09.05.1921
Neðri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (3671)

48. mál, sambandslögin

Bjarni Jónsson:

Það undraði mig að hlýða á hv. frsm. (S. St.), en enn þá meir undrandi var jeg að hlusta á hæstv. forsrh. (J. M.), því þar er þó mannamunur, enda var þó viturlegar fram borið hjá honum. Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) sagði, að jeg ætti að gera mig ánægðan með rökstudda dagskrá á þessa leið: „Í því trausti, að stjórnin haldi fast fram rjetti Íslendinga samkvæmt sambandslögunum, o. s. frv.“ En hvaða upplýsingar gefur þetta um þá spurningu, sem jeg vildi fá svarað? Það hefir ekki heldur enn þá verið látið neitt traust í ljós um framkvæmdir stjórnarinnar í þessu máli. Það hefir komið glögg yfirlýsing’ um 2. lið frá stjórninni, en engin um hina, samþykki um þennan, og því þá að fella till. ?

Hæstv. forsrh. (J. M.) vildi gera þetta að kostnaðarmáli, en jeg get ekki sjeð, að það hafi nokkum kostnað í för með sjer, þó breytt sje um nafn á einum ráðherranna. Ef hæstv. forsætisráðherra hefir þessi störf á hendi, geri jeg ráð fyrir, að hann þurfi jafnmikið af skrifstofufólki, hvort sem hann nefnist forsætisráðherra eða utanríkisráðherra, nema því aðeins, að stjórnin ætli ekki að skifta sjer af utanríkismálum Íslands, heldur láta Danastjórn gera það. En jeg verð að segja, að jeg get ekki kallað það tildur að sjá utanríkismálum sínum vel borgið. Býst við, að það geti orðið kostnaðarsamara að vanrækja þessi störf heldur en borga einum eða tveimur skrifstofumönnum.

Hæstv. forsætisráðherra segir, að málin sjeu dreifð um skrifstofumar, en það kalla jeg að málin sjeu á tætingi og í óreiðu, og er það ill meðferð á utanríkismálum landsins. Ekki þykir mjer ósennilegt, að útlendingum finnist óþægilegt að hendast á milli manna til þess að fá mál sín afgreidd; býst við, að þeir vilji vita, hvert þeir eigi að snúa sjer.

Það er auðsjeð, að ekki má dreifa utanríkismálunum á þrjár skrifstofur. Hvar á að skrifa öll brjef? Jeg efast ekki um, að hæstv. forsrh. (J. M.) sje duglegur skrifstofumaður, en það getur hann verið á sinni skrifstofu, þótt hann hafi ekki yfirlit yfir hinar tvær.

Ætlast hæstv. forsætisráðherra til, að enginn einn af ráðherrunum eigi að vera skyldugur að segja umboðsmanni hvað gera skuli í utanríkismálum, heldur eigi að þvæla málunum af einni skrifstofunni á aðra, þannig, að hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir.

Mjer mundi ekki vaxa í augum þó að þyrfti að hafa sjerstaka skrifstofu, tel það fremur ágóða, miðað við það sem er, og miða í áttina til að koma utanríkismálunum í rjett horf.

Þó að Knud Berlin hafi verið í litlu áliti fyrir 3–4 árum, er hann í miklu áliti nú. Það er ekki gott að treysta því, að heimurinn gangi altaf eins.

Hæstv. forsætisráðherra vildi, að þetta væri þál. frá Alþingi, en ekki frá Nd., en jeg vil bjóða honum að sjá um, að samhljóða till. komi fram í efri deild.

Jeg kom fram með tvo síðustu liðina til að fá svar stjórnarinnar. En hvað viðvíkur 4. lið, þá lagði hæstv. forsrh. (J. M.) mikið upp úr því, að hann hefði kostnað í för með sjer. Sá kostnaður myndi margborga sig ef Íslendingar gerðu samninga sjálfir, en sakir þess, að ýmsir þm. líta öðruvísi á það mál, þá vil jeg heldur missa þann lið, og sje till. samþykt.

Hæstv. forsrh. (J. M.) vildi, að lagður yrði í gerðardóm ágreiningur sá, sem minst er á í 2. lið till. En það var aldrei skoðun mín á málinu. Því á fundi í sumar varð enginn ágreiningur milli hins íslenska og danska hluta ráðgjafarnefndarinnar um það atriði, sem getið er um í 2. lið. Dönsku nefndarmennirnir báðu um frest til næsta sumars. Nú vildi jeg leita álits þings og stjórnar um þetta atriði, áður en á fund þennan kæmi, svo jeg hefði öruggan bakhjarl að styðja mig við, og þurfti þá alls engan gerðardóm til að skera úr málinu.

Það er ekki rjett hjá hæstv. forsrh. (J. M.), að það spilli fyrir, að þingið láti í ljós vilja sinn í þessu máli, því eini vegurinn til samkomulags er, að íslensku nefndarmennirnir hafi einróma álit þings og stjórnar að baki sjer.

Þá kvað hæstv. forsrh. Það hlægilegt, að kalla menn, sem sendir væm í sjerstökum erindum til útlanda, sendiherra. Það sje ekki notað um aðra en þá, sem eigi að vera sendiherrar (konsúlar), en ekki um hrossakaupmenn og þessháttar fólk. Það er undarlegt af hæstv. forsrh. að segja, að þetta eigi sjer ekki stað. En þó svo væri, hvað varðar okkur Íslendinga um það? Ef staðhættir eru aðrir hjer á Íslandi, þá þarf að víkja við venju.

Sendimenn frá Íslandi eiga að semja um íslensk mál. Jeg ætlast ekki til, að menn þessir haldi kyrru fyrir, heldur ferðist um og sjeu þar, sem þörfin er mest í það og það skiftið. Það var alls ekki meiningin að kosta dýran mann í hvert land.

Þetta vildi hæstv. forsrh. kalla að blása sig upp; það væri nóg að vita sig hafa þennan rjett. En það nægir mjer ekki; jeg vil, að aðrir viti það líka, bæði ríki og stjórnarvöld. En það geta þau með því einu móti, að við notum þennan rjett. Þetta er uppistaðan í mínu máli, og henni verður ekki neitað.

Annars get jeg látið mjer í ljettu rúmi liggja, hvort till. verður samþykt eða ekki. Ef til vill best fyrir mig, að hún yrði feld, því Íslendingar eru svefnsamir, og þarf deilur og illindi til að halda þeim vakandi. Væri þá sennilega heppilegast að efna til nýrrar deilu til að halda landsmönnum vakandi næstu 25 ár. Frá þessu sjónarmiði gæti jeg vel látið mjer lynda, að till væri feld.

Jeg vildi nú samt benda á þá leiðina að samþykkja till., því þjóðinni mun þá nokkuð óhætt, þótt hún sofi næstu 25 ár. Jeg vil ekki heldur ganga með hrekk eða flærð að sambandsþjóðinni, heldur ganga beint fram eins og hingað til. Ef till. verður feld, heldur hún þó þjóðinni vakandi, en jeg hygg, að ekki verði það eins happasælt fyrir þing og stjórn.