19.05.1921
Efri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1569 í B-deild Alþingistíðinda. (3706)

45. mál, Sogsfossarnir

Guðmundur Guðfinnsson:

Jeg vil mæla hið besta með því, að þetta frv. nái fram að ganga.

Jeg er ekki samdóma því, sem háttv. 1. þm. Húnv. (G. Ó.) sagði við 1. umr. þessa frv., að heimildin í þingsályktuninni frá 1919 sje nóg. Þar er ekkert minst á að rannsaka járnbrautarlagningu austur í sýslur. Og þetta er ekki sambærilegt við 3. lið í ullariðnaðartill., sem hann var að vitna í. Þar var gert ráð fyrir, að fram færu rannsóknir um alt land, og þá hefðu orðið gerðar áætlanir um margt, sem aldrei hefðu komið til framkvæmda. En þetta kemur þó áreiðanlega einhverntíma til framkvæmda.

Annað fallvatn þar austanfjalls hefir verið rannsakað talsvert. Er það nær mjer og mínu kjördæmi. En jeg tel samt engan skaða, þótt þetta sje rannsakað, því að jeg tel sjálfsagt, að það fallvatnið sje tekið, sem betra er, gefur ódýrari orku.

En svo er annað meginatriði þessa frv. Það er rannsókn járnbrautarlagningar austur. Jeg tel það engu síður mikilvægt en hitt. Það mál er ekki nýtt hjer á þingi. Það var til umræðu fyrir nokkrum árum, og ef þá hefði verið undinn bráður bugur að því að leggja járnbrautina, þá væri hún búin að borga sig nú, því að flutningur þessa leið hefir verið og er afardýr. Nú kostar t. d. 150 kr. að flytja hverja smálest hjeðan austur að Þjórsá. Með þessu er jeg ekki að ásaka þá, sem móti voru, því að ekki var hægt að sjá fyrir þær breytingar, sem orðið hafa á öllu verðlagi.

Nú er verið að leggja í miljónafyrirtæki þar eystra, áveitur og fleira, sem hefir mikla þýðingu fyrir afkomu þjóðarinnar. En jeg sje ekki, hvernig þau fyrirtæki eiga að blessast, nema því aðeins að sjeð verði fyrir góðum samgöngum.