19.05.1921
Sameinað þing: 3. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3627)

143. mál, fjármálanefnd

Björn Kristjánsson:

Eins og hv. þm. sjá, er jeg sammála flm. till. á þskj. 623 (E. Á.), að rjett sje að skipa þriggja manna nefnd til að íhuga, hvernig bankamálunum verði best fyrir komið framvegis. Aðeins greinir okkur á um aðferðina á vali þessarar nefndar, og verksviðið. Mitt álit er, að nefndin hafi nóg að gera til næsta þings; það er ekki svo langt til 15. febrúar 1922, þó hún gefi sig ekki við meiru en að gagnrýna bankamálin. Þau eru það flókin og vandasöm, vandasamari en margur hyggur. Sú nefnd þarf að rannsaka bankafyrirkomulag það, sem er, og koma fram með þær breytingar við það, sem nauðsynlegar eru. Nefndin verður einnig að rannsaka, hvernig best verður að koma seðlaútgáfunni fyrir framvegis; hvort stofna á sjerstakan seðlabanka, og þá eftir hvaða reglum; hvort hann á að vera opinber eign, eins og í Rússlandi og Svíþjóð, eða hvort hann á að vera innlendur hlutafjelagsbanki, eins og alstaðar annarsstaðar gerist í Evrópu um seðlabanka. Og þá verður að athuga, hvort sá banki á að standa einn, eða t. d. í sambandi við ríkisbankann.

Sú nefnd verður og að íhuga, hvort eigi er nauðsynlegt að bæta eða breyta ríkisveðbankalögunum áður en hann tekur til starfa, sem jeg tel bráðnauðsynlegt. Einnig verður hún að athuga, hvort rjett sje að gera Landsbankann að hlutafjelagsbanka, sem komið hefir til orða, og hún verður að komast að fastri niðurstöðu um, hvað hin sanna gjaldmiðilsþörf er í landinu á venjulegum tímum, sem jeg tel vera við 8% af innfluttum og útfluttum vörum, eða af verslunarveltunni við útlönd.

Og þá verður nefndin og að komast að fastri niðurstöðu um, hvað mikið megi nota af seðlum til að uppfylla þessa gjaldmiðilsþörf, og hversu mikið rúm verður að ætla fyrir gullmynt og útlendum gjaldmiðli o. s. frv.

Þá tel jeg það eftir kringumstæðum heppilegra, að stjórnin velji þessa nefnd, og að hún sje að öllu óháð bönkunum hjer. Svo tel jeg og æskilegt, að annaðhvort sitji í nefndinni útlendur þektur fjármálamaður, eða að nefndin fái álit slíks manns um till. sínar. Það mundi gefa tillögum nefndarinnar betra traust, þegar til þingsins kasta kæmi að dæma um þær.

Áríðandi er að geta gert út um slík peningamál með sem mestu samræmi í þinginu, og að flokkadeilum sje grandgæfilega haldið utan þeirra. Þess vegna er líka nauðsynlegt, að nefndin sje skipuð án tillits til flokkaskipunar.

Till. mín nær ekki lengra en til þessa atriðis, og er það af því, að jeg bjóst ekki við, að önnur atriði í þál. á þskj. 623 yrðu samþ., eins og þau líka eru orðuð. Og jeg tel, að stjórnin sje einfær um að taka lán, og þingið mun sjálft ákveða, til hvers það á að notast.

Þá tel jeg, að nægilega sje sjeð fyrir rannsókn á hag Íslandsbanka í seðlaútgáfufrumvarpinu. Nefnd sú, sem meta á hlutabrjef bankans áður en ríkissjóður leggur fje í hann, hlýtur að fullvissa sig um, hvers virði brjefin eru, áður en hún kveður upp dóm sinn. Miklu á ekki að skeika. Og þar við bætist, að landsstjórnin hefir líka sömu skyldu. Það virðist því vera að bera í bakkafullan lækinn, að þingið fari að skipa nýja rannsóknarnefnd í þessu skyni.

Af öllum þessum ástæðum vænti jeg þess, að brtt. mín á þskj. 635 verði samþykt.