09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í D-deild Alþingistíðinda. (3669)

48. mál, sambandslögin

Bjarni Jónsson:

Jeg býst við, að enn sje þm. í fersku minni það, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði fyrir skemstu í ræðu sinni, að hefði þeim Íslendingum, sem samningana gerðu við Dani 1918, þótt mikið undir komið, að einn ráðherranna hjeti utanríkisráðherra, þá hefðu þeir átt að setja ákvæði um það í samninginn. Ekki er nú djúpt rist hjá þessum hv. þm. (S. St.), eða er hann virkilega svo blár, að hann haldi, að það eigi að blanda alíslenskum málum inn í sáttmála og samning, sem íslenska ríkið gerir við aðra þjóð. Vill þá ekki þm. (S. St.) einnig víta það, að ekki skuli vera ákvæði um það í sambandssamningnum, hvort t. d. þm. í Nd. skuli vera 26 eða 28! Jeg held, að engum nema þessum hv. þm. (S. St.) hefði dottið í hug að slá slíku fram. Og ef við eigum að semja við Dani um heiti á embættismönnum vorum, þá ættu Danir alveg eins að semja við oss um heiti á sínum á embættismönnum. Það ætti þá að vera samningsmál milli Dana og Íslendinga, hvort Danir megi kalla einn ráðherra sinna utanríkisráðherra eða ekki. Ríkin standa algerlega jafnfætis eftir samningana. Og því kemur þetta atriði engum við nema Alþingi og stjórn Íslendinga. Jeg hjó eftir þessu í ræðu hv. frsm. (S. St.); það sýndi svo greinilega fávisku hans. Annars mun jeg framvegis fremur halda mig við hið prentaða mál, því á ræðu hv. frsm. (S. St.) var lítið að græða. Hann var auðsjáanlega í hinum mestu vandræðum, þráðurinn slitróttur og hugsun og rök í molum.

Nefndin segir í áliti sínu meðal annars, að sjálfsagt hafi einn ráðherrann yfirumsjón með framkvæmd þeirrar íhlutunar um utanríkismálin, sem vjer höfum í vorum höndum. Nefndin kallar það þá íhlutun, sem Íslendingar hafa um utanríkismál sín. En vjer köllum það ekki íhlutun, heldur yfirráð. Danir fara aðeins með þau mál um stundarsakir eftir umboði Íslendinga sjálfra. Svo segir nefndin neðar á sama blaði, að núverandi stjórn leggi sama skilning í ákvæði 7. gr. eins og íslenski hluti ráðgjafarnefndarinnar. En þessi ummæli hv. nefndar stangast eins og mannýgir hrútar, því bæði nefndin, þing og stjórn hafa altaf viðurkent, að hjer væri um yfirráð að ræða. Jeg veit, að hæstv. forsrh. (J. M.) hefir sagt það og mun segja það, og býst jeg því ekki við, að hann verði hv. allsherjarnefnd þakklátur fyrir þetta orðalag.

Enn segir nefndin, að atkvgr. um þetta mál gæti litið svo út í augum þeirra, er lítt þekkja til, sem hjer værum sundurþykkju að ræða í skilningi Íslendinga á þessu atriði. En þeirri sundurþykkju sje ekki til að dreifa. En því í ósköpunum leggur þá ekki nefndin til að till. mín sje samþykt, úr því ekki er um neitt sundurþykki að ræða? Hv. frsm. (S. St.) telur mínar skoðanir, og þá um leið meiri hluta þingsins heimskulegar um þessi efni, en þó skrifar nefndin, að allir sjeu samþykkir þetta er ekki ólaglegt.

Þá er það og gott hjá hv. frsm. (S. St.), að hann vísar til gerðardóms um þetta atriði. En mjer er spurn: Hvernig á málið að fara til gerðardóms, ef engu er fram haldið af hálfu Íslendinga? Annars liggur það alls ekki minni í till., að þetta mál fari fyrir gerðardóm. Jeg hefi þann skilning, að er fram kemur skýr og ótvíræður vil þings og stjórnar í þessu máli, þá mun ekki koma til neinnar deilu. En því bar jeg hjer fram þessa till., að jeg vildi hafa skýlausan vilja þingsins að baki mjer, ef til deilu kæmi um 2. lið. Um liðinn verður alls ekki deilt.

Þetta eru þá nokkrar helstu mótsagnirnar í nál. En jeg nenni ekki að tefja tíma þingsins með því að telja fleiri en nóg er til.

