02.04.1921
Neðri deild: 33. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

40. mál, póstlög

Frsm. (Jakob Möller):

Hæstv. atvrh. (P. J.) taldi tekjurnar af blaðasendingum síðasta ár hafa numið 20 þús. kr. Má vera að þetta sje rjett. En satt að segja datt nefndinni ekki í hug svo stórt stökk, en því miður hafði hún ekki tækifæri til að athuga. hve miklar tekjurnar hefðu orðið þetta ár. 1918 voru þær kr. 8795,10, 1919 kr. 9927,90, — hækkun rúmlega 1000 kr. Nefndin gerði ráð fyrir, að þær mundu hafa hækkað í svipuðu hlutfalli á árinu 1920, eða í svipuðu hlutfalli og aðrar pósttekjur. En eftir því, sem hæstv. atvrh. (P. J.) fullyrðir, þá ættu blaðaburðargjöld að hafa tvöfaldast á árinu 1920. Mjer er ekki kunnugt um, að blaðaútgáfa hafi aukist á þessu ári, heldur þvert á móti. En jeg segi auðvitað ekki, að það geti alls ekki átt sjer stað, að burðargjöldin hafi aukist svo mjög, sem hæstv. atvrh. (P. J.) segir, en nefndin miðaði við tekjurnar 1919.

Jeg þarf ekki mörgu öðru að svara, því að í rauninni erum við hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) sammála í öllum greinum, eins og sjá má af fyrri ræðu minni. Þó að mjer finnist það raunar ekki eins miklu máli skifta og honum, hvort burðargjald símapóstávísana verður hækkað eins og frv. fer fram á. Jeg tel það sjerstaklega óviðfeldið, en hygg að það verði tæplega eins tilfinnanlegt og hann virðist gera ráð fyrir. Jeg geri ekki ráð fyrir því, að nefndin komi fram með neina brtt. um þetta, en hins vegar get jeg lýst því yfir, að jeg mun greiða atkvæði með slíkri tillögu.

Annars skal jeg ekki lengja umræðurnar meira en orðið er.