09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (3680)

104. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi

Jakob Möller:

Út af því, sem sagt hefir verið hjer um hafnarbætur á Siglufirði, í sambandi við þetta mál, verð jeg að benda á það, að einmitt þetta atriði getur verið talsvert varhugavert. Það er kunnugt, að til mála hefir komið að ráðast í allkostnaðarsamar umbætur á höfninni í Siglufirði, og að til þess átti að fá aðstoð útlendinga. Það er harla ólíklegt, að útlendir gróðamenn færu að sækjast eftir því að leggja hjer stórfje í hafnarbætur, ef þeir ættu ekki von á einhverju í aðra hönd. Og gera má ráð fyrir því, að þeir hafi að minsta kosti viljað fá einhverjar tryggingar fyrir fje sínu, svo sem veð í kaupstaðarlóðinni. En til þess þyrfti auðvitað fyrst að ná eignarumráðunum úr höndum ríkisins, eins og hjer er farið fram á. Gæti þá svo farið, að kaupstaðurinn allur kæmist á útlendar hendur — en landssjóður fengi þó að minsta kosti stimpilgjald af sölunni!

Þar sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði um það, að þess væru engin dæmi, að bæjarfjelög seldu aftur út frá sjer slík lönd til einstakra manna, þá er það rangt. það er langalgengast í kaupstöðum, t. d. hjer í Reykjavík, að minsta kosti til skams tíma. (Sv. Ó.: Það er á erfðafestu). Nei. jeg á við húslóðir í bænum; þær hafa verið seldar og eru langflestar einstakra manna eignir. það er ræktunarlandið í kringum bæinn, sem látið er á erfðafestu. Og alveg nýlega var um það barist í bæjarstjórninni, hvort selja skyldi lóðirnar á uppfyllingunni við höfnina einstökum mönnum, og munaði minstu, að það yrði gert.

Svo er það hjer, eða hefir verið. Og í kaupstöðum úti um landið mun það vera eins. En jeg álít sem sagt, hvað Siglufjörð snertir, að þar standi sjerstaklega á, vegna hinnar erlendu síldarútgerðar, sem þaðan er rekin. Jeg gæti vel trúað því, að norskir og sænskir útgerðarmenn — eða fjelög — hugsi gott til glóðarinnar með að ná tangarhaldi á kauptúninu, því að næðu þeir fullu eignarhaldi á því, þá ættu þeir hægt um vik að bola þar frá öllum innlendum keppinautum. — Og nú er kunnugt orðið, að sænska stjórnin hefir kveðið upp úr með það, að hún ætli að styðja þegna sína, sem síldarútveg vilja stunda hjer við land, og verður eflaust á allar lundir reynt frá Svía hendi að gera þær ráðstafanir, er tryggja hag þeirra útgerðarmanna hjer við land. Og dylst engum, að sú samkepni getur orðið hjerlendum mönnum fullerfið, jafnvel þó að þeim verði ekki alveg bolað út úr bestu veiðistöðvum landsins.