23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3587)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Flm. (Jón Þorláksson):

Það voru aðeins nokkur ummæli hv. 2. þm. Reykv. (J. B.), sem jeg vildi minnast á. Hann taldi sig að sumu leyti manna kunnugastan hjer í bæ um verslun og viðskiftalíf. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þegar um sömu vörugæði hafi verið að ræða, þá hafi verð kaupmanna ávalt verið hærra heldur en hjá landsversluninni, og fyrir þessu sagðist hann hafa reynslu.

Jeg veit, að þetta er ekki rjett hjá honum, enda mun hann ekki fá neinn mann til að trúa því, að á þessum tíma, þegar vöruverð er sífelt að breytast, hafi allir kaupmenn á landinu sífelt verið svo óhepnir að kaupa vörur á óhentugri tíma heldur en landsverslunin, því að um meiri framfærslu eða álagningu hjá kaupmönnum ætti ekki að geta verið að ræða, þar sem verðlagsnefndin vakir yfir því. Þetta gæti því aðeins verið eins og hv. þm. (J. B.) segir, ef í hvert skifti sem landsverslunin hefði birgt sig upp af einhverri vörutegund, og verðið síðan lækkað, hefði verið passað upp á það, að aðrir gætu ekki fengið innflutningsleyfi. Svo langt held jeg að ekki hafi verið gengið, og mun því hv. þm. (J. B.) veitast örðugt að standa við þessa staðhæfingu sína.

Þá mótmælti sami hv. þm. (J. B.) því, þrátt fyrir viðurkenningu hæstv. atvrh. (P. J.), að teptur væri innflutningur á hveiti, og sagði, að kaupmenn fengi hveiti með „Lagarfossi“ næst. Það datt víst engum í hug, að hveitiinnflutningurinn væri svo algerlega teptur, að enginn ljeti sjer framar hveitibrauð í munn. En hann hefir verið teptur, synjað um innflutningsleyfi á ódýru hveiti, og nú er svo komið, að hveiti fæst ekki í bænum.

Það er álit margra manna, að innflutningur hafi verið teptur af hinu opinbera til þess, að landsverslunin gæti í næði selt vörubirgðir sínar. (M. K.: Þetta er rangt). Nei, þetta er rjett, og get jeg þá í þessu efni nefnt kolin. Nú liggur landsverslunin með birgðir af þeim, og innflutningur bannaður öllum öðrum.

Annars gladdi það mig, að hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) er mótfallinn innflutningshöftunum.

Um till. þær, sem liggja fyrir, er það að segja, að samkomulags hefir verið leitað um að hafa einungis eina nefnd til að athuga bæði viðskiftamálin og bankamálin, en ekki náðst. Enda var það rjettilega tekið fram hjá hv. 1. þm. Ám. (E. E.), að verkefni þessara nefnda eru ólík.

Ástæða mín fyrir því að láta þessa nefnd hafa á hendi rannsókn á verslunarrekstri fyrir reikning ríkissjóðs er ekki svo mjög sú að rannsaka gerðir landsverslunarforstjóra, heldur einkum sú, að jeg tel, að það þurfi að rannsaka, hvort slík ríkisverslun eigi að halda áfram eða ekki. Það mundi nú ef til vill koma sumum betur, að ákvarðanir um þetta væru teknar á skrifstofum úti í bæ, en jeg tel málið svo mikilsvert, að þingið sjálft eigi ótvírætt að ákveða um það, hvort slíkri starfrækslu skuli áfram haldið, og hvernig henni skuli hagað. En þetta heyrir ekki beint undir væntanlega nefnd, samkvæmt þskj. 54, og þarf þá að gera nýjar ráðstafanir, ef trygging á að fást fyrir því, að rannsókn á þessum efnum verði gerð. Við getum því ekki gengið inn á brtt. á þskj. 54, en höldum fast við okkar till. En til samkomulags höfum við gengið inn á það, að skipaðar verði tvær nefndir, og munum við greiða atkv. með till. á þskj. 53, ef okkar till. verður samþ.