07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

40. mál, póstlög

Frsm. (Jakob Möller):

Jeg gat þess við 2. umr., að nefndin átti í raun og veru ilt með að fella sig við það okur, sem frv. gerir ráð fyrir á símapóstávísunum. Og þó hún hafi ekki gert neinar breytingar á þessu, þá hafa nefndarmenn allir að sjálfsögðu óbundið atkv. um brtt. á þskj. 232.

Það var að eins eitt atriði í ræðu hæstv. atvrh. (P. J.), sem jeg vildi gera nokkra athugasemd við. Hann segir, að ekki sje hægt að kenna póstafgreiðslunni, ef hún borgi út tvísendar ávísanir. En nú er vitanlegt, að hver ávísun hefir sitt númer, sem stendur á handritinu, sem sent er. Það getur því ekki verið um tvísenda ávísun að ræða, nema það sje þá sama handrit, með sama númeri. Meðan jeg fæ ekki betri skýringu, verð jeg að halda þessum skilningi.

Lækkanirnar verða annars að mætast á miðri leið. Ef símagjaldið færist niður í 2 kr., þá á aukagjaldið að lækka um 50%. En eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, þá er ekki ástæða til að hafa neitt aukagjald.