23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3580)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Björn Hallsson:

Jeg stend ekki upp til þess að taka þátt í þeim hnippingum, sem hjer hafa orðið um málið, að mínu áliti alt of fljótt. En jeg bað um orðið til þess að reyna að miðla málum í því tillögumoldviðri, sem hjer er komið upp. Mjer finst sem sje, að þessi mál gætu heyrt undir eina og sömu nefnd. Tel jeg óheppilegt að skipa margar nefndir, auk fastanefndanna, því að þá tefja þær hver fyrir annari við afgreiðslu málanna. Svo reyndist það eftir gömlu þingsköpunum, og svo mun enn vera. Jeg gæti fylgt brtt. á þskj. 54, ef í henni stæði „viðskiftamál“, í staðinn fyrir „önnur skyld mál“. En ef nú verða skipaðar 2 nefndir, viðskiftamálanefnd og bankamálanefnd, þá eru í raun og veru 4 nefndir starfandi að fjármálunum með fastanefndunum. Þess vegna vil jeg sameina till. á þskj. 51 og 53 og gera eina nefnd úr tveimur. En mjer þótti leitt að heyra hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) lýsa því yfir, að samkomulag milli tillögumanna um þessa nefndarskipun væri ómögulegt. En jeg vil samt skora á flutningsmenn þál. 51 að taka hana út af dagskrá og koma sjer saman við hina tillögumennina. Jeg get engri þessari till. fylgt eins og þær eru nú.