18.03.1921
Neðri deild: 26. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1932 í B-deild Alþingistíðinda. (3716)

94. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Pjetur Þórðarson:

Jeg hafði nú ekki hugsað mjer að gera grein fyrir mínu atkvæði, og ekkert það hefir sagt verið í umræðunum, sem hefir haft áhrif í þá átt, að breyta afstöðu minni til málsins. En það voru nokkur ummæli háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), sem komu mjer til að segja nokkur orð. Þau ummæli virtust mjer skýr, en satt að segja var jeg dálítið annars hugar, og man þau nú ekki orðrjett, en jeg held þau hafi verið eitthvað á þá leið, að það væri lítt viðunandi eða sœmandi að skipa þessu með lögum, eins og nú stendur á og áður en samninga væri leitað á milli rjettra málsaðilja.

Þetta er það eina í öllum umræðunum, sem snerti mig svo, að jeg fór frekar að íhuga þessi ummæli háttv. þm. (J. Þ.), því jeg vildi síst af öllu greiða atkv. með því, sem háttv. deild væri ekki samboðið, eða ef sæmd hennar væri ekki borgið. Nú var jeg í upphafi ákveðinn í því að greiða atkvæði með þessu máli, og þrátt fyrir þessar löngu umr. og ummæli háttv. þm. hefi jeg ekki breytt um skoðun.

Jeg veit ekki betur en áður hafi ýmislegt verið fyrirskipað með lögum, án þess að spyrja um afstöðu rjettra málsaðilja. Og svo jeg nefni eitthvert dæmi, þá get jeg bent á t. d. lög um vistarráð hjúa, og er þar þó um samninga að ræða milli húsbænda og hjúa, enda mætti með sama rjetti segja, að það hefði getað verið án lagafyrirmæla. (S. St.: Er hvíldartími ákveðinn í hjúalögunum?). Nei, jeg átti heldur ekki við það, en tók þennan samanburð vegna samningaleiðarinnar, sem sumir hv. þdm. vilja fara í þessu máli.

En jeg vil snúa mjer aftur að vistarráðslögunum. Það er ekki eins og að slík ákvæði hafi verið sett sem rjettarvernd fremur vegna þeirra, sem ófullveðja kynnu að vera heldur en hinna, sem fullveðja voru og sjálfráðir, því vitanlega hafa þá eins og nú verið menn, sem voru fyllilega samningahæfir á báðar hliðar. Geri jeg því ráð fyrir, að þegar slík ákvæði voru sett, að ekki hafi verið farið til allra hlutaðeigenda áður, og sama mun hafa átt sjer stað oft og mörgum sinnum síðan, þótt um samningamál hafi verið að ræða.

Af þessum ástæðum breytist afstaða mín ekkert, og sæmd deildarinnar tel jeg ekki misboðið með samþykt málsins, en mjer fanst rjettara að gera þessa grein fyrir atkv. mínu.