16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í D-deild Alþingistíðinda. (3735)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Eiríkur Einarsson:

Þar sem jeg er einn á meðal þeirra þm., er telja landsstjórn þá, sem nú situr að völdum, óheppilega skipaða, og vil ýta undir, að hún beiðist lausnar, þykir mjer rjett að gera nokkra grein fyrir niðurstöðu minni í þessum efnum.

Ætla jeg því að fara nokkrum orðum um þá ágalla landsstjórnarinnar, er mjer þykja mestu máli skifta og hafa ísjárverðastar verkanir í starfi og stefnu þings og þjóðar, en reyna að komast hjá að leiða umr. að aukaatriðum. Skal jeg þá fyrst minnast á athafnir eða rjettara sagt athafnaleysi stjórnarinnar, og síðan á afstöðu hennar til þingsins.

Sú tíð er nú liðin, er ákveðin ágreiningsmál skiftu þjóðinni í fylkingar, eins og átti sjer stað fram á ráðherratíð þeirra Hannesar Hafsteins og Björns Jónssonar. Andstaða gegn þeim kom fram bæði utan þings og innan, vegna forgöngu þeirra í slíkum málum. Nægir þar að nefna símamálið, frumvarpið 1908, og loks bannmálið. Síðan þessum málum lauk, sínu á hvern veginn, hafa engin stefnumál verið mörkuð á skjöld þings og stjórnar ákveðnari en svo, að flest hefir reynst betur lagað til nýrrar tvístrunar en hreinnar flokkaskipunar og atfylgis með og móti. Eina undantekningin frá þessari stjórnmálatvístrun síðari ára er sambandsmálið 1918, er þing og stjórn skipaði sjer svo að segja í eina hvirfingu, þrátt fyrir skoðanamun að öðru leyti. En eins og við var að búast var sama riðlunin á öllu eftir sem áður, svo að þegar litið er á þetta flokksmála- eða áhugamálaleysi, getur sambandsmálið 1918 með hinni fáliðuðu mótstöðu, er þar kom fram, í rauninni talist frá, enda kemur óskipun síðustu ára fram í sinni rjettustu mynd, þegar sáttmálinn er ekki tekinn með í reikninginn.

Meðan styrjöldin mikla hjelst var það í rauninni alveg eðlilegt, að framkvæmdamál þjóðarinnar og allar framfarir lægju í láginni og hyrfu fyrir varúðarráðstöfunum, er þing og stjórn hlaut þá að leggja áherslu á til þess að varðveita öryggi landsins á þeim háskatímum. Öll aðalstarfsemi löggjafans og landsstjórnarinnar á þeim árum lá því í þessari sjálfsögðu viðleitni til að varðveita sátt og hlutleysi milli þessa lands og annara ríkja og sjá þjóðinni fyrir nauðsynjum, er við mörgu mátti búast um aðdrætti á hæpnum siglingaleiðum, og verslunin að öllu leyti óviss.

En þess ber vel að gæta, að nú er ástand og aðstaða þessarar þjóðar mjög breytt frá því, er þá var. Nú eru það ekki lengur viðsjár ófriðarins, sem hjer er við að stríða, heldur afleiðingar ófriðarins, sem eru bæði margar og miklar og hljóta að kosta þjóðina mikið starf og krefja ákveðinnar stjórnmálastefnu og beinskeytts atfylgis þings og stjórnar. Atvinnuvegir þjóðarinnar hafa gengið úr skorðum og gengið af sjer, fjárhagslegt öryggi tapast, bæði inn á við og út á við, framkvæmdalíf og menning þjóðarinnar lamast og geigvænlegur atvinnu- eða stöðurígur smeygt sjer inn og náð tökum í landinu. Alt þetta er að meira og minna leyti afleiðingar stríðsins, og engum getur dulist, hvert verkefni það væri fyrir viljamikinn og viljasterkan löggjafa, með framsýna og fastlynda stjórn í broddi fylkingar, að færa það alt í lag og til betra horfs, sem nú er þannig gengið úr lagi og þarf bráðra bóta við.

