18.05.1921
Neðri deild: 72. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í D-deild Alþingistíðinda. (3620)

127. mál, landsverslunin

Jón Baldvinsson:

Mjer þótti vænt um, að samþm. minn, hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fór að afsaka tylliboðið, sem hann bar fram hjer í deildinni og jeg mintist á áðan. Það sýnir, að hv. þm. (J. Þ.) hefir ekki viljandi ætlað að blekkja. En þar sem hv. þm. tók til samanburðar tilboð þau, sem viðskiftamálanefndinni bárust frá S. Í. S., um verð á hveiti frá Englandi, þá voru mjer þau tilboð fullkunnug áður. Og nú hefi jeg hjer fyrir framan mig útreikninga viðskiftamálanefndar þingsins á þessum tilboðum. Og var sá útreikningur gerður og samþyktur af hinum verslunarfróðu mönnum í nefndinni, hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) og hv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.). Og eftir þeim útreikningi var verðið á hveiti eftir öðru tilboði S. Í. S. kr. 0.81 kg., komið í hús, eða liðlega 53 kr. 63 kg. poki. En þess ber vel að gæta, að þá var sterlingspundið aðeins reiknað á kr. 21,90, en það er vitanlegt hverjum manni, að ensk mynt stóð miklu hærra, og að enginn mundi hafa getað fengið sterlingspundið fyrir minna hjer í bönkum en 24 kr., og bætist þar þá við verðið kr. 4,20, en þá er hveitið komið í 58 kr. pokinn álagslaust, og verður það áreiðanlega ekki selt undir 60 kr., eða því verði, sem reyndist vera á hveitinu, sem landsverslunin flutti inn frá Englandi. Það er rjett, að lægra tilboð lá líka fyrir frá S. Í. S., og kostaði kg. af því, eftir útreikningi viðskiftamálanefndar, kr. 0,76, eða kr. 47,88 pokinn, komið í hús hjer, en þá er sterlingspundið reiknað eins og áður, kr. 21,90, sem ekki var hægt að fá það fyrir, og þegar sú viðbót kemur á útlendu myntina, verður hveitipokinn yfir 50 kr., álagslaust. En athugandi er, að þetta er hveiti nr. 2. Og hvernig sem á því stendur, þá höfum við ekki almennilega komist upp á að nota þessa lakari ensku tegund vegna þess hve ljeleg hún er. Svo það þýðir ekki að taka það til samanburðar. Þessi tilboð, sem hv. þm. (J. Þ.) ætlaði að bjarga sjer á, hafa einmitt sýnt hið gagnstæða við það, sem hann vildi vera láta, og sannað mitt mál um verðið.