24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3662)

48. mál, sambandslögin

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. (Jak. M.) misskilur mig viljandi eða óafvitandi. Jeg vil ekki láta uppi afstöðu mína til málsins á þessu stigi, en jeg hefi ekki heldur gefið í skyn, að jeg vilji fara í felur með hana. Jeg hjelt því aðeins fram, að ótækt væri að ráða þessu máli til endanlegra lykta án athugunar. Jeg er fús til að ræða það við væntanlega nefnd og við síðari umr. Og jeg verð að endurtaka það, að jeg tel hv. deild lýsa vantrausti sínu á mjer, ef hún samþykkir þessa till. þegar í stað og án þess einu sinni að taka tillögu mína um að athuga hana í nefnd til greina. Mjer þykir það liggja í augum uppi, að slíkt mál sem þetta verður að rannsakast í nefnd. Það er of þýðingarmikið til þess, og jeg veit ekki, hvernig hv. þm. eiga að gera sjer fulla grein fyrir því svona alveg umhugsunarlaust. Jeg get þess vegna ekki skilið mótstöðuna gegn því að vísa málinu til nefndar, nema hvað snertir hv.

1. þm. Reykv. (Jak. M.). Ef nokkrum manni er þægð í því, að eitthvað sje gert, sem lýsir vantrausti á núverandi stjórn, þá er það hv. þm. (Jak. M.). Og nú hefir hann ef til vill vonað, að hægt væri að höggva á þann örðuga hnút, sem svo lengi hefir verið reynt að leysa.