En til þess að forðast málalengingar, þegar spurt er, hvort þegar hafi verið gerðar ráðstafanir til þess að kippa þessu í horf, þá get jeg fyrir mitt leyti svarað því afdráttarlaust og sagt nei. Landsstjórnin, sem bæði þing og þjóð verður að gera þær kröfur til, að hún beitist fyrir því, er þjóðfjelagið varðar mestu í það og það sinn, hefir nú á síðustu og verstu tímum vanrækt eða gegnt slælega þeirri skyldu sinni í flestum atriðum. Syndir hennar liggja því að mestu leyti í vanrækslu á að reyna að gera það, sem nauðsynlegt var, til að afstýra ýmsu því, er jeg hefi talið sem yfirvofandi hættu.

Í þessum efnum vil jeg þá fyrst nefna til aðgerðaleysi fjármálastjórnarinnar um peningamál landsins. Það er öllum fullkunnugt, hvernig þeim málum er komið: Lánstraust og fjármála- og viðskiftavirðing Íslands erlendis lamað og eyðilagt til þess skaða og háska, sem best er að eyða ekki orðum að hver gæti orðið, þar sem þessi málefni, er hafa auglýst sig með greiðsluþrotum á löglegum kröfum, er átt hafa að sendast til útlanda, og vandræðaástandi, sem höfuðseðlabanki landsins hefir komist í utan lands og innan, eru nú búin að haldast nokkuð lengi í þessu niðurlægingarhorfi, án þess sagt verði, að fjármálastjórn landsins hafi hreyft hönd nje fót til að kippa í lag, þrátt fyrir tvímælalausa skyldu hennar sem yfirstjórn fjármálanna og bankanna í landinu.

Jeg mótmæli því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði, að ekki mætti ræða um fjárhagsástand landsins hjer í deildinni eða kveða fast að um þá niðurlægingu, sem fjármálin væru í utan lands og innan. Það eru einmitt þessi mál, sem þarf að taka föstum tökum, og að ætla að banda slíkum umræðum frá með því að tala um alment velsæmi, þegar þeir reikningar eru til uppgerðar, og vilja þannig eyða umræðunum, er ósæmandi hæstv. fjármálaráðherra (M. G.). Frammistaða og vanræksla stjórnarinnar í þessum efnum hlýtur að verða henni til dómsáfellis.

Það geta varla verið skiftar skoðanir um það, að þegar tók fyrir greiðsluráð Íslandsbanka á kröfum til útlanda, og þegar seðlar hans voru erlendis auglýstir óinnleysanlegir, og þjóðin með öllu þessu fjekk hálfgerðan eða, mjer liggur við að segja, algerðan gjaldþrotasvip gagnvart umheiminum, þá var það sjálfsögð skylda landsstjórnarinnar að bregðast fljótt og vasklega við og gera alt sitt til að stemma á að ósi og koma þessu í rjett horf hið fyrsta. En eigi veit maður til þess, að fjármálastjórnin hafi í rauninni gert neitt til að bæta úr þessum ófögnuði. Og er hið óbreytta ástandi sem mun að mestu enn ríkja í peningamálunum, ljóst vitni þess. Landsstjórnin er yfirstjórn bankanna og ber á hverri stundu skylda til að vaka yfir fjárhagslegu velsæmi þjóðarinnar og hreinum og öruggum viðskiftum við önnur ríki. Í þessum efnum hefir stjórnin því brugðist skyldu sinni, og henni ábyrgðarmikilli. Þótt fjármálastjórnin kynni nú að vilja segja sem svo, að hún hefði að einhverju leyti reynt að bæta eða bætt úr þessum fjárhagsvoða, þá er það þýðingarlaust, því annars vegar hefir hún játast undir þá stefnu í fjármálum, er sannar best, að stjórnin hefir látið það ógert, er átti að gera, og hins vegar sker óbreytt reynsla best úr því, að alt er ólagað í þessum málum.

