18.04.1921
Efri deild: 46. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

40. mál, póstlög

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Þetta frv. er stjórnarfrv. og fer fram á nokkra hækkun á burðargjöldum með póstum. Er sú hækkun aðallega á brjefum og ábyrgðargjöldum, því að hv. Nd. hefir felt niður þá hækkun, sem upphaflega var farið fram á á burðargjaldi undir blöð og tímarit.

Það mætti nú segja, að þessi gjöld væru nægilega há fyrir, og sumir láta jafnvel í ljós, sem vel getur haft við rök að styðjast, að tekjuauki af þessari hækkun sje eigi vís, því að brjefasendingunum muni fækka, menn muni meir forðast að nota póstinn, þá er burðargjöld hækka. En jeg hygg nú, að varla sje hætta á því. Þessi hækkun er svo lítil, að ekki virðist varhugavert þessvegna að samþykkja frv.

Póstlögunum hefir verið breytt alloft, svo að auk laganna frá 1907 gilda nú þrenn önnur, frá 1914, 1919 og 1920. Ef þetta frv. verður samþ., eins og fjhn. leggur til, þá er svo ráð fyrir gert, að öll þessi lög verði færð saman í eitt og gefin út í heild, og er það mikið hagræði. Mætti þá og ef til vill vonast eftir því, að næstu þing ljetu lögin óbreytt fáein ár.

Enda þótt nefndin hafi ekki gert neina brtt., þá vill hún vekja athygli hv. deildar á því, að breytingin í 1. gr. frv. á 21. gr. 1. frá 1907 fer ekki vel við. Virðist fara betur á því að skjóta þessu inn í framan við síðustu málsgrein heldur en að láta það koma á eftir. Taldi nefndin ekki ástæðu til að láta frv. flækjast milli deilda fyrir þessa sök eina, en vonast til, að þetta megi lagfæra í prentun, þá er lögin verða gefin út.

Annað en þetta þarf jeg ekki að taka fram, nema óska, fyrir hönd nefndarinnar, að hv. deild samþ. frv.