20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í D-deild Alþingistíðinda. (3724)

133. mál, undirbúningur slysa og ellitrygginga

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins lýsa yfir því, að jeg get ekki betur sjeð en að Alþingi hafi, með þál.till. á þskj. 309, afgreitt til landsstjórnarinnar ályktun um að taka það sama mál til meðferðar og hjer ræðir um. Jeg fyrir mitt leyti gæti nú látið mjer standa á sama um það, þó að tvær þál.till. yrðu afgreiddar um sama efni, en mjer þykir þessi till. vera alt of einskorðuð um það, hvernig og á hvaða grundvelli skuli framkvæma hana, og mjer finst óviðeigandi, að þing og stjórn bindi svo fyrirfram hendur sínar um það mál, sem fyr á þinginu er búið að vísa til stjórnarinnar.

Þess vegna vil jeg leyfa mjer að bera fram svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Með því, að Alþingi hefir þegar samþykt áskorun til stjórnarinnar um undirbúning tryggingarlöggjafar, sem nær einnig til þess málefnis, er till. á þskj. 485 beinist að, þykir deildinni ekki þörf á að afgreiða þessa till. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“