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar vegna landsverslunarinnar, því að hennar sykri var þá öllum ráðstafað, og sá sykur, sem hún fjekk um áramótin, var með lækkuðu verði, og sykurverðið þá sett niður. Hvað hveitinu viðkemur, þá er hveiti frá Ameríku betra en annarsstaðar að og ekki dýrara, en hins vegar óhjákvæmilegt að safna saman, uns fenginn er heill farmur, ef flutningur á að fást beina leið; enda var Lagarfoss ráðinn til þess að sækja farm vestur í mars. því er auðsætt, að ekki var heppilegt að leyfa í stórum stíl viðbótarinnflutning af hveiti, þar sem skömtun var líka ákveðin á því. í stuttu máli: Stjórninni var ljóst, að menn gátu ekki keypt nema takmarkað vegna gjaldeyrisskortsins, og því nauðsynlegt, að ráðstafanir væru gerðar til að aftra því, að fjenu væri varið í annað en það, sem lífsnauðsyn var á, og því mátti ekki láta alt vaða á súðum.

Hvað kolunum viðvíkur, þá skilja það sennilega allir, að stjórnin gerir það ekki sjer til gamans að liggja með þau, og enginn hefir enn dirfst að halda því fram, að það hafi verið rangt gert af stjórninni að útvega kol, þegar tækifærið gafst til að fá vetrarforða og útsjeð var um það, að einstakir menn gátu það ekki, eða að minsta kosti gerðu það ekki, þrátt fyrir það, þó að innflutningur á kolum væri frjáls. Þegar innkaupin á kolum voru gerð, var ómögulegt að fá sigtuð kol, hvorki í Englandi eða Ameríku. Kolin voru ekki heldur aðallega ætluð til fiskiskipa, heldur til eldsneytis fyrir landsmenn, og til vara handa fiskiskipum, ef þeim brygðist sjálfum að afla sjer kola.

Þess verður líka að gæta, að kolabirgðirnar mundu ekki vera miklar nú, ef veturinn hefði eigi verið svona góður. Þegar þessa er gætt, þá sýnist það ekki nema eðlilegt, að hallinn, sem verður á kolakaupunum, komi niður á þeim, sem þau voru gerð fyrir, og þá eðlilegt að leyfa ekki innflutning á kolum fyr en þau eru á þrotum hjá landsversluninni.

Enn má minna á það, að kolin hafa verið færð niður og stjórnin mun leggja það til, að þau verði enn lækkuð svo, að verðið verði líkt á þeim og þeim kolum, sem samtímis er hægt að fá frá Englandi. En fram til þings vildi stjórnin ekki breyta verðinu meira. Að öllu þessu athuguðu sýnist eigi ástæða til að áfellast stjórnina út af afskiftum hennar í kolamálinu og auðsætt, að ráðstafanir hennar voru á engan hátt sjávarútveginum til tjóns, því hann hefir ekkert teljandi þurft að nota landsverslunarkolin.