30.04.1921
Neðri deild: 59. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

41. mál, fjárlög 1922

Magnús Kristjánsson:

Jeg vona, að hv. frsm. (B. J.) misvirði ekki við mig, þótt jeg bæti nokkru við það, sem hann sagði um XXXII. brtt. á þskj. 426. Það er ekki vegna þess, að jeg álíti hann ekki færan um að styðja þessa sanngirniskröfu. Jeg þykist vera málinu nokkuð kunnugur og vera fær um að leggja því liðsyrði til stuðnings því, sem þegar hefir verið um það talað. Þegar tunnutollurinn var lögleiddur, var það ekki beinlínis til þess að afla tekna, heldur miklu fremur sem verndartollur fyrir innlenda menn. Það var nauðsynlegt vegna þess, sem á undan var gengið, þar sem Englendingar höfðu bakað atvinnurekstrinum stórtjón, með því að teppa skipaferðir til landsins þegar verst stóð á. Árið 1916 var, eins og kunnugt er, mesta aflaár, en aflinn nýttist lítt, því að tunnur vantaði, og var það af völdum Englendinga. En eftir að vertíð var úti, komu margir skipsfarmar af tunnum, sem áttu að koma fyr um sumarið. Þessar tunnur varð svo að geyma til næstu ára, en þær hlutu að verða verðlitlar vegna aflaleysis áranna 1917 og 1918 og einnig vegna þess, að vitanlegt var, að útlendingar ætluðu að flytja inn mikið af nýjum tunnum, sem þá voru í mikið lægra verði. Þá var því ekki annars kostur en setja toll á tunnurnar, svo að útlendingar gætu ekki kept með ódýrari tunnum og spilt því, að þessi litla veiði yrði landsmönnum sjálfum að notum.

Nú hafði þessi maður, sem hjer ræðir um, pantað einn skipsfarm af tunnum, en skipið kom ekki fyr en eftir að tollurinn hafði verið lagður á. Þessar ráðstafanir hafði hann gert óvitandi þess, að slíkur tollur yrði á lagður. Og þótt hann hefði nú getað losnað við kaupin, þá vildi svo óheppilega til, að hann hafði leigt skip til flutningsins, og hefði því orðið að greiða flutningskostnaðinn hvort sem var. Þess vegna varð hann að taka tunnumar, enda þótt honum væri ekki bráðnauðsynlegt að fá þær, í þeirri von, að einhverju yrði vilnað í um tollinn, þar sem svo sjerstaklegar ástæður voru fyrir hendi. Því að það dylst ekki, að þarna kom tollurinn alveg öfugt niður við það, sem tilætlunin var. Hann varð til þess að íþyngja innlendum mönnum, en tilgangurinn var að vernda og tryggja hagsmuni þeirra.

Því hefir verið haldið fram, að sumir lögreglustjórar hafi stundum innheimt þennan toll nokkuð harðneskjulega. Ágreiningur hefir líka stundum komið fram milli stjórnarinnar hjer og stjórna annara ríkja, og lítur helst út fyrir, að ekki verði hjá því komist að endurgreiða þeim tollinn að einhverju leyti. Nú geri jeg ráð fyrir því, að öllum komi saman um, að engu minni ástæða sje til að endurgreiða innlendum mönnum einhvern hluta tollsins, þegar upplýst er, að þeir hafa orðið mjög hart úti í þessu efni eða krafðir um meira en sanngjarnt var samkvæmt anda laganna. Hjer er ekki farið fram á að endurgreiða nema nokkurn hluta tollsins, en betri er hálfur skaði en allur, og vænti jeg þess, að háttv. deild samþykki það, og skal jeg þá ekki fjölyrða um þetta frekar, enda er málið einfalt í sjálfu sjer og þarfnast ekki frekari skýringa.