Vanrækslusakir stjórnarinnar liggja þá fyrst og fremst í því, að hún hefir annars vegar látið seðlabankanum, að því er best verður sjeð, óátalið haldast það uppi að brjóta í bág við lagaskyldur sínar við þjóðina, er hann hætti að yfirfæra nauðsynlegar fjárhæðir, og kemur jafnframt háskalegu óorði á fjármál landsins, og hins vegar hefir stjórnin vanrækt það eina úrræði, sem að öðru leyti sýndist tiltækilegt til að komast út úr ógöngunum, og það var að gera sitt ítrasta til að tryggja landinu lánsfje, og það sem ríflegast, er til mætti taka, er í nauðir ræki, og reyna með því að koma í veg fyrir það, að þjóðin gæti nokkru sinni staðið ráðþrota fjárhagslega, hvað sem fyrir kynni að koma í viðskiftum við þá lánardrotna, sem fyrir voru, og með tilliti til starfa og úrræða landsmanna að öðru leyti. Það hafa engin rjettmæt rök verið færð fyrir því t. d., að Ísland hefði eigi, eins og ýms nágrannalönd, fengið sinn bróðurpart í lántöku hjá Ameríkumönnum, ef laginn og kunnugur maður hefði verið látinn leita þess með festu og alvöru. En það er nú svo langt frá því, að þetta hafi verið gert, eða eigi að gera, að fjármálaráðherra (M. G.) hefir lýst yfir því sem sinni stjórnmálastefnu, að lán eigi yfirleitt ekki að taka. Ef um lántöku er að ræða, sjer hann alstaðar ljón á veginum. Hann skiftir þeim í ýmsa flokka, eftir því, í hverskonar augnamiði þau skuli takast, og niðurstaðan verður ávalt hin sama: ekki taka lán. Jafnvel hagstætt peningagengi í sambandi við lántöku hjá öðru ríki er illa fallið til lántöku, að hans skoðun, því þá er um spekúlationslán að ræða, en það er einn fordæmingaflokkurinn hjá hæstv. fjrh. (M. G.) í fjármálaræðu hans í byrjun þessa þings. Annars er það þess vert, að því sje veitt athygli, hvað hæstv. fjrh. (M. G.) hefir látið í ljós hjer á Alþingi um lántökuaðstöðu sína í Danmerkurför hans á síðastliðnu hausti. Hann lætur þess getið, að ekki einungis honum hafi þótt óþarft eða órjett að taka eða leita láns í þeirri för, heldur hafi bankastjórar, sinn frá hvorum bankanum hjer, er þá voru báðir staddir í Danmörku, verið sjer sammála um þetta atriði, að ekki hafi verið, eins og á stóð, tilefni til lántöku. Þetta verð jeg að segja, að sje mjög merkileg yfirlýsing af hálfu hæstv. fjrh. (M. G.). Mönnum mun kunnugt um það, að þegar þessu fór fram í Kaupmannahöfn, var fyrir þó nokkuð löngu komin hin mesta óreiða á yfirfærslu Íslandsbanka og afstöðu hans til viðskiftabankans. Þá var það meðal annars komið fram, að hátt upp í miljón króna ávísun bankans til handa landssjóði og greiðslu í Kaupmannahöfn var synjað innlausnar. Og fyrir sama tíma var vitanlegt, að margar löglegar yfirfærslur hjeðan, er bankinn átti að annast, bæði til Danmerkur og fleiri nálægra landa, voru komnar í strand af getuleysi hans. Mjer er spurn: Hvernig í ósköpunum gat Íslandsbankastjóri undir þessum kringumstæðum haldið því fram, að ekki væri ástæða til lántöku? Það er svo ósennilegt, að jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á, að maður með rjettu ráði, — og jeg verð að gera ráð fyrir, að svo hafi verið, — haldi slíku fram. Og þótt svo hefði verið, var það tvímælalaus skylda fjrh. (M. G.), sem yfirmanns bankanna, að hafa vit fyrir þeim, ef svo hefði verið ástatt fyrir einum bankastjóranna, að hann vissi ekki, hvað til síns friðar heyrði. Sá fjármálaráðherra, er þessu hefir farið fram, má ekki gegna svo þýðingarmiklu embætti. Þeir þingmenn, sem vilja bera í bætifláka fyrir slíka fjármálastjórn, eru sannarlega brjóstheilir.

