16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í D-deild Alþingistíðinda. (3730)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Flm. (Bjarni Jónsson):

Jeg hálffyriverð mig fyrir að standa nú upp og tala, þar sem allir, sem talað hafa í hinum málunum, hafa verið að ræða þessa till. Síðastur var hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.), sem kvað „tragi-komedíu“ eiga að fara fram hjer í þingsalnum nú á eftir. Já, svo getur farið, ef menn þora hvorki að vera með eða á móti till. þeirri, sem jeg er hjer flm. að. Annars hefi jeg alls ekki ætlað mjer að gera neinn hvell hjer í dag, svo það er hreinn óþarfi að vera að hneigja sig og beygja fyrir þál. fyrir fram.

Til þess renna ýms rök, að jeg ber fram þessa till.

Það tel jeg fyrst, að jeg sje nauðsyn til þess, að stjórn í þingræðislandi sje þingræðisstjórn. Sú stjórn, er nú situr hjá oss, er fædd eftir miklar þrautir á síðasta þingi, og var vafasamt, hvort mætti telja hana þingræðisstjórn, því að helmingurinn af stuðningi hennar voru hlutleysisloforð frá mönnum, er fóru milli flokka eða tóku sig að þessu leyti út úr flokknum. Mörg þessara fyrirheita um hlutleysi munu þó eigi hafa náð lengra en til þingloka 1920. Nú vita menn, að síðan hefir fækkað fylgismönnum stjórnarinnar, er þá lofuðust henni, en þm. hefir fjölgað. Ef hún því hefir nú fylgi meiri hluta þm., þá hlýtur henni að hafa græðst fylgi frá þeim, er eigi áður vildu styðja hana, eða frá þeim, er bæst hafa við. En þótt svo kunni að vera, þá veit það enginn maður. Nú er það sjálfsagður hlutur, að eigi aðeins þm., heldur og kjósendur landsins, verða að vita það með vissu, hvern stuðning stjórnin hefir, eða hverjir þm. bera ábyrgð á gerðum hennar.

Þetta er mjög yfirlætislaus hlutur og varla vert að skoða það stórviðburð, hvort menn æskja að sjá, hvort stjórnin er þingvæðisstjórn eða ekki. Atkv. um þessa till. skera úr. Þá skiftir vonandi í tvö horn um það, hverjir sjeu fylgismenn stjórnarinnar og hverjir ekki. Og eftir þessa atkvgr. munu flokkar þingsins eigi verða svo skipaðir sem nú, að í sama flokki sjeu menn, sem eru gallharðir fylgifiskar stjórnarinnar, og menn, sem eru henni mjög andvígir, að í sama flokki sjeu menn, er fylgja stjórninni, en eru andvígir stefnumálum hennar, og menn, sem eru andvígir stjórninni, en fylgja þó málum hennar. Slíkt er ekki þinglegt.

Jeg hefði eins vel getað komist að þessari niðurstöðu með því að koma með traustsyfirlýsingu. Það hefði verið vingjarnlegra við stjórnina í orði kveðnu, en í rauninni hættulegra fyrir hana. En mjer var sú leið meinuð fyrir þá sök, að þá hefði jeg eigi mátt greiða minni eigin till. atkv. mitt, en mjer þótti eigi drengilegt að bera hana þá fram.

En nú mun jeg gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna jeg gæti eigi greitt atkv. með traustsyfirlýsingu.

Það tel jeg fyrst, að þegar þessi stjórn tók við, setti jeg henni fyrir ýmislegt og sagði, að ef hún færi eftir því, þá mætti henni takast að vinna fylgi mitt. Jeg bar þá fram hjer í deildinni svo hljóðandi yfirlýsingu sjálfstæðisflokksins:

„Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki stjórnina, nema einn maður, og ber enga ábyrgð á athöfnum hennar, nje lofar að eira henni.“

Ljet jeg þá svo um mælt, að: „þótt þessi yfirlýsing sje fram komin, þá er það hvorki fyrirætlun mín nje flokksins að vera sem mannýgur hrútur og skapa skeið í stjórnina, hvort sem hún vinnur verk sitt vel eða illa. Miklu fremur vil jeg segja stjórninni hitt, að hún skal eigi þurfa að siga von fjandskapar frá mjer, ef hún fylgir um sína daga þeirri stefnu, er jeg mun nú lýsa. En geri hún það ekki, þá mun jeg ekki láta mitt eftir liggja, að henni verði hlýtt yfir síðar og gert til hennar að maklegleikum.“