Þá kem jeg að því, sem hv. frsm. (S. St.) sagði, og prentað er í nál., að það atvik geti legið fyrir, að búhnykkur sje fyrir Dani og Íslendinga að gera samninga í fjelagi. Hver neitar því? Norðurlönd gerðu á stríðsárunum ýmsa samninga við erlend ríki í fjelagi, og ná hagkvæmari kjörum fyrir þá sök. En þó að Ísland og Danmörk semji í fjelagi, þá liggur ekki þar í, að Danmörk eigi ein að gera þá samninga. Nei, bæði ríkin eru þar jafnrjetthá. Þetta er því bara þvaður út í loftið. Í minni till. er ekkert orð því til fyrirstöðu, að bæði ríkin geti samið saman, ef það þykir búhnykkur.

Þá heldur hv. frsm. (S. St.), að ef einhver ráðherranna hjer heiti utanríkisráðherra, þá geti ríkin ekki lengur gert samninga saman um utanríkismál beggja ríkjanna. En þetta er alveg sama og að neita því t. d., að Norðmenn og Svíar geti gert samning saman, af því þau hafa ekki einn utanríkisráðherra bæði.

Mín till. er til þess gerð, að allar þjóðir sjái það og skilji, að Íslendingar hafa ekki fengið utanríkismál sín í hendur Dönum næstu 25 ár til yfirráða, heldur aðeins þegið þjónustu þeirra. Hjer er aðeins um umboð að ræða, og þótt í dönskunni sje notað heldur rýmra orð, þá er það þrengt með íslenska nafninu. Jeg vil, að það verði lýðum ljóst, að þeir samningar, sem íslenska ríkið gerir við önnur ríki, sjeu samþyktir af konungi Íslands og íslenskum stjórnarvöldum.

Þá hafa menn minst á, að einingin í utanríkisstjórninni rofni fyrir þessar sakir, þannig, að hún ekki lengur verði ein heild. Því hefir áður verið svarað, að heildin þarf og á ekki að raskast þótt íslenskir verkamenn vinni þar með. Og sjálfsagt er að láta utanríkisráðherrann danska vita af sendimönnum hjeðan, svo ekki vinni hver á móti öðrum.

Og það fellir síst þennan rjett vorn, þótt einhver geri sig svo ófyndinn að kalla það tildur, eða telji það ekki sendiherra samboðið að selja hross. Jeg veit, að sendiherrar annara ríkja hafa ekki álitið misboðið virðingu sinni að annast slík störf. Og ef hv. þm. (S. St.) vill gera það að till. sinni að senda Guðmund Hávarðsson í þessum erindum, þá mun því ekki verða mótmælt af mjer. Það er stjórnarinnar að ráða slíka menn. En hinu vil jeg mótmæla og kalla það ekki leyfilegt hjer, að draga saklausra manna nöfn inn í umræður til þess annaðhvort að ófrægja þá sjálfa, eða til þess að reyna að gera málin hlægileg.

Alt skraf hv. frsm. (S. St.) um fullveldistildur og annað þessháttar, í þessu sambandi, sýnir aðeins það, að hann er nú orðinn forngripur og langt á eftir tímanum í allri hugsun. Hann man ekki, að sambandið er nú alt annað en áður var, og að þessi gamli lítilmannlegi hugsunarháttur á ekki við í fullvalda ríki. Þvert á móti mætti kalla það hroka, ef Íslendingar hjeldu, að heimurinn stæði nú allur á öndinni til þess að fá upplýsingar um þetta nýviðurkenda íslenska ríki, eða að þjóðirnar hefðu úti þjóna til þess að grafa samninginn frá 1918 upp úr skjalasöfnum ríkjanna til þess að hafa hann stöðugt við höndina. Nei, smáþjóðirnar gleymast fljótt, nema vel sje staðið á verði og rjettir menn komi fram á rjettum tíma með rjettu umboði. Og mín till. fer ekki fram á annað. Má hver kalla það tildur og hjegóma, sem vill, að vilja heita og vera það, sem maður er.

Jeg hefi nú felt burtu úr till. minni þá liði, sem gátu haft kostnað í för með sjer. Lagði jeg það til vegna þess, að jeg vildi ekki, að sparnaðarástæður rjeðu atkvæðum hv. þm. um þetta mál. Þykir mjer ekki alllítið undir komið, að þessi till. verði samþykt. Hún er í fullu samræmi við samninginn 1918, þingið, stjórnina þá og stjórnina nú.

