20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (3723)

133. mál, undirbúningur slysa og ellitrygginga

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það getur nú verið, að þessi till. gangi ekki jafnhljóðalaust gegn um hv. deild og hin fyrri (um endurskoðun fátækralaganna), þótt svo ætti að vera, þar sem hjer er að ræða um mikið framtíðar- og nauðsynjamál fyrir þjóðina. Þörfin á þessum tryggingum sjest hvað greinilegast á því, að varla er það fjelag stofnað í landinu, sem ekki byrjar starfsemi sína með því að stofna sjúkra- eða tryggingasjóði. En allir slíkir sjóðir eru auðvitað mjög máttarlitlir og geta ekki eflst svo nokkru nemi, eða veitt nokkurn styrk svo teljandi sje.

Jeg verð nú að leggja mesta áherslu á það, að slysatryggingar verði almennar. Svo er og hjá bræðraþjóðum okkar, að þar er búið að koma á almennum slysatryggingum. Í Danmörku komust þær á með lögum frá 6. júní 1916, og var þar bygt á sama grundvelli og í þingsályktunartillögu þeirri, er jeg ber hjer fram. Það er sem sje skyldutrygging, þar sem hver og einn, er lætur annan vinna fyrir sig, er skyldur að hafa trygt hann áður, og það verður þannig á atvinnurekanda, sem tryggingarskyldan hvílir. Í slysatryggingum sjómanna er skyldutryggingin að vísu ekki bygð á þeim grundvelli, en þess verður ekki langt að bíða, að svo verði. En þessi litla slysatrygging sjómanna opnar best augu manna fyrir tryggingarleysinu á öðrum sviðum en nokkuð annað. Ef t. d. verkamaður og lögskráður sjómaður eru að vinnu úti í skipi, og verða báðir fyrir slysi, þá fær verkamaðurinn ekkert, en sjómaðurinn þó dálítinn styrk. Verkamenn og aðrir starfsmenn fá ekki neinar bætur fyrir slys, sem þeir verða fyrir, og úrræðið verður venjulegast það, að leita verður á náðir sveitarinnar. Þetta atriði var nú svo ítarlega rætt um daginn í sambandi við fátækralögin, að jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í það hjer.

Hjer var á dögunum samþykt till. um innlendar elli- og líftryggingar, þar sem hæstv. stjórn var falið það mál til frekari rannsóknar. (Fjrh. M. G.: Þar var einnig átt við slysatryggingar). Nei, með leyfi hæstv. forseta, þá segir svo í till.:

„Alþingi ályktar að skora á stjórnina að halda áfram rannsóknum um innlendar elli- og líftryggingar o. fl. hjer að lútandi, svo og athuga, hvort ekki sje tímabært að lögleiða almennar skyldutryggingar, einkum ellitryggingar.“

Hjer er ekki svo greinilega að orði komist, að hæstv. stjórn geti ekki hummað það fram af sjer, þótt hún líka með góðum vilja gæti eitthvað gert, og þar er ekki lagður sá grundvöllur, sem jeg vil láta leggja, að ellitryggingar ættu að vera skylda og að iðgjöld ætti hver maður að byrja að greiða þegar hann er 15 ára. Í greinargerð þál. till., sem samþykt var, var bent á þá leið í ellitryggingum, að hver maður á tvítugsaldri eigi að geta keypt sjer ellitryggingu í eitt skifti fyrir öll; þá verð jeg að álíta, að slíku ákvæði verði ekki hægt að koma við, enda eru kringumstæður manna á þeim aldri ærið misjafnar, t. d. verða margir menn á þeim aldri að sjá fyrir vandamönnum sínum, þótt þeir sjeu ekki sjálfir orðnir fjölskyldumenn. Því er betra að fara heldur hina leiðina, að gjaldið sje tekið af mönnum árlega, mánaðarlega eða vikulega, svo að þeir, er þeir hafa náð sextugsaldri, hafi rjett til þess að fá útborgaða smáupphæð mánaðarlega. Eins og kunnugt er, er til ellistyrktarsjóður, en þar er ekki um neinn rjett til styrktar úr honum að ræða, heldur er það nokkurskonar náðarbrauð, sem sækja verður um og fátækrastjórnin úthlutar. Auk þess eru upphæðir þær, sem veittar eru, svo litlar, að lítið munar um þær, þótt það geti ef til vill kallast lítils háttar glaðningur. Þessu fyrirkomulagi verður auðvitað ekki komið á alt í einu. Það verður að byrja smátt og smátt og leggja grundvöllinn sem tryggilegastan, og sem líkastan því, sem hann er hjá öðrum menningarþjóðum.

Jeg finn svo ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Jeg geri ráð fyrir, að menn sjeu orðnir allbráðir í að komast hjeðan.