16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3733)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg skal fyrst leyfa mjer að svara nokkrum atriðum úr ræðu hv. þm. Dala. (B. J.), sem hann beindi að mjer.

Hann sagði fyrst, að jeg hefði viljað hafa laun af barnakennurum, en þar skýst honum, því það var úrskurður fyrirrennara míns, flokksmanns hans, sem hann gaf mjer þar að sök. Sökin lendir því á honum, ef hún er nokkur, en ekki mjer. En jeg skal geta þess, að þetta mál hefir verið lagt fyrir dómstólana og hefir unnist fyrir undirrjetti. Það er því ekki hægt að tala um órjett frá stjórninni í þessu máli enn þá.

Svo sagði hann, að jeg hefði neitað að greiða fjárlagastyrk til ákveðins manns. Þetta er satt. En sá maður hafði í millitíð fengið embætti, og það svo umfangsmikið, að enginn getur að minni hyggju annað meiru. En þetta fje var veitt til ákveðins starfs, sem hann getur nú ekki leyst af hendi. Stjórnin hefir því aðeins stoppað greiðsluna í bili, og þingið getur því enn þá gripið fram fyrir hendur hennar og skorið úr, hvort maðurinn skuli fá fjeð eða ekki. Hann sagði, að sagt hefði verið, að þetta væri prentvilla í fjárlögunum. Jeg veit ekki, hver hefir átt að segja það, og áreiðanlega hefir enginn sagt það í fjármáladeildinni, og hygg jeg, að hjer sje um venjulega Gróusögu að ræða.

Hv. þm. (B. J.) talaði um, að innflutningsnefndin hefði verið óþörf. Um það þarf ekki að saka stjórnina, því það var tekið fram hjer í þinginu í fyrra, að þörf væri á slíkri nefnd, og var hún því skipuð eftir tilmælum þingsins.

Jeg sá, að hv. þm. (B. J.) þótti vænt um þá setningu hjá sjer, að lánleysi stjórnarinnar væri lánleysi hennar, og jeg held, að honum hafi ekki þótt jafnvænt um neitt, sem hann sagði, nema ef til vill dæmið, sem hann tók af tófunni og storkinum, enda hefir hann sagt þá sögu hjer í deildinni minst 10 sinnum. Annars virðist hv. þm. (B. J.) halda mikið upp á það að taka dæmi af tófu, því jeg hefi heyrt hann áður taka dæmi af henni. (B. J.: Sagan var eftir Esóp, en ekki mig). þær eru að minsta kosti sagðar hjer í þessari deild af hv. þm. (B. J.).

Hv. þm. (B. J.) talaði mikið um það, að taka hefði átt lán, og mjer skildist helst, að bankarnir hefðu átt að gera það, en nú vill svo vel til, að hann er í stjórn annars bankans, og mjer þætti gaman að vita, hvað hann hefði gert til þess að sjá um, að bankinn gerði þetta. Mjer vitanlega hefir hann ekki komið með neina yfirlýsingu um, að hann hafi gert nokkuð í þá átt. Jeg býst því við, að hann gefi hana.

Þá sný jeg mjer að hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Hann talaði um tvent, sem hann hefði sjerstaklega út á fjármálastjórnina að setja, og væri fyrst og fremst, að hún hefði ekki tekið lán. Hann sagði um daginn, að jeg skildi svo við fjárhag landsins, að erlendis væri landið talið gjaldþrota. Jeg ætlaði þá að svara þessu, en forseti sleit þá umræðunum áður en mig varði. En nú skal jeg svara honum.

Jeg get nefnt dæmi upp á, að þetta er með öllu tilhæfulaust, því að nú hefir t. d. Landsbankinn fyrir skömmu fengið lán erlendis með þeim skilmálum, að landið gangi í ábyrgðina. Það er því ósæmilegt af hv. þm. (Gunn. S.) að halda því fram, að landið hafi mist lánstraustið og sje talið gjaldþrota. (Gunn. S.: Ekki sagt það). Hv. þm. hefir haldið því fram, að við sjeum álitnir gjaldþrota, og hann getur ekki gengið frá orðum sínum. Þetta, að telja landið gjaldþrota, er óhæfilegt, og þó að nú hv. þm. (Gunn. S.) geri það til þess að reyna að koma mjer frá, verður hann jafnframt að gæta þess að gera það ekki á þann hátt að skaða ættjörð sína.

Hv. þm. (Gunn. S.) fór mörgum orðum um það, hve illa við værum staddir, og sagði, að ef til vill yrði gengið að okkur þegar minstum vonum varði, og að erlendir lánardrotnar gætu komið á hverjum degi. Mjer virtist hann hafa í huga stranga skuldaeigendur, sem ganga hart að, og þeirri aðferð hjelt hann að yrði beitt við okkur. Hann ætlast víst til, að hinir útlendu skuldaeigendur fari að eins og „Lommeprokurator“, með hótunum og lögvillum. En sem betur fer er ekkert útlit fyrir það.

Þá mintist hann á markaðsverðsbreytingarnar og viðurkendi, að þær væru ófyrirsjáanlegar. Hann getur því ekki sakað mig um, þó að jeg hafi ekki sjeð þær fyrir og tekið lán áður en þær breyttust. Það eru fleiri en jeg, sem ekki hafa sjeð hinar miklu markaðsverðsbreytingar fyrir, og má þar t. d. nefna togaraútgerðarmennina. Þeir gerðu samning í október við háseta, en nú er markaðsverðið svo breytt, að þeir treysta sjer ekki til að standa við hann lengur.

Jeg býst við, að hv. þm. (Gunn. S.) hafi sjeð svo um, að hann lendi ekki sjálfur í hinu sama feni, sem hann segir að jeg hafi leitt fjárhag landsins í.

Hann sagði, að ekki gerði mikið til, þó að einstaklingar töpuðu, sjerstaklega þeir, sem hefðu grætt á stríðsárunum. (Gunn. S.: Ekki satt. Jeg sagði, að það gerði minna til). .Jeg skildi orð hans þannig. Mjer er það nú ekki vel ljóst, hvernig hann ætlar mönnum t. d. að halda áfram útgerð, þegar þeir sjá fyrir tapið fyrirfram. Hann hlýtur því að ætlast til, að hið opinbera taki lán á lán ofan til þess að bæta hallann. (Gunn. S.: Þetta er alt misskilningur). Hann sagði víst, að ekki gerði til, þó að bankarnir töpuðu, og jeg skil ekki, hvernig hann getur ætlast til, að bankarnir taki lán, sem þeir sjá fyrirfram að þeir tapa á.

Hv. þm. (Gunn. S.) sagði enn fremur, að fjármálastjórnin vildi ekki taka lán, en hann fer þar rangt með. Þá vitnaði hann í fjármálaræðu mína og sagði, að ekki væri hægt að breyta því, sem þar stæði.

Jeg hefi margtekið það fram, að mjer finst rjett að taka viðskiftalán þegar þörf krefði, en hv. þm. (Gunn. S.) reyndi að halda því fram, að jeg vildi ekkert lán taka, og spurði, hvort ekki myndi rjett að taka lán þegar um hungursneyð væri að tala. En hjer er, sem betur fer, ekki um slíkt að ræða, og að taka spekúlationslán hefi jeg margtekið fram, að jeg væri á móti, og með því vil jeg standa og falla.

Hv. þm. (Gunn. S.) sagði, að taka ætti lán þegar gengið væri sem hæst. Hlýtur þá að eiga að geyma fjeð þangað til gengið fellur, og borga þá með því aftur. En þá er þetta aðeins gróðabrall, sem getur valdið skaða, ef gengið breytist ekki. Hann sagði, að jeg vildi fylgja þeirri sparsemi að spara eyrinn, en jeg vil minna þm. (Gunn. S.) á, að margt smátt gerir eitt stórt, og jeg skammast mín ekki fyrir að vera sparsamur.

Hann sagði, að stjórnin ætlaði að bíða þangað til hún væri búin að jeta ofan í sig alt, sem hún hefði lagt fyrir þingið. par á hv. þm. (Gunn. S.) víst við kornvörufrumvarpið. Jeg get þá upplýst það, að það var fyrirfram ákveðið að gera það ekki að kappsmáli, að það gengi fram, að minsta kosti nú, og ef menn trúa ekki orðum mínum, get jeg sannað þau, því að þetta er bókað í gerðabók ráðherranna.

Þá sagði hv. þm. (Gunn. S.), að jeg væri í minni hluta í þinginu. Jeg skora á hann að sýna þetta og sanna með atkvæðagreiðslu í þinginu. Hann getur t. d. komið með vantraustsyfirlýsingu á mig einan, og það skal ekki standa á mjer að fara, ef meiri hluti vill. Aftur á móti tek jeg ekkert tillit til stóryrða hv. þm. (Gunn. S.) eða hótana fyr en þetta er sýnt. En ætli það bíði ekki dálítið?