Nú er sá tími kominn. Jeg lagði þá fyrir hana að fara svo með utanríkismál vor, svo sem jeg hefi nýlega haldið fram í ræðu hjer á þinginu að vera ætti. En hún hefir brugðist því nálega öllu. Hún hefir eigi látið einn ráðherrann vera og heita utanríkisráðherra. Hún hefir að vísu sent mann suður til Miðjarðarhafs, er hún hefir látið hann vera þar í reiðileysi, og ekki þorað að halda fram neinum skilningi um skipun hans, starfsheiti eða stöðu. Hún hefir eigi notað 7. gr. sáttmálans að öðru leyti. Hún hefir ekki hreyft hönd nje fót til þess að fá hingað sendiherra frá öðrum ríkjum, heldur dregið úr því, eða mjer er nær að halda, að hún hafi beinlínis unnið á móti því. Hún hefir ekki heldur gert neina samninga við Norðmenn og Svía um myntsláttu. Aðeins eitt hefir hún gert, þótt um síðir væri, að senda sendiherra til Kaupmannahafnar, og þó er ekki komið svar enn þá um það, hvort rjett hafi verið með það mál farið, sem þó margir draga í efa.

Að öðru leyti en þessu hafa öll utanríkismál vor legið í vanhirðu og aðgerðaleysi. Jeg legg fyrir allra hluta sakir mesta áherslu á þau mál, svo sem títt er í öllum löndum, og verður þá auðskilið, að stjórnin getur ekki vænst trausts af mjer. Og ekki freista ummæli hæstv. forsrh. (J. M.) mín, þau er hann hafði um daginn í umræðum um þál.till. mína um framkvæmdina á 7. gr. sáttmálans, er hann kvaðst mundu heldur velta úr tigninni en að sú till. yrði samþykt. Og ekki freistar heldur vörn hans mín til traustsins, þegar tilrætt var hjer um strandvarnir og framkvæmdir stjórnarinnar í því máli. Og samanburðurinn á ummælum hæstv. forsrh. (J. M.) um tilboð dönsku flotamálastjórnarinnar, og skeyti Neergaard ráðherra mun og eigi freista neins manns til trausts.

Rjett er þó að geta þess, að einn er liður sá í ræðu minni í fyrra, sem stjórnin hefir orðið sæmilega við. Jeg á þar við skólamálin. Þar verður ekkert fundið að gerðum hennar. Og um annan lið má segja, að hún hafi „gert tilraun til að láta gjöld koma rjettlátlega niður á landsmönnum“, þar sem eru skattalög hennar. Jeg læt það ekki varða vantrausti, þótt þar sje nú margt öðruvísi en jeg kysi, en tek viljann fyrir verkið. En þá eru ljósblettirnir upp taldir. Því að stjórnin hefir í engu öðru sint ýmsum stórmálum öðrum, er jeg setti henni fyrir.

Þar nefni jeg til kosningalögin. Þau eru svo úr garði gerð, að til sveita getur eigi meira en helmingur kjósenda neytt atkvæðisrjettar síns. Menn og konur geta ómögulega þotið frá búi og börnum 26. október á kjörstað, hvorki farið bæði saman, nje endilega farið þann dag. Hjer er líkt á komið með stjórnina og með refinn, er hann bauð storkinum heim og bar fyrir hann matinn á flötum diski, svo að hinn gogglangi gestur gat einskis neytt. Í sveit ætti kosning að standa yfir í 3–4 daga, og í kaupstöðum ætti svo að vera frá öllu gengið, að kjósendur mistu ekki rjett sinn fyrir það, að kjördeildir væru ekki opnar svo lengi sem skyldi. Þetta er stórmál, því það er rjettindamál. Hjer er rjetti haldið fyrir þeim, sem hafa og eiga að hafa völdin í landinu. Jeg verð að vera svo gamaldags að álíta, að rjettindi sjeu ekki neitt það, er traðka og trappa má á eftir vild og geðþótta.

Jeg hafði látið þess getið, að mjer þætti það lítt sæmilegur gróðavegur fyrir ríki að hafa fje af verkamönnum sínum og svelta þá. Þó mun stjórnin hafa gert þetta bæði við barnakennara og einstaka aðra menn, fram yfir tilætlun þingsins, og er þá langt til jafnað.

Jeg sagði fyr, að ljósblettirnir væru upptaldir. Þó verður að viðurkenna, að stjórnin hefir sýnt áhuga á að spara. Slíkt verður að virða við hana. En það verður henni til dómsáfellis, hversu mislagðar henni hafa verið hendur í því efni. Hún hefir neitað að greiða manni fjárlagastyrk, veittan á nafn, og hún hefir sagt um annan lið á fjárlögunum, að hann væri prentvilla. Vildi hún með því spara nokkur hundruð krónur og ná þeim af fátækum dyraverði. Varð jeg að eiga í því að færa sönnun fyrir því, að hjer lægi fyrir lögleg samþykt Alþingis, sem stjórnin vildi ganga á. — En á hinn bóginn hefir hún sett upp ýmsar nefndir og starfsmenn að óþörfu, og kostað þar til miklu meira fje en hún hefir sparað við harkalega meðferð á ýmsum mönnum, sem eru beint eða óbeint í þjónustu landsins. Þessum orðum mínum finn jeg stað, ef jeg nefni eitt eða tvö dæmi.

