07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

40. mál, póstlög

Ólafur Proppé:

Eins og jeg gerði ráð fyrir við 2. umr., þá hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 232, um símapóstávísanir. Jeg leiddi þá rök að því, að ranglátt væri að hafa gjaldið 100% hærra fyrir þær.

Aðalástæða póstmeistara fyrir þessari hækkun er sú, að póstsjóður hafi beðið mikinn halla af misritunum þessara ávísana. En af blaðagreinum, sem komið hafa nú á síðustu dögum, og af samtali, sem jeg hefi haft við landssímastjóra, þá hefi jeg komist að raun um, að þessi halli er ekki nærri því eins mikill og af hefir verið látið. Það eru að eins örfáar misritanir, sem um hefir verið að ræða, og venjulega hægt að lagfæra þær, áður en langt hefir liðið. Auk þess nemur hallinn ekki meiru en 100 kr. frá því fyrsta, og er því varla teljandi, samanborið við veltu póstsjóðs á þessum ávísunum, sem mun vera um 4 milj. árlega. Ekki er heldur því til að dreifa, að símapóstávísanir hafi nokkurn forgangsrjett fram yfir aðrar ávísanir, því að þær eru afgreiddar eftir þeirri röð, sem þær koma, og þurfa ekki að vera 100% dýrari þess vegna.

Jeg tók það fram við 2. umr., að landssímastjórinn væri því ekki mótfallinn, að símagjaldið væri lækkað úr 3. kr. niður í 2 kr. Hann sagði, að frá hans hálfu væri ekkert því til fyrirstöðu, ef hæstv. stjórn vildi svo vera láta. En verði nú lækkun gerð, sýnist ekki ástæða til að hækka símapóstávísanir samtímis um 100%.

Jeg hefi ekki talað við alla þm. úr hv. fjhn., en jeg get fullyrt, að háttv. frsm. hennar (Jak. M.) er með brtt. minni, og jeg býst við, að svo sje einnig um hina.