26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (3719)

36. mál, þjóðjarðir

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þskj. 61, við frv. á þskj. 36, um umboðsskipun í Norður- sýsluumboði, og lýtur hún að því að bæta við Múlaumboði.

Ástæðan fyrir mjer er ekki sú, að jeg haldi þessa skipun betri en ákvæði laga nr. 30, 1913, heldur að jeg veit með vissu, að hún er betri. Á þingi 1917, þegar þessi nýja skipun var gerð um Arnarstapaumboð, var af einum háttv. þingdm. hjer flutt brtt. um að bæta Múlaumboði við, en hún var feld, og að því er jeg best gat sjeð, af tómum misskilningi; jafnvel flaug sú fáránlega kenning fyrir, að till. mundi fyrir mig borin fram og mjer í hag, þótt öllum mætti það sýnilegt vera, eins og nú, að hjer var og er að ræða um skipun umboðsins eftir minn dag.

Jeg er jafnsannfærður um það nú eins og jeg var þá, að þessi skipun, sem gerð hefir verið á Arnarstapaumboði, á einmitt alt eins við um Norðursýslu og Múlaumboð. Nákvæmlega sömu rökin mæla með á öllum þessum stöðum: Fjölbýlisjarðir, sem ekki verða seldar, til og frá á umboðssvæðinu, með mörgum lóðarútmælingum, verðmætar eignir, sem miklu skiftir fyrir ríkið og almenning að hyggilega og vel sjeu hagnýttar.

Það er alls eigi rjett að líta á frv. þetta eins og vantraustsyfirlýsingu til hreppstjóranna. Ekkert slíkt vakir fyrir mjer, en jeg skil, að meðferð þessara ríkiseigna getur yfirleitt eigi verið eins vel borgið hjá þeim og umboðsm., sem stjórnin skipar, og það liggur í því, að hreppstjórar verða háðari hreppsbúum á hverjum stað en umboðsmaður, sem býr utan hrepps, og töluverð hætta er á, að meðferð eignanna verði einskonar hreppsmálefni; eigin hagur og grannahagur verður eðlilega oft í fyrirrúmi. Auðvitað getur þetta átt við líka um umboðsmann, ef eignirnar liggja í hans hreppi, en hvorttveggja er, að hann býr þá að eins í einum hreppi þeirra, sem eignirnar eru í, enda stjórninni hægari tök á honum en hreppstjórum.

Jeg hefi verið við riðinn sölu margra þjóðjarða, alt frá 1910, og hún hefir í mörgum tilfellum sýnt mjer, að hreppsbúar styðja tíðum hver annan eftir föngum til að eignast jarðirnar með litlu verði og losa ríkissjóð við þær. Jeg hefi varla sjeð svo lýst þjóðjörð, sem selja átti, að eigi væri lögð mikil áhersla á ókosti hennar, en að sama skapi dregin fjöður yfir kostina, þetta er ljós vottur þess, hvernig farið getur, þegar meðferð eignanna er orðin að hreppsmálefni.

Það er á allra vitorði, að almenningur lætur sjer lítið ant um hag þess opinbera, er kröfuharður, þegar þangað á að sækja gjöld, en linur um eftirgangsmuni, þegar þangað ber að greiða. Það mætti benda á mörg atvik, sem eru spegill þessa hugsunarháttar, en jeg sje ekki ástæðu til þess hjer.

Lögin frá 1913, um meðferð umboðanna, eru eigi vandl. hugsuð; þau geta átt við þar, sem örfáar sveitajarðir verða eftir við fráfall umboðsmannanna, en alls eigi þar, sem fjölbýlisjarðir margar, með mörgum útmældum lóðum eða jafnvel heilum kauptúnum, eru eftir.

Jeg býst að vísu ekki við því, að jeg snúi huga þeirra, sem fyrirfram hafa ákveðið að fella frv. og till. mína, eins og hv. landbúnaðarnefnd leggur til, en jeg tel mjer jafnskylt fyrir því að halda fram þeirri stefnu, sem jeg tel rjettari og öruggari.

Háttv. frsm. (St. St.) áleit það örugga tryggingu fyrir góðri meðferð á eignum ríkisins, að staðfesting sýslumanns væri heimtuð á byggingarbrjefum. Jeg verð að líta öðruvísi á. Í fæstum tilfellum geta sýslumenn dæmt nokkuð um meðferðina af eigin reynd, en verða að treysta sögusögn hreppstjóranna. Sjerstaklega á þetta við um fjarlæga hreppa í víðlendum sýslum, eins og t. d. á sjer stað í Múlaumboði.

Þá hefir það verið tekið fram í nál. sem ástæða gegn frv., að eftirlit hreppstjóranna verði ítarlegra, vegna þess að þeir búa nærri vettvangi og geti því skift jörðunum rjettlátlegar og heppilegar manna milli.

Það má vel vera, að þessi skifting eða úthlutun yrði hreppsbúum þeim, sem í hlut ættu, haldkvæmnari, og það kemur heim við skoðun mína um það, að umsjón eignanna verði að hreppsmálefni. En það er þá líka jafnljóst, að öðrum, sem þurfa að komast að notum þessara eigna, verður leiðin ógreiðari og ríkinu eða hagsmunum þess miður borgið.

Þá er sú óverulega ástæða flutt gegn frv., að umboðslaun hreppstjóra sjeu lægri en umboðsmanna. Þessi hækkun nemur að eins nokkrum hundruðum króna, og er hún eðlileg afleiðing þess, að fyrirhöfn umboðsmanna er meiri, því þeir verða að hafa eftirlit með stóru svæði, en hreppstjórarnir að eins rjett í kringum sig.

Um sparnað þann, sem háttv. nefnd talar um á þskj. 57, ætla jeg ekki margt að tala. Frv. gerir ráð fyrir, að umboðsmenn fái 10%, en áður hreppstjórum ætlaðar 6%. Háttv. frsm. (St. St.) lagði ekki mikla áherslu á þetta, enda er hjer ekki um ýkjamikið að ræða.

Tekjur af Norðursýsluumboði má ætla 5000 kr. árlega og af Múlaumboði 4500 kr. Umboðslaun því eftir frv. 500 kr. í öðru, en 450 í hinu.

Væri nú eignum þessara umboða skift milli hreppstjóranna, þá mundi sparast af umboðslaununum nyrðra 200 kr., en eystra 180 kr. eða alls 380 kr. í báðum.

Slík upphæð skellur ekki hátt í ríkissjóði, og fljótlega getur jafnstór upphæð glatast ríkinu, eða þótt meira væri, af lóðarleigum við sjó á þjóðjörðum, ef ekki er vel til gætt og þegar meðferð eignanna er orðin að hreppsmálefni.

Jeg skal svo ekki tefja hv. deild með fleiri orðum um þetta mál. Jeg get sagt nú, eins og jeg sagði, þegar þetta var á dagskrá á þingi 1917, að jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvort ofan á verður, en það veit jeg, eins og jeg gat um áðan, að eftirlitið af hálfu hins opinbera yrði miklu betra, ef frv. næði fram að ganga.