04.05.1921
Neðri deild: 62. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1971 í B-deild Alþingistíðinda. (3685)

112. mál, fiskimat

Frsm. (Einar Þorgilsson):

Jeg kann illa við að fara að prútta við háttv. samnefndarmann minn þm. Ak. (M. K.). En jeg var ekki var við nein mótmæli frá hans hálfu, eða nokkurs annars, þegar mál þetta lá fyrir fundi sjútvn., nje heldur þá skoðun, að þetta væri eða mundi reynast dauður bókstafur.

Hann byggir skoðun sína á því, að meginhluti fiskjar gangi kaupum og sölum í smáum stíl, og eigendum eða kaupendum þyki því eigi við eiga að kalla til matsmenn. En þetta er hreinn misskilningur. Einmitt nú á síðari árum er tekið að selja fiskinn í stærri stíl úr bátum, og honum safnað saman á einn stað. Við Faxaflóa er hann fluttur 10–12 tonn á mótorbátum, og má vel meta það í einu, að kostnaðarlitlu. Þó smáslumpar, eins og 1 eða 2 skippund, kunni að vera á afskektum stöðum, þá er það svo lítilsháttar, að eigi tjáir að fást um, þó undan kunni að bera.

Háttv. þm. (M. K.) virðist styðja skoðun sína á því, að fiskurinn gangi kaupum og sölum í svo smáum stíl, að ekki svari kostnaði að kveðja til matsmenn í hvert sinn. En sá skoðanagrundvöllur hans byggist á því, að hann er ekki nógu kunnugur staðháttum síðustu tíma.

Jeg hygg till. á þskj. 367 bráðnauðsynlega og til stórra bóta. Þó get jeg ekki skilið, að brtt. á þskj. 482 fari í bága við hana; þar er aðeins breytt dálítið orðalagi. Og þó að jeg álíti ekki þörf á að samþ. hana, þá held jeg ekki, að hún spilli nokkuð hugsjón sjútvn.