24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3661)

48. mál, sambandslögin

Jakob Möller:

Jeg get ekki látið hjá líða að lýsa yfir undrun minni á því, hvernig hæstv. forsrh. (J. M.) tekur í þetta mál. Það lítur út fyrir, að hann vilji ekki ræða það opinberlega, en vilji fá tækifæri til að ræða það á leynifundi. Mjer finst hv. þm. Dala. (B. J.) hafa gert ljósa grein fyrir því, að þessar till. sjeu í fullu samræmi við sáttmálann við Dani. Þær eru einnig í samræmi við álit íslenska hlutans í lögjafnaðarnefndinni, og sjálft Alþingi hefir haldið fram sama skilningi. Hjer er þess vegna spurning aðeins um það, hvort stjórnin vilji fylgja þessum ís1enska skilningi á sambandslögunum gagnvart danska skilningnum.

Nú færist hæstv. forsrh. (J. M.) undan því að gera grein fyrir afstöðu sinni opinberlega, og hann leggur þó svo mikið kapp á það, að till. verði feld, að hann lýsir yfir því, að hann muni skoða það sem vantraustsyfirlýsingu ef hún verði samþykt. Þetta verður ekki skilið á annan hátt en þann, að hann ætli að reyna að neyða fylgismenn stjórnarinnar til að greiða atkv. gegn till., hver svo sem sannfæring þeirra er. Þessi ógnun hæstv. forsrh. (J. M.) ætti að hafa öfugar verkanir og hann ætti að gjalda þess eða njóta, jeg veit ekki hvernig hann lítur á það atriði, að hann vill fara í felur með jafnaugljóst og mikilsvarðandi mál.