18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3614)

127. mál, landsverslunin

Jón Þorláksson:

Hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) er því miður veikur enn, en hann er frsm. meiri hluta viðskiftamálanefndarinnar í þessu máli. Jeg hefi því tekið að mjer að hlaupa í skörðin fyrir hann. En með því að nú er áliðið þings, og auk þess liðið langt á daginn og hv. deildarmenn orðnir þreyttir á löngum og tilgangslitlum umræðum, þá skal jeg ekki hafa framsögu mína langa, og vænti þess, að hún gefi ekki tilefni til langra umræðna.

Landsverslunin, sem rekin hefir verið frá upphafi á ríkisins kostnað, sækir tilveruheimild sína til laga um heimild fyrir landsstjórnina til ýmsra ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum, sem náðu staðfestingu 1. febr. 1917, og til viðauka við þau lög, frá 30. júlí 1918. í fyrri lögunum var landsstjórninni veitt heimild til ófriðarráðstafana meðan á Norðurálfuófriðnum stæði, en með viðaukalögunum frá 1918 var heimild þessi framlengd „þangað til öðruvísi væri ákveðið“. Af þessu er það bert, að sú landsverslun, sem rekin hefir verið til þessa, var í upphafi hrein og bein ófriðarráðstöfun og til hennar stofnað í þeim tilgangi að draga úr afleiðingum styrjaldarinnar fyrir landið, meðan hún stæði yfir.

Nánari orsakir til þess, að verslunin var rekin í svo stórum stíl, sem raun varð á, voru þær, að þegar leið á styrjöldina, sáu stjórnir bandamanna sjer ekki annað fært en að innleiða vöruskömtun til allra hlutlausra landa í Norðurálfunni. Framleiðslan hafði þá minkað svo, að þær treystust ekki til að halda lífinu í þjóðum bandamanna og hlutleysingjum, nema með því að takmarka útflutning. En af þessu leiddi það, að hlutlausu þjóðirnar urðu, sumpart beinlínis, að eiga við stjórnir bandamanna um vörukaupin, og sumpart óbeinlínis, með því að hlíta reglum þeim, sem þær settu. Þetta land neyddist til að gera víðtæka verslunarsamninga um kaup á aðfluttum vörum og sölu afurðanna, og varð það þá að framkvæmast með stjórnarráðstöfun.

Þessar orsakir, sem gerðu það að verkum, að landsverslunin var rekin í svo stórum stíl, eru nú burtu fallnar. Nú eru engar takmarkanir á sölu á vörum þeim, sem við þurfum að flytja inn í landið, og engar hömlur á útflutningi. En auðvitað má ekki vænta þess, að allar afleiðingar styrjaldarinnar sjeu á braut horfnar. Sumra þeirra mun gæta í rás viðburðanna í heiminum allan þennan mannsaldur og kannske lengur.

Það er því vitanlegt, að þegar taka á ákvörðun um það, hvort þessi ófriðarráðstöfun eigi að leggjast niður, þá ber ekki að líta á það, hvort allar afleiðingar ófriðarins sjeu um garð gengnar, heldur hitt, hvort þær orsakir, sem gerðu slíka ráðstöfun nauðsynlega, sjeu burtu fallnar. Ef litið er á erfiðleika þá, sem landið á við að stríða nú, þá sjest það, að helsti erfiðleikinn er gamall kunningi, en það er fátæktin, getuleysið til þess að veita sjer það, sem menn óska, og borga það, sem menn þarfnast. Slíkur skortur er gamall kunningi og ekki við því að búast, að honum verði afljett með samskonar ráðstöfun, sem þurfti til þess að greiða úr viðskiftateppunni á stríðsárunum.

Við höfum nú komist að þeirri niðurstöðu, eins og sjá má af greinargerðinni fyrir þál., að ekki sje tímabært, að svo komnu máli, að taka fullnaðarákvörðun um það, hvort leggja skuli landsverslunina niður. Við álítum högum hennar þannig háttað, að ekki sje hægt að leggja hana fyrirvaralaust niður. Við teljum heppilegast, að henni verði haldið áfram til næsta þings og á þeim tíma verði starfi hennar þannig háttað, að það beinist aðallega að því að selja vörubirgðir þær, sem fyrir eru, og innheimta útistandandi skuldir, að svo miklu leyti, sem fært þykir að ganga að skuldunautunum. En að þessum tíma liðnum hafi næsta þing óbundnar hendur í því að taka fullnaðarákvörðun um, hvort hún skuli þá leggjast niður eða ekki. Að þessu beinist þál. okkar.

Það er drepið á það í greinargerðinni, að ein af orsökum þess, að við viljum ekki halda áfram versluninni, er það, hve áhættusöm slík verslun er nú á tímum. Er þar vitanlega átt við verðfall það, sem nú er komið á allar vörur, og búast má við, að haldi áfram og fari vaxandi. En það er mjög óhagstætt fyrir verslanir, sem reknar eru í svo stórum stíl, sem landsverslunin. Enda hefir raun borið vitni um, hve áhættusamt þetta er, og er það þá ekki síst af þeirri ástæðu, að af þessari verslun er heimtað, að hún kaupi og flytji inn það, sem aðrir vilja ekki kaupa, vegna þess, að þeir álíta það of áhættusamt. En okkur virðist ekki ástæða til að hafa ríkissjóð lengur í þessari áhættu, með því að afleiðingar stríðsins gefa ekki lengur tilefni til þess.

Við höfum í greinargerðinni látið uppi skoðun okkar á því, hvernig verslunarrekstrinum skuli hagað á yfirstandandi ári. Við höfum lagt til, að bætt verði við kolabirgðirnar, af þeim ástæðum, sem voru fyrir hendi, þá er nál. var samið, og fyrir liggja enn, þótt breyst hafi nokkuð.

Þá höfum við og talið sjálfsagt, að landsverslunin hefði vakandi auga á steinolíuversluninni, og grípi þar fram í, ef nauðsyn krefur, til þess, að steinolía verði hjer fáanleg með sanngjörnu verði. Eins og kunnugt er, er hjer ekki að tala um nema eitt „firma“, sem innflytjanda þeirrar vöru. Annars höfum við lagt til, að landsverslunin bætti engu við birgðir sínar, eða flytti annað inn á þessu ári.

Þá höfum við álitið það heppilegt, að verslunarstjett landsins hefði vitneskju um það, hvenær búast mætti við, að landsverslunin hætti að flytja inn vörur. Með því móti, að henni er ekki gert vitanlegt, hvort hún hætti eða haldi áfram, getur hún ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir í tíma um kaup á þessum vörum. Óvissa um vörukaup landsverslunar gæti orðið til þess, að verslunarstjettin ljeti undir höfuð leggjast að flytja nægar vörur inn, og gæti það stuðlað að því, að vöruskortur yrði í landinu.

Hv. þm. Ak. (M. K.) hefir gert landssjóðsskipin að umtalsefni í greinargerð sinni. Meiri hluti nefndarinnar tók þetta ekki í sitt álit af því, að hún vissi, að samvinnunefnd samgm. hafði tekið þetta til athugunar. Sú nefnd komst að sömu niðurstöðu, sem þm. Ak. (M. K.). Hún taldi ekki fært að gera till. um að selja neitt af vöruflutningaskipum landssjóðs, eða skifta þeim fyrir hentugt strandferðaskip, eins og komið hafði til orða.