20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (3692)

139. mál, vaxtakjör landbúnaðarlána

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg bað hv. flm. (E. E.) að gefa mjer stutt og ákveðið svar við stuttri fyrirspurn. Hann svaraði með hálftíma ræðu og jeg er engu nær eftir en áður, svo að jeg held, að jeg spyrji ekki frekar.

Hv. flm. (E. E.) sagði, að ekki væru til nein tálmunarákvæði, sem heimiluðu að setja niður vexti. Jeg bjóst við, að lögfræðingurinn þekti ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarrjettarins. Jeg leyfi mjer að spyrja þennan hv. þm. og bankastjóra (E. E.) og vil fá skýrt og greinilegt svar, en engan hálftíma þokumökk, hvort hann teldi sjer skylt að lána t. d. eigin fje gegn þeim vöxtum, sem stjórninni sýndist að ákveða. En má jeg spyrja herra bankastjórann (E. E.), hví lánar hann ekki sjálfur með góðum kjörum? Og hví dirfist hann að drótta því að húsbændum sínum í Landsbankanum, að þeir okri á landbúnaðarlánum? Og hví lánar þm. (E. E.) hina þráttnefndu hengingarvíxla? Hefir hann þá engin ráð í sínum banka?

Hv. þm. (E. E.) sagði, að orðin „að hlutast til um“ þýddu, að stjórnin gerði það, sem hún gæti. En „hlutast til um“ þýðir að sjá um, að eitthvað verði.

Jeg sje ekki, að stjórnin geti gert neitt í þessu efni. Það er hægt að skipa svo fyrir, að Landsbankinn skuli lána gegn ákveðnum vöxtum, en sú skipun verður að koma í lögum. En þó að hv. bankastjórinn (E. E.) vilji lána með góðum kjörum, þá meinar stjórnin honum það ekki.

Þessi hálftíma ræða var öll í þoku eins og aðrar þingræður þessa þm. (E. E.). það var sagt hjer á þinginu snemma af einum hv. þm., jeg held þm. Ak. (M. K.), að hugsun þm. (E. E.) væri eins og þoka, en einhver ljóshnöttur mundi vera inni í þokunni. En það er nú komið á daginn, að þar mun enginn ljóshnöttur vera, heldur alt tóm þoka. Ef einhver ljóstýra væri, hlyti sem sje að hafa glórt í hana einhverntíma, því að alt misvindið á þinginu hefir svo oft sveipað til þokunni.

Annars er ástæðulaust að svara frekar, því deildin mun vel sjá og skilja, að þessi till. getur ekki orðið samþykt.