Nefni jeg þá fyrst innflutningsnefndina, sem einhver kostnaður mun vera samfara, þótt jeg kunni eigi að nefna neina upphæð. Hún var ætíð óþörf, því að núverandi fjármálaráðherra (M. G.) hafði borið fram og fengið samþykt lög, er heimiluðu stjórninni að banna innflutning á óþarfavörum. Þurfti því eigi annars með en gefa út lista yfir þær vörur, sem eigi mátti flytja inn. Með þeim lögum gat hún hjálpað miklu meira við í gjaldeyrisskorti vorum erlendis en með þessari nefnd. — Ef þessi nefnd hefði eigi verið, hefði stjórnin ekki lagt út í ótímabæra skömtun og ærinn kostnað við seðlaprentun, sendingu seðla og mannahald. Þessi kostnaður ætla jeg að sje talsverður, þótt jeg kunni eigi að nefna aðrar tölur en prentkostnaðinn, sem er orðinn hátt á þriðja þúsund krónur. En í samanburði við mannahaldið er þessi liður svo lítill, að hans gætir varla, og má því geta sjer til, að upphæðin sje allálitleg, þegar öll kurl koma til grafar.

Þarfleysan er auðsæ, þar sem þessi skömtun var auglýst tveimur eða þremur mánuðum fyrirfram, og menn höfðu því nægan tíma til þess að birgja sig upp. Enda hjeldu margir, að sú auglýsing væri verslunarbragð til þess að selja fyrirliggjandi birgðir fljótt. Veit jeg eigi, hvort landsverslunin hefir auðgast á þessu, en hitt veit jeg, að margir kaupmenn höfðu stórmikinn hagnað og gagn, t. d. Höepfnersverslun, þ. e. a. s. Berléme hinn góðkunni, en kaupendur eða alþýða manna varð að leysa frá buddunni, af því að jafnframt var bannað að flytja ódýrari vörur til landsins. Ekki var skömtunin þarfari til sveita, því að þar birgja menn sig að haustinu, og kom hún því þar eigi til greina. Hjer við er þó einna einkennilegast, að ókunnugur maður var fenginn til þess að standa fyrir seðlaskrifstofunni, þrátt fyrir það, að allir ráðherrarnir höfðu gefið Einari Gunnarssyni fyrirheit um þessa stöðu, ef til kæmi, en hann var því starfi vanur.

Þá verður það eigi talinn sparnaður, er stjórnin leggur til, að einstökum mönnum verði afhent alt rennandi vatn til eignar, og aukinn með því stórum rjettur fossabraskaranna, er náð hafa tangarhaldi á vatnsrjettindum hjer á landi, en torveldaðar áveitur fyrir landsmönnum, virkjanir o. fl. — Ekki stóð stjórnin þar á verði fyrir landslýð og löggjafarvald.

Það er enn margra manna mál, að kaupum og framkvæmdum ýmsra stofnana mætti haga miklu betur en gert er, og leikur jafnvel orð á, að ekki sje leitað lægsta eða besta boðs, heldur sjeu starfsmenn landsins látnir versla við það og selja því samkepnis laust. — Nefni jeg þetta til þess, að stjórnin geti borið þetta af sjer, ef ósatt er.

Er það hald manna, að meira mætti spara fyrir landið með góðu eftirliti en með því að klípa smáupphæðir af fátæklingum.

En slysalegast af öllu er framkvæmdaleysi og yfirlitsskortur stjórnarinnar á atvinnuvegunum. Vafalaust hefði dugleg og glögg stjórn getað borgið mörgum miljónum landsmönnum til handa, ef hún hefði gengið í að selja síldina tvö síðastliðin ár, þegar eigendur gátu eigi, og henni var vorkunnlaust að sjá að hverju fór. — Vafalaust hefði víðsýn og glögg stjórn sjeð fyrir vandræði sjávarútvegsins og látið fram ódýrari kol, og bætt þá heldur skaða landssjóðs með lágu gjaldi í framtíðinni, t. d. 2 kr. á smálest, er þá hefði mátt standa, þar til upp var unnið. Stjórnin þarf einmitt að hafa auga á hverjum fingri til þess að sjá þær hættur, sem vofa yfir atvinnuvegum vorum, og gera þegar við þeim. Ekki á það hvað síst við fiskveiðarnar, því að í útveginum liggja stóreignir, og á þeim lifir svo margt fólk, að nær mundi stefna hungurdauða, ef hann legðist niður.

Þessi sljóskygni, að stjórnin skyldi eigi sjá, að sjávarútvegurinn fjekk eigi borið sig, ef hann þyrfti að sæta svona háu kolaverði, og að hún skyldi eigi koma auga á það úrræði, atvinnuveginum til bjargar, að láta tjónið í bili skella á ríkissjóði, hana tel jeg vítaverða. Hins vegar hefi jeg aldrei verið meðal þeirra mörgu, sem ásakað hafa stjórnina fyrir að birgja landið að kolum. Það tel jeg hrósvert.

En mesta lánleysið er þó lánleysið, að stjórnin tók ekki lán. Hún átti að taka lán í gengisháu landi, og jeg benti henni á Svíþjóð, Holland og Ameríku. Hefði hún borið gæfu til þessa, mundi alt að 6 miljónum króna hafa unnist á gengismismun, og mundi það hafa þótt allálitleg fúlga, ef jeg hefði átt að úthluta henni skáldum og listamönnum. Það er þó eigi gróðinn, sem er aðalatriðið fyrir mjer, heldur bjargráðin. Því hefði stjórnin tekið þennan kost, var atvinnuvegunum óhætt og landinu forðað frá þeim fjárþrotsgrun, sem nú hvílir á því. Mátti þá fara með þetta fje til bankanna og lána þeim það með tilteknum skilyrðum, en þeir guldu aftur skuldheimtumönnum sínum erlendis, og var með því gengismismunurinn þegar fenginn. Auk þess mundi þá hafa orðið hægra um vik að ná hagstæðum samningum við Íslandsbanka um seðlaútgáfurjettinn, ef hægt var að bjóða honum miljónir að láni, er honum reið mest á. Mundi bankinn hafa verið þess fús að láta einhver fríðinda sinna í staðinn.

En þrátt fyrir það, þó að þetta hefði ráðið bót á vandkvæðunum, hefir stjórnin samt ekkert gert til þess að taka lán. Benti jeg stjórninn þó á þetta úrræði, enda þótt hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hafi sagt, að hann vildi engin ráð af mjer þiggja. Gerði jeg þetta í opnu brjefi í Vísi, svo að ekki yrði á móti borið.

Hefi jeg nú talið ástæðurnar til þess, að jeg er á móti stjórninni, og ætla mjer eigi að sinni að gera meiri árásir á hana. Vona jeg, að hún játi það, að jeg hafi eigi gengið nærri sóma hennar í neinu, nje borið hana óþinglegum brigslyrðum. Var það líka tilætlunin. Vildi aðeins færa fram rök fyrir því, hvers vegna jeg valdi ekki hina leiðina, að koma fram með traustsyfirlýsingu. Eigi stjórnin að sitja, verður meiri hluti þings að gangast undir þá ábyrgð. Þess vegna gera fylgismenn stjórnarinnar henni mestan greiða með því að greiða hreinlega atkvæði um tillöguna, en reyna ekki að gera sjer loðnar dagskrár að skálkaskjóli. Þingmenn eru skyldir til þess að vera annaðhvort með eða móti stjórninni, og vjer þingmenn eigum dómara yfir oss engu síður en stjórnin. Hún er umboðsmaður þingsins og fær sinn dóm af því, en þingið er umboðsmaður kjósenda og fær sinn dóm af þeim. Tvíveðrungur fær enga umbun, hvorki hjá stjórninni nje kjósendum. Þeim, sem hann sýna, fer líkt og tófunni í dæmisögunni. Það var einu sinni flóttamaður, hætt staddur. Hann hitti tófu í rjóðri einu og bað hana að segja ekki leitarmönnum, í hvaða átt í skóginn hann hefði farið. Tófan lofaði því. Litlu síðar komu eftirleitarmennirnir og spurðu tófuna, í hverja átt hann hefði farið. Tófan sagði þeim að vísu rangt til vegar, en reyndi með sífeldum augnagotum að segja þeim hið sanna. — þeir þingmenn, sem sitja kunna við tóvinnu hjer í deildinni, fara að dæmi tófunnar.

Enn er ótalin ein ástæða til vantraustsins. Hún er sú, að flokkurinn fól mjer að bera hana fram í sínu nafni, og vildi jeg eigi undan skorast. Gangið nú hreint að verki, hv. þjóðfulltrúar. Gerið annaðhvort að hvolfa potti yfir stjórnina, svo að hún geti skilið við, eða takið í hönd henni og segið sem sá, er vald hefir: „Syndir þínar eru þjer fyrirgefnar. Statt upp og gakk!“

Að svo mæltu legg jeg málið undir dóm deildarinnar.