23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (3588)

51. mál, viðskiptamálanefnd Nd

Sveinn Ólafsson:

Mjer skilst, að hjer sje um það að ræða, hvort skipa skuli eina nefnd eða tvær. Og jeg tel, að hjer nægi vel ein nefnd. Það hefir orðið ljósara af umr., að verkefnin eru ekki ofvaxin einni nefnd, því sum málin gætu farið til fjárhagsnefndar. Jeg skil ekkert í því, að þeir, sem vilja eina nefnd, skuli ekki geta horfið að brtt. á þskj. 54.

Það er ekki rjett, sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hjelt fram, að nefndin væri ekki skyld til að taka að sjer landsverslunarmálið, ef því væri þangað vísað, þó ekki sje það beint tekið fram í till., að nefndin skuli fjalla um þau mál. Það er ekki lengra síðan en í gær, að máli var vísað til allsherjarnefndar, sem eftir eðli sínu átti heima í fjárhagsnefnd, og tók allsherjarnefnd mótmælalaust við málinu. Það væri allundarlegt, ef hin væntanlega peningamálanefnd neitaði að taka við málum, sem deildin vísaði til hennar, og vörðuðu viðskifti, þar sem brtt. á þskj. 54 ætlar henni eigi aðeins peningamál, heldur tekur fram, að hún skuli fara með „önnur skyld mál“.