10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (3715)

79. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Jeg ætla aðeins að minnast á örfá atriði í ræðu háttv. 2. þm. Skagf. (J. S.).

Hann spurði, hvort jeg hjeldi, að gjaldskylda á slægjuafnot væri læknismeðal við því, að jarðir leggist í eyði. Það er ekki til umræðu hjer, hvernig eigi að fyrirbyggja það, en jeg vona, að við getum orðið sammála um nauðsyn þess, þegar um það verður rætt. En ekki get jeg álitið, að það sje meira læknismeðal við þessari hættu að undanþiggja þá, sem þannig nota jarðirnar, allri útsvarsskyldu í þeim hreppum, er jarðirnar eru í.

Þá vildi hv. þm. (J. S.) enn reyna að andmæla því, að frv. útilokaði ekki með öllu, að hægt væri að ná útsvörum af slægjuafnotum, en það er gersamlega tilgangslaust fyrir hann, því það er eins og fálm druknandi manns. Sje jörðin í ábúð, þó ekki sje nema aðeins að nafni til, og það eru þær flestar, þá er sveitarfjelagið, eftir frv., útilokað frá að geta lagt útsvar á þann, sem hefir afnot slægnanna. Jeg get tekið það dæmi, að maður úr Reykjavík fer t. d. upp á Kjalarnes og fær þar slægjur á leigu og selur heyið til Reykjavíkur með góðum hagnaði. Eftir frv. er þá ekki hægt að skattskylda hann um einn eyri til Kjalarneshrepps, þó að hann fái allan hagnaðinn af afnotum lands, sem undir þann hrepp liggur.

Sem betur fer, eru slík dæmi, sem hv. flm. (J. S.) nefndi frá árinu 1918, mjög sjaldgæf, en í löggjöf verður æfinlega að byggja á því, sem venjulegt er, byggja á aðalatriðum, en síður því, sem er aukaatriði.

Um sýslunefndir þarf jeg ekki að orðlengja við hv. 2. þm. N.-M. (B. H.). Jeg hafði þessi orð vegna þess, að hann gaf mjer fult tilefni til þess.