11.05.1921
Neðri deild: 67. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3684)

121. mál, ullariðnaður

Frsm. (Björn Hallsson):

Jeg sje, að hv. 1. þm. Ám. (E. E.) er ekki í sæti sínu; bjóst við, að hann mundi biðja um orðið fyrst, en úr því svo er ekki, þá vil jeg segja nokkur orð fyrir hönd landbn.

Jeg fjell frá orðinu við fyrri umræðu málsins vegna þess, að þá var orðið áliðið fundartíma. Annars þarf jeg ekki að svara nema fáum atriðum í ræðu hv. 1. þm. Árn. (E. E.), því við vorum í raun rjettri sammála um flest atriðin.

Hann sagði, að það væri að mestu leyti aðeins um orðamun að ræða á till. sinni og breytingum landbn. Er það og rjett að mestu leyti. Nefndin vildi leitast við að færa till. í betri búning að því er orðfæri snerti. En líka er þar um efnisbreytingu að ræða, því að bæði eru feldir liðir úr till. og hún stytt að miklum mun.

Það vakti fyrir landbn., að þegar í fyrsta og öðrum lið till. kæmi það fram, sem mest áherslan átti að liggja á, enda breytti og nefndin till. í samræmi við það.

þá hefir nefndin felt úr till. ákvæðið um rannsókn á verksmiðjum til að súta skinn og á vjelum, er svo væru fullkomnar, að vinna mætti í þeim alla ull landsmanna, og tók jeg fram ástæðurnar fyrir því við fyrri umr. Vil þó nú endurtaka það, að landbn. leit svo á, að þótt nauðsynlegt væri að koma slíkum verksmiðjum á fót, þá væri slíkt þó ekki hægt fljótlega vegna fjárskorts og fleiri örðugleika.

Hv. flm. till. (E. E.) sagði, að það væri misskilningur hjá landbn., að rannsókn á þessum fullkomnari vjelum mundi kosta mikið fje. Sagði hann, að slíkt væri ekki nema einfalt reikningsdæmi, þegar búið væri að rannsaka, hve miklar vjelar þyrfti til þess að vinna nóg til klæðnaðar öllu landsfólki. Jeg get nú ekki fallist á þetta með hv. flm. (E. E.). Jeg held, að til þess þurfi allvíðtæka rannsókn og að ekki dugi þar eintóm þríliða. það þarf meðal annars að rannsaka staði fyrir slíkar vjelar, því ekki getur til mála komið, að þær verði allar settar niður á sömu stöðum og hinar vjelarnar. Jeg get því alls ekki á það fallist, að hjer sje um að ræða misskilning af hálfu nefndarinnar.

Landbn. gerði ráð fyrir því, að tóvinnufjelögum yrði veittur styrkur úr ríkissjóði til þess að senda utan unga menn og efnilega til þess að afla sjer þekkingar á tóvinnuvjelum og öðru, er að þeim iðnaði lýtur. þetta ákvæði sagði hv. flm. (E. E.) að væri sett algerlega út í bláinn, þar sem engin slík tóvinnufjelög væru til. þetta er að vísu satt, en nefndin leit svo á, að þegar ullariðnaður kæmist hjer á, þá mundu um leið rísa upp fjelög til þess að stunda þann iðnað. Um það er að vísu ekkert ákveðið, hvað slík fjelög skuli heita, en eitthvert nafn varð nefndin að gefa þeim, og sýndist þá rjettast að kalla þau tóvinnufjelög. Sýndist nefndinni rjettara, að styrkurinn væri veittur slíkum fjelögum til umráða, heldur en að stjórnin sjálf úthlutaði honum til styrkþeganna.

þá taldi hv. flm. (E. E.) það óheppilegt af nefndinni að fella niður sjötta lið till. En sá liður fjallar um það, að þessum rannsóknum skuli flýtt og helst svo, að þeim verði lokið fyrir næsta þing.

Nefndin taldi þennan lið óþarfan vegna þess, að í upphafi till. segir, að þetta skuli gert sem fyrst. Sjötti liður er því aðeins endurtekning, sem mátti og átti að falla niður. Þessi var ástæða nefndarinnar, en alls ekki sú, að hún vildi ekki flýta þessu máli.

Jeg held, að ekki sje svo fleira, sem jeg þarf að minnast á í ræðu háttv. flm. (E. E.). Okkur bar lítið á milli og sama hugsunin vakti bæði fyrir honum og landbn. í aðaldráttunum.

Jeg skal svo ekki segja fleira um þetta mál, en bíð þess, að hv. flm. (E. E.) minnist á brtt. sínar, og mun þá taka til andsvara, ef að nefndinni er beinst.