18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3615)

127. mál, landsverslunin

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Hjer eru á dagskrá þrjár þingsályktunartill., sem allar eru um sama málið, en einungis ein þeirra til umr. í senn. En af því, að mikils er um það vert að spara tíma nú, mun jeg ræða till. allar í einu, og vona jeg, að hæstv. forseti hafi ekki á móti því.

Jeg ætla fyrst að minnast á síðustu till., eða þá, sem komin er frá hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Þó að flm. geti fært góð rök að því, að landsverslunin hafi komið að miklu gagni, þá getur stjórnin ekki aðhylst till. hans. Jeg hefi áður lýst yfir því fyrir stjórnarinnar hönd, að hún er ekki hneigð til ríkisverslunar með almennar vörur yfirleitt. Þótt hún flytti frv. á þessu þingi um einkasölu á einstökum vörum, þá var það í sjerstöku augnamiði um hvert þeirra fyrir sig, sem engan verslunarlegan tilgang hafði. Stjórnin getur því ekki fallist á, að landsverslunin, slík sem hún hefir verið, eigi að vera framtíðarfyrirtæki.

Hinar till. getur stjórnin aðhylst, hvor sem samþykt verður. Báðar miða að því, að starf landsverslunarinnar eigi aðallega að vera í því fólgið að selja þær vörur, sem fyrir eru, og innheimta skuldir. Meiri hlutinn ætlast til þess, að hægt verði að ljúka þessu fyrir næstu áramót, og gera þá endanleg reikningsskil. Ef þetta er tekið mjög bókstaflega, getur stjórnin ekki lofað að framkvæma það. Meiri hlutinn bendir á að kaupa verði ef til vill kol og steinolíu, en stjórnin er ekki viss um, nema sama máli gegni um einhverjar aðrar vörutegundir, álíka nauðsynlegar. Og hún getur ekki lofað því, að alt það, sem kaupa þarf, verði selt fyrir næsta nýár.

Þá er till. hv. þm. Ak. (M. K.). Hún gerir ráð fyrir því, að keypt verði kol, steinolía, salt, sykur og kornvörur. En hjer er aðeins um heimild að ræða en enga skipun, og getur stjórnin þá farið eftir því, hve þörfin er brýn. Í stuttu máli sagt: Stjórninni þykir ákjósanlegast að hafa nokkuð frjálsar hendur og geta hagað sjer eftir kringumstæðunum. Stjórnin væntir þess, að öllu þoki í þá átt, að hægra verði að leggja landsverslun niður á næsta þingi, ef mönnum þá sýnist svo.

Fleira hefi jeg ekki að segja og býst ekki við, að jeg þurfi að taka aftur til máls.