Það, sem hefir auðkent flesta mikla menn, sem þessi þjóð hefir eignast, er það, sem þeir hafa gert eða vi1jað gera, í trausti þess, að hjer sje góð þjóð og gott land, sem launi það, sem því er vel gert. Nú er bæði þjóð og land í niðurníðslu og órækt, og þarf þess við, að allir góðir menn hjálpist til að bæta það, sem aflaga fer. Til þess þarf bjartsýni, trú og framsýni. Í þessari endurbótastarfsemi þurfa fulltrúar þjóðarinnar meðal annars að kosta kapps um að ráða þá eina til forystu um fjármál sín, sem gæddir eru þessum kostum. Það er í gamni haft eftir manni, er eitt sinn átti sæti á Alþingi, að hann hafi yfirleitt tjáð sig mótfallinn fátæktinni. Á líkan hátt mætti segja um núverandi fjrh. (M. G.), að hann sje mótfallinn því að taka lán eða skulda. Það væri auðvitað best, að allir væru svo efnum búnir, að hvorki þektist fátækt nje skuldir. En þessu er ekki að fagna. Þess vegna á hver einstaklingur og öll þjóðin að kappkosta að varðveita lánstraust sitt og fara vel með það, til þess að geta þeim mun betur gripið til þess þegar mikið liggur við, og þakka fyrir að fá lánað til þarfa sinna eða til þess, er þeir vilja leggja í sölurnar til nytsamlegra framkvæmda eða menningarbóta. Lengra má það ekki ná. Hófsamleg sparneytni er jafnprýðileg í fari þings og stjórnar sem búraskapurinn er auðvirðilegur í vanræktu þjóðfjelagi.

Þýðingarmesti þátturinn í stjórn þessa lands nú á tímum er meðferð fjármálanna, og með hverjum deginum, sem líður, gerast þau ávalt ábyrgðarmeiri, og jeg hefi ekki leynt því, að ógeð mitt og vantraust til núverandi stjórnar á mest rætur sínar að rekja til fjármálastjórnarinnar, ekki athafna hennar, heldur athafnaleysis, ekki hvernig hún hefir rækt starf sitt, heldur hvernig hún hefir vanrækt það.

Þetta tómlæti, stefnuleysi og athafnaleysi stjórnarinnar kemur ekki einungis fram í meðferð hennar á fjármálunum, heldur og á ýmsum öðrum sviðum.

Það er að vísu svo, að stjórnin getur varla þakkað þjóð nje þingi fyrir að hafa lagt mikilsverð mál upp í fang hennar til þess að flytja þau og berjast fyrir þeim. En því síður getur þjóðin og þingið þakkað stjórninni fyrir að hafa handsamað einhverjar hugsjónir og boðist til að standa og falla eftir því, hvort henni má takast að bera þær fram í veruleikann. Stjórnin hefir tapað sjálfstæði sínu gagnvart þinginu, og þingið hefir tapað sjálfstæði sínu gagnvart stjórninni. Hin stjórnarfarslega ábyrgð er á sífeldum flótta frá einum ráðherranum til annars, og hin pólitiska ábyrgð er á vergangi milli þings og stjórnar. Alt orkar tvímæla, og í stað fastra ákvarðana og yfirlýsts vilja af hálfu stjórnarinnar í viðskiftum við þingið minnir hún mjög á sögnina um vjefrjettina í Delfi, þar sem hinn slóttugi helgitrúður kvað tvíræð orð, sem á eftir mátti færa heim á marga vegu, eftir því sem á þurfti að halda.

