16.03.1921
Neðri deild: 24. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3737)

87. mál, vantraust á núverandi stjórn

Þórarinn Jónsson:

Jeg var að hugsa um fyrir stundu síðan að kveðja mjer hljóðs og gat þess við forseta, þó með lítt ráðnum huga, því umr. hafa nú snúist þann veg, að ilt er að festa hönd á atriðum þeim, sem færð eru stjórninni til sekta.

Jeg leit svo á í öndverðu, þegar þessi till. hv. þm. Dala. (B. J.) var komin inn í deildina, að hún myndi á sínum tíma verða til einhverrar skemtunar, og jeg sannfærðist um, að það hefði verið rjett ályktað, þegar jeg var búinn að hlusta á framsöguræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Því aðalásakanir sínar á stjórnina var hann búinn að ræða um áður í ýmsum samböndum, og hann lýsti yfir því, að tilgangur sinn væri annaðhvort að fella stjórnina eða tryggja hana í sessi, og jeg get ekki orða bundist um það, að rök hans fyrir því, að stjórnin ætti að fara, fundust mjer æðiveigalítil.

Svo hafa aðrir, sem till. þessa eiga að bera uppi, haldið hrókaræður henni til varnar og bannsungið stjórnina. Það eru þeir austanmennimir, hv. 1. þm. Ám. (E. E.) og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), og neyðist maður þá til að hugsa á þá leið, að þeir sjeu til þessa kjörnir af flokki þeim, sem skipa á næstu stjórn, og að þeir sjeu skærustu ljósin, sem skína eigi í þessum framtíðarflokki.

Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) telur alt ólag á atvinnuvegum þjóðarinnar stjórninni að kenna, og var það ekkert smáræði, sem hann taldi upp. Hann vildi kenna stjórninni um hengingarvíxla þá, sem mjer skildist þó, að hann að einhverju leyti hefði átt sinn þátt í að snúa að hálsi bændanna austanfjalls. Og honum varð skrafdrjúgt um það, sem þm. eru nú farnir að kalla „lánleysi stjórnarinnar“, og þykir mjer þá hlýða að snúa mjer að þeirri hlið vantraustsins.

Það er langt síðan blöðin básúnuðu það út um alt land, að við ættum að taka lán; stjórnin ætti að taka lán handa bönkunum og bankarnir að lána það aftur einstaklingunum. Og fjármálastjórninni er talin það dauðasök að hafa ekki gert þetta. Jeg býst nú við, að þessu sje fremur haldið fram vegna þess, að þetta og því um líkt gengur svo vel í fólkið, heldur en hitt, að taka eigi lán til atvinnuvega þeirra, sem atvinnurekendurnir sjálfir viðurkenna að ekki geti borið sig, eins og fjöldamörg dæmi sýna og sanna.

Af hverju er hagur Íslandsbanka sá, sem raun ber vitni um ? Af því, að hann hefir lánað til óvissra fyrirtækja, í hreinni og beinni vitleysu. Hann hefir lánað mönnum fje sitt til þess að tapa, og bætt svo við, til þess að þeir hinir sömu menn gætu haldið áfram að tapa. Er nú nokkurt vit í slíku? þarna er fordæmið, sem þessir hv. þingmenn halda svo mjög á lofti og lasta stjórnina fyrir að hafa ekki fylgt.

Jeg tel ekki einhlítt fyrir Íslendinga að fara utan, þegar alt er komið í kalda kol, og segja við heiminn: Okkur er óhætt, við höfum fjármálaspekinga heima í okkar landi, sem bjarga okkur, svo sem hv. 1. þm. Árn. (E. E.) og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og hv. þm. Dala. (B. J.). (B. J.: Og hv. 2. þm. Húnv. (Þór. J.). Nei, hann er alls ekki með í þeim flokki.

Útgerðarmennirnir sjá nú, að ekki er lengur hægt að halda þessa braut, og þess vegna hafa þeir dregið seglin saman og bundið skip sín við landfestar. Þeir þekkja ekki þá bjargarleið út úr öngþveitinu að taka nýtt lán til þess að tapa á því líka.

Og það er lítið við það unnið að stofna ríkinu í nýjar skuldir, bara til þess, að menn, eins og þessir hv. þm., sem jeg nefndi, reki sig á. Ríkið hefir þegar nóg á sinni lánskönnu. Þess vegna get jeg ekki fylgt þeim mönnum að málum, sem segja, að stjórnin eigi að taka lán handa mönnum, sem gert hafa einhverja vitleysu. Stjórnin á ekki að trúa fjármálaafglöpum eða vitfirringum á því sviði fyrir fje sínu.

Við getum litið til baka í fjármálasögu þessa lands. Þar er margan mætan mann að finna, sem með gætni sinni og viti rjeð fram úr mörgum vanda og voru fastir fyrir. Einn af þeim var Magnús Stephensen landshöfðingi. Engan ljet hann snúa sjer frá því að fara varlega og spara landsins fje. Enginn mun þó telja, að hann hafi verið hættulegur fjármálum þessa lands. Menn hafa verið að metast um það, hverjir sjeu að setja landið á hausinn, sparnaðarmennirnir, þeir, sem varlega vilja fara, eða hinir. Við höfum vitanlega ekki annað en spádóma þeirra manna, sem halda því fram, að öllu hafi mátt bjarga með lántökum stjórnarinnar. En þó vitum við, eins og jeg hefi þegar tekið fram, að allur atvinnurekstur gerist ekki nema með tapi á tap ofan, og eru þá spádómarnir lítilvægir.

Hitt er vitanlegt, að stjórninni ber skylda til að standa ekki í vegi fyrir því, að sú atvinna fari fram, er til endurbóta horfir og hagnaðar, og taki lán til þess, ef ástæða þykir til og til framtíðarhagsælda er stofnað. En það er alt annað en taka lán og veita fje til þess, sem nú á sjer stað með sjávarútveginn, þar eð því fje er vissulega kastað í sjóinn.

Jeg get nú búist við, að þeir telji þessa skoðun mína ekki mikla speki, fjármálavitringarnir hjer í deildinni, sem altaf eru að klifa á „lánleysi stjórnarinnar“. Þeir um það. Framtíðin sýnir okkur ef til vill, hvor skoðunin er haldbetri.

Þá er það sú hlið þessarar vantraustsyfirlýsingar, sem veit að þinginu sjálfu. Eins og nú stendur, er flokkaskifting þingsins mjög á reiki. Það má segja svo, að enginn samstæður flokkur sje til í því. Sumir eru mikið að leysast upp, aðrir að nafninu til að myndast og draga að sjer, en alstaðar er sundrungin því valdandi, að þetta hefir ekki tekist til neinna muna. Og þótt menn vilji kalla sig framsóknarmenn eða íhaldsmenn, þá er þetta aðeins á pappírnum, og fjarstæðum skoðunum ægir saman.

Það er að vísu einn flokkur, sem heldur nokkurn veginn saman, þversumflokkurinn svo nefndi. En hvort það getur heitið stefna að vera altaf og alstaðar þversum, það læt jeg ósagt, enda er nú farið að kvarnast utan úr þessum flokki.

Það er að vísu eðlilegt, að flokkar leysist upp, sem búnir eru að framkvæma hugsjónir sínar, eða búnir að koma ákveðnum stórmálum, sem þeir hafa sameinast um, í höfn. En um þau stórmál, sem standa nú fyrir dyrum, hafa menn ekkert flokkað sig. Menn hafa ekki heldur skifst eftir því, hvort menn eru í raun og sannleika framfaramenn eða afturhaldsmenn. Meðal framsóknarmanna eru íhaldsmenn, og meðal annara bandamanna eða bandingja, sem væri má ske betra nafn, eru líklega menn með öllum mögulegum og kann ske ómögulegum stjórnmálaskoðunum.

Þessi þingsályktunartill., sem liggur hjer fyrir, gefur því efni til nýrrar flokkaskipunar, þannig að vera með eða móti stjórninni. Og mjer skilst, að þeir, sem nú ætla að byggja upp þinglegan framtíðarmeirihluta, hugsi sjer að taka sinn grautarkökkinn úr hverju fatinu og mynda með því flokk, sem steypa á stjórninni af stóli. En það skil jeg ekki, að slíkur grautur geti nokkru sinni orðið mannamatur.

Sá, sem ber einhverja ábyrgðartilfinningu í brjósti fyrir störfum og gerðum þingsins, hann fleygir ekki svona till. inn á þingið, vanhugsaðri eða illa hugsaðri. En það er öllum ljóst, hversu djúp spor slíkar till. marka í störf þingsins og álit þess út á við til þjóðarinnar.

Þessi till. markar þannig spor í störf, þingsins, að það er ekki einasta, að hún taki mjög upp dýrmætan tíma þess, heldur getur hún einnig fjarlægt samúð ýmsra til þess að vinna að þeim stórmálum, sem liggja fyrir.

Hvað snertir álit þjóðarinnar á þinginu, þá hlýtur von þjóðarinnar og krafa til þingsins að byggjast á því, að alt, sem það framkvæmir, bæti núverandi ástand, eða sje til frambúðar og bygt á rjettum grundvelli. Og mjer blandast ekki hugur um, og það get jeg undirskrifað, að fyrir þinginu núna liggja mörg stórmál frá stjórnarinnar hendi, sem bæði vit og eindrægni þurfa að skipast um.

Það, að fá nú stjórnarskifti, aðeins til þess að koma að einhverjum mönnum, ef til vill mikið lakari en þeim, sem nú eru í stjórninni, með enn þá grautarlegri og sundurlausari stuðningi, með allsendis óákveðnum stefnum í stórmálum þjóðarinnar, það er á hæsta stigi lítilsvirðing á þjóðinni, vilja hennar og framtíð. Hún krefst þess fortakslaust, að þegar þingið skiftir um stjórn, þá sje það gert til endurbótar, en ekki til hins verra. Tíð stjórnarskifti út í bláinn, án þess að nokkrar stoðir falli þar undir, sem í framtíðinni eigi að bera uppi betra skipulag, betri samvinnu og betri skilning á störfum þingsins, þau geta verið háski og alt of dýr skemtun fyrir þá, sem geta gert sjer það að gamni.

Þau mál, er fyrir þessu þingi liggja, hljóta að skifta mönnum í flokka; það eru slík stórmál. Það er að mínum dómi heppileg flokkaskifting, og ein rjett. Og það er þá fyrst, eftir að sú flokkaskifting er komin á og meiri hluti fenginn, að hann getur sett stjórninni stólinn fyrir dyrnar og steypt henni úr völdum, ef hún ekki vill framkvæma vilja þess meiri hluta.

Annars er það nú svo um landsstjórnir, að þar eru eins og þingin skapa þær. Og við sköpum stjórnina ekki síst með því, hvernig við búum við hana. Við fáum aldrei góða stjórn, ef við krefjumst of mikils af henni og lítum aldrei rjettlátlega á alla aðstöðu, en hins vegar getum við gert góða stjórn úr ljelegri með því, að þingið leiðbeini henni og gefi henni góð ráð og bendingar. Þannig er það, að við búum til stjórnina sjálfir.

Jeg efast ekki um, að sú stjórn, sem nú situr, hafi eins mikla hæfileika og sú komandi. Jeg sje, að hv. þm. Dala. (B. J.) brosir. En það er ekki nóg að geta nefnt nöfn, sem honum þykja góð; menn þurfa alment að hafa traust á þeim nöfnum. Og það mætti setja fót fyrir þá menn í stjórnarsessi, eins og aðra, og ekkert síður.

Jeg fæ ekki sjeð, að það sje rjett á neina hlið að samþykkja vantraust á stjórnina, eins og nú standa allar sakir. Auðvitað má eitthvað að henni finna, eins og öllum, en þar með verður ekki sagt, að betra fáist í staðinn.

Þegar jeg því lít á þessar þrjár hliðar, þá, sem að stjórninni veit, þá, sem að þinginu veit, og þá, sem að þjóðinni veit, þá sje jeg ekki annað en þessi vantrauststill. sje bæði ópólitisk og óþingleg.