Hv. frsm. (S. St.) sagði, og hafði það eftir hæstv. forsrh. (J. M.), að þessu, sem till. mín fer fram á, mætti ná smám saman. Jeg þykist nú vita, að hæstv. forsætisráðherra sje svo hygginn maður, að hann muni aldrei hafa sagt þetta. Það liggur svo í augum uppi, að rjett er að koma með alt fram í upphafi. Maður á að segja einarðlega og hreint í upphafi: Svona skil jeg samninginn, og svona vil jeg hafa það. Hreinn grundvöllur verður að fást þegar í byrjun. Annars koma rangar framkvæmdir á ákvæðum samningsins og verða að venju, sem erfiðara er að laga síðar. Slík röng framkvæmd sambandssamningsins hlýtur að vekja þær vonir hjá sambandsþjóð vorri, að Íslendingar ætli að fallast á þann skilning, sem Danir hafa á samninginn lagt.

Skal jeg nú, til þess að sýna hvern skilning Danir leggja í sambandssamninginn, ef ekkert verður hafist handa af hálfu Íslendinga, lesa nokkrar glefsur úr bók prófessors Knud Berlin, Den danskislandske Forbundslov af 30. November 1918, Kh. 1920.

Þessi bók er í margra manna höndum, og ef engar kröfur koma fram af Íslendinga hálfu, þá munu menn halda, að Íslendingar skilji þetta eins og Knud Berlin, og Danir gera sjer vonir um að fá þau rjettindi, sem þar er um getið.

Jeg ætla þá fyrst að grípa niður í bókinni á bls. 48.

„Orsökin til þessa fyrirkomulags, sem er óuppsegjanlegt fyrir bæði ríkin í 25 ár, sbr. sambandslög § 18, mun frá Íslands hlið meðfram vera sú, að þótt Ísland sje viðurkent fullvalda ríki, þá hefir það ekki enn þá nauðsynlegt fjármagn nje hæfa menn til þess að taka þegar að sjer alla stjórn utanríkismála sinna, en af Dana hálfu hefir þess vafalaust verið krafist, að Danmörk haldi enn nokkra stund eftirliti með því, að stefna Íslands í utanríkismálum fjarlægist eigi um of stefnu Danmerkur. Þetta síðasta atriði er hið eina, sem fram er tekið í ástæðum fyrir § 7, þar sem sagt er, að hin danska utanríkisstjórn, sem fer með utanríkismál Íslands í umboði þess, hljóti að vera ein, undir einni yfirstjórn, til þess að girða fyrir gagnstæðar ályktanir og framkvæmdir.“

Enn er hjer dálagleg klausa á næstu blaðsíðu (49):

„Heildin er hins vegar fengin með því, að öll utanríkismál Íslands eru alla þá stund, sem sambandslögin standa, það er að segja óuppsegjanlegt á báðar hliðar í 25 ár, algerlega látin í hendur Danmerkur til meðferðar fyrir hönd Íslands, svo að Ísland alla þá stund getur að jafnaði ekki sjálft á eigin hönd komist í samband við önnur lönd. Konungur Íslands getur því eigi, meðan sambandslögin standa, komið fram út á við fyrir hönd Íslands nje gert samninga við önnur ríki, — nema Danmörku. —

Ekki getur heldur konungur Íslands yfir höfuð að tala tekið við eða sent sendiherra eða ræðismenn til annara ríkja.“

Og þetta segir Knud Berlin, þrátt fyrir § 17 stjórnarskrárinnar.

Nú gefst hv. þm. kostur á að sýna það með atkvæði sínu um till. mína, hvort þeir vilja láta þessum skilningi

Knud Berlins ómótmælt, eða hvort þeir vilja halda fram hinum íslenska skilningi, að Ísland sje með samningnum viðurkent fullvalda ríki, en fullvalda ríki gæti ekki Ísland heitið, ef það hefði afhent öðru ríki öll sín utanríkismál í 25 ár.

En ef þm. fella þessa till., þá verð jeg að skilja það svo, að Alþingi vilji ekki fallast á minn skilning á sambandslögunum. Nál. er að mínu viti algerlega ónýtt skjal, og ekkert nema mótsagnir og hrærigrautur. En atkvgr. um till. mína er glögg og sker úr, hverjir eru með og hverjir móti.

Enn segir Knud Berlin á bls. 50:

„— — —utanríkisráðherrann í § 7 er hinn danski utanríkisráðherra“, (og svo kemur ályktunin) „svo Ísland getur ekki fremur haft sinn eiginn utanríkisráðherra en krafist þess, að utanríkisráðherrann, sem sambandsembættismaður með ábyrgð gagnvart báðum ríkjum .“

Og á bls. 51:

„Raunar gerir § 7, 3. allóákveðna undantekningu frá reglunni um, að eingöngu hin danska, en ekki hin íslenska stjórn geti komið fram fyrir Íslands hönd út á við“.

Á hann hjer við þá menn, sem um er getið í 3. lið till.

Hjer segir þá Knud Berlin skýrum orðum, að Ísland geti ekki haft eiginn utanríkisráðherra. (H. K.: Það markar enginn hvað Knútur segir). Hv. þm. Barð. (H. K.) segir, að enginn marki það, sem Knud Berlin segir. Jeg held, að slíkt sje óvarlega mælt, og allur er varinn góðum. Knud Berlin er ekki heldur ómerkur maður, nje heldur þessi bók hans ómerk. Hann er prófessor við háskólann, og ef enginn mótmælir skilningi hans á sambandslögunum, þá get jeg óttast, að Danir muni á þann skilning fallast, þar sem hann þá er þeim sjálfum í hag.

Jeg vil að minsta kosti ekki verða til þess að láta vaxa út úr mjer handarhöld handa slíkum mönnum, líkt og um manninn, sem æxlin uxu út úr, uns þau urðu að handarhaldi fyrir fjandann til þess að draga hann til sín.

Eftir þessari skoðun Knud Berlins hafa Íslendingar afhent umráð utanríkismála sinna í hendur Dana, svo að þeir geta enga ábyrgð gert gildandi gegnt álræðinu danska. — þeir, sem vilja undirskrifa þessa skoðun Knud Berlins, að þetta valdi ekki neinu, munu greiða atkvæði móti till., en jeg vildi þó reyna að gera hv. þdm. skiljanlegt, hvað um er að ræða.

Hv. frsm. (S. St.) vildi ekki, að sendimenn hins íslenska ríkis bæru svo veglegt nafn, og vildi kalla það tildur. En því er til að svara, að stjórnin íslenska hefir rjett til að kalla þá sendiherra um stundarsakir, eða „envoyé“.

Hv. frsm. (S. St.) virtist það miður sæmandi, ef hann ætti að selja hross. En jeg skal geta þess, að þeim sendimanni, er sendur er til Miðjarðarhafslandanna, er aðallega ætlað að selja þorsk. Og þó að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) beri djúpa fyrirlitning fyrir hrossunum, þá vona jeg, að hann vilji þó lofa þeim að fljóta með þorskhausunum.

Þeim skilningi er haldið fram, að þó að þessi danski háskólakennari, sem prjedikar þessar skoðanir sínar fyrir yngri kynslóðinni, muni engin áhrif hafa og að ekkert tillit muni verða til hans tekið af hinum ráðandi mönnum þar. En þessir menn, sem hann hefir undir sínum handarjaðri, þeir koma til valda síðar meir, og það er ekki á hverju ári, sem við höfum jafngóða menn til samninga og 1918.

Jeg veit það, að fyr eða síðar koma þeir menn fram á sjónarsviðið í Danmörku, sem hafa annan hug til Íslands en þeir. Þess vegna álít jeg, að alt verði að vera sem best undir búið og að ekki beri að fresta neinum framkvæmdum í þessa átt.

Hv. frsm. (S. St.) vildi leggja þá merkingu í tillögu mína, að hún væri fram komin sem óvinsæl árás á stjórnina. En jeg vona, að hv. þdm. muni, að við 1. umr. hagaði jeg svo orðum mínum, að þau gátu ekki skoðast annað en hvatning eða stuðningur fyrir stjórnina, með því að láta umræður og atkvgr. sýna það, að Alþingi stæði á bak við stjórnina með þennan skilning.

Jeg geng út frá, að þessir 3 liðir, sem jeg hefi lagt til, fái að standa óbreyttir og að stjórnin muni þá halda því fram með festu og láta hina sjerstöku sendimenn heita því nafni, er þeim er skylt að bera sem sendimönnum fullvalda ríkis, og jeg mun láta segja mjer það þrisvar, að stjórnin sje á móti þessu.