Af öllu þessu leiðir pólitisk spilling, sem þarf að koma í veg fyrir. Það þarf að breyta um bæjarbrag á þessu stóra heimili, og það verður naumast gert nema með því að breyta um húsbændur. Og það verður að fara fyrir hæstv. ráðherrum í þessu efni eins og stundum á sjer stað um hjón, að hvort verður að gjalda misgerða hins, ef þau hafa ekki borið gæfu til að slíta samvistum áður en í ilt var komið. Þetta veit jeg að er hæstv. ráðherrum nægileg skýring frá minni hálfu um sameiginlega afstöðu mína til þeirra allra.

Það er annað en skemtilegt að vera á þennan hátt að amast við mönnum, sem engin ástæða er til að ætla að vilji annað en gott eitt og manni er vel til á ýmsa lund. En hjer eiga við ummæli Jóns Sigurðssonar, er hann ræðir um orsakir til þess, hve menn hafi ilt lag á að koma sjer saman, og segir, að komi „af því, að svo fáir geti rakið mál til fullnustu og leitt fyrir sjónir grundvallarástæður þess og þau atriði, sem mest ríður á. En þegar það verður ekki gert, lendir alt í lagi um eitthvert einstakt atriði, sem oftlega er minst í varið, en aðalmálið verður á hakanum.“

Ef hið háa Alþingi vildi gera sjer ljósar grundvallarástæður þess máls, sem hjer er til umræðu, þá mundi ekki lenda í því lagi um aukaatriðin, sem þessu máli, eins og svo mörgum öðrum þingmálum, er spilt með.

Hjer skiftir það alls ekki máli t. d., hvort lagafrv. þau, er stjórnin á nú fyrir þinginu og henni getur ekki verið svo sárt um, ef að vanda lætur, standa eða falla. Er það stjórnarfrv., — þ. e. korneinkasalan, — er helst hafði á sjer nokkurt stefnubragð, nú þegar svæft í hv. Ed., svo að þar er ekki eftir neinu að bíða. Og hin stjórnarfrv., sem helst lúta að auknu og breyttu skattamati, þar sem ekki er öðru að að hverfa en þverrandi tekjustofnum af verðföllnum eignum, eru engan veginn þess eðlis, að stjórnin geti fleytt sjer á þeim fram af þessu þingi. Ekki er það heldur lítilfjörleg breyting á kosningalögunum, og ekki utanríkismálin, sem allir eru sammála um, ekki hvað lánin eigi að heita, sem tekin eru til viðreisnar atvinnuvegum þjóðarinnar.

Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að mikilsvert væri, að gott samkomulag væri milli stjórnarinnar og þingsins. Hún þyrfti að fá að vinna verk sín í friði, ef hún ætti að koma einhverju til leiðar. En það er undir því komið, hvort stjórnin beitir sjer fyrir nokkrum þjóðþrifamálum og styður atvinnuvegi landsins, hvort hún verðskuldar gott samkomulag eða ekki. (Atvrh. P. J.: En nýja stjórnin). Já, nýja stjórnin á einmitt að gera þetta. Ef þingið er óánægt með núverandi stjórn, þá á það að skifta um stjórn, þar til hæfir menn fást í ráðherraembættin. „Leitið, og þjer munuð finna“, stendur þar. Og í þessu sambandi má minna á það, sem Jón Sigurðsson sagði, sem sumir af þeim, sem hjer eru inni, hafa lesið: „En ef hugur þjóðarinnar er gagnsýrður af einhverju máli, þá mun aldrei vanta foringja til að bera það mál fram til sigurs.“ Við vitum, að þjóðin á og hefir átt jarðir, þjóðjarðir, og hún hefir sett landsetum sínum reglur til að fara eftir, og lagt við útbygging, ef út af er brugðið. Það er grundvallaratriði að gera sjer glögga grein þess, hvort ráðherrarnir hafi fremur trygt sjer eða fyrirgert ábúð á þjóðjörðinni, sem þeim var bygð. Jeg held því fram, að þeir hafi ekki setið jörðina betur en svo, að þeir hafi brotið af sjer ábúðarrjettinn, samkvæmt hinum óskrifuðu lagareglum þjóðarinnar um bygging og ábúð þeirrar jarðar. Á það og ekkert annað að ráða úrslitum, er hv. deild sker nú úr